Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Náttúrusögur/Náttúrudýr

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Náttúrudýr

Óskabjörn. Það var fyrst óttalegur hvalfiskur. Einu sinni þegar Pétur postuli var á fiskiveiðum sótti hvalurinn að honum. Hann fleygði þá vaðsteini sínum í hann og gleypti hvalurinn hann, en strax eftir það dróst hann saman og varð svo lítill eins og hann er nú. Taki maður hann og þurrki heilan og kryfji (krjúfi) síðan finnst í honum steinn eins lagaður og klappaður vaðsteinn. Sá sem ber á sér óskabjörn fær aldrei sinateygjur.

Pétursskip. Það finnst oft óskemmt í maga þeirrar skötutegundar sem kölluð er tindabikkja. Ef hrein jómfrú ber það á brjósti í þrjú ár má kljúfa það. Þá finnast í því þrír steinar. Fylgir þeim sú náttúra að sá sem ber þá á sér drukknar aldrei í vatni, hefir alltaf sigur í máli og skortir aldrei fé.

Lausnasteinn. Hans náttúra er áður nefnd.