Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Náttúrusögur/Rjúpan

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Rjúpan

Rjúpunnar verður og getið að nokkru í V. flokks 2. grein; en hér skal þess getið hvernig það er undir komið að „rembast eins og rjúpan við staurinn.“

Þessi talsháttur er svo til orðinn að þegar maður finnur fyrst á vorin rjúpuhreiður skal ekki taka eggin undan henni, heldur láta hana verpa við. En það má með því móti að maður setji lítinn staur upp á endann niður, sumir segja í mitt hreiðrið milli eggjanna, en aðrir utan við hreiðrið, og hinir þriðju segja að það nægi að leggja tréspæni í hreiðrið svo hærra beri á þeim en eggjunum. Þegar búið er að þessu og maðurinn er genginn burtu sezt rjúpan á eggin og verpir við þangað til hún hefur orpið svo mörgum eggjum að staurinn fer í kaf eða að eggjahrúgan taki jafnhátt honum, sé hann settur fyrir utan hreiðrið, og þaðan er orðskviðurinn dreginn og er hann einnig hafður um það sem örðugt veitir að koma af. Sagt er að rjúpan haldi áfram að verpa þangað til hún hefur orpið nítján eggjum, en deyi að hinu tuttugasta. Skal því hafa gætur á að taka burt staurinn og eggin úr hreiðrinu þegar nítján eru komin því níðingsverk þykir það að pynta fyrst rjúpuna með þessu til að verpa og láta hana síðan bíða dauða af því. Sagt er að jafnan standi á stöku rjúpueggin og ef maður finni fyrst egg á ævi sinni í rjúpuhreiðri eigi hann að eignast jafnmörg börn á síðan. Aðrir segja að einu gildi hvaða hreiður maður finni fyrst, barnatalan fari eins eftir eggjafjöldanum fyrir það. Ekki má hafa rjúpnafiður í sæng sem ólétt kona sefur á, því þá getur hún ekki alið barnið. Ef þunguð kona borðar rjúpnaegg verður barnið sem hún gengur með freknótt.