Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Náttúrusögur/Rauðkembingur blekktur

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Rauðkembingur blekktur

Af illhvelum var sú saga af rauðkembing að hann væri söðulbakaður sem hestur og færi svo skyndilega sem sár álft á flugi og þeirri sögn fylgjandi sú saga að átján skip hefðu eitt sinn róið til fiskiafla góðan veðurdagsmorgun. Formaður einnar skipshafnarinnar vildi ekki róa þó hásetar hans nauðuðu við hann um það lengi fram eftir degi. En þegar þeir fóru að heimta hlut sinn af formanni lét hann um nónbil leiðast til að róa, en tók í skipið trébút sem lá á fjörunni, fór úr sonefndu koti sínu og vafði því um trébútinn. Þegar hann kom á fiskimiðið sáust engin skip nema molbrotnir flakar og rimlar af þeim, og í því sjá menn hvar rauðkembingur kemur upp úr sjónum og náhvalur bleikur á lit (sem ætíð kvað fylgja hinum sem ekki gjörir nema tortýna, en lætur náhvalinn eta). Þegar rauðkembingur kemur í sjónhæfi verða skipverjar vanmegna af hræðslu, en formaður tekur klædda trébúti[nn] og kastar að hvalnum, en grípur undir öxi og reiðir upp og hótar að setja hana í höfuð þeim er ekki dugi að róa. Þeir taka þá að róa til lands, en hvalurinn er alltaf að ærast við klædda staurinn að kaffæra hann og gefur sig því ekki við [að] elta skipið þar til það er komið til lands. Þá kvað formaður hafa sagt að nú hefði það verið bati að hafa verið í tveimur kotunum. Þessari sögu fylgdi það líka að það væri ráð að róa undir sól til að forðast hann og óþolandi ódaunn kæmi upp þegar þessir hvalir væru í nánd.