Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Náttúrusögur/Selurinn

Úr Wikiheimild

Um selinn er það algeng frásaga að hann sé maður í álögum, og er sagt að liðið hans Faraós sem í Rauðahafinu drukknaði hafi orðið að selum og þaðan sé allt selakyn komið. Það er ennfremur sagt að selurinn komist úr álögum og verði að manni hverja þrettándadagsnótt í jólum (ᴐ: jólanóttina gömlu). Þar að lýtur eftirfylgjandi frásaga:

Maður einn var á gangi með sjó í tunglsljósi á þrettándadagsnótt jóla. Sá hann þá hvar margt fólk var að leika sér í fjörunni allsnakið. Þókti honum þetta furðanlegt og gekk nokkru nær. Hitti hann þá selshami marga blauta, tók einn belginn og fór að skoða. Í sama bili varð dansfólkið vart við hann. Hljóp það þá allt þangað sem belgirnir voru, og í sama augabragði fór það í belgina og út í sjó nema stúlka ein varð eftir; hún var að leita að hamnum sínum. Kom hún til mannsins og bað hann um belginn sinn, en hann lét hann ekki falan. Bauð hann henni heim til sín og það þáði hún. Hafði hún þá allt manneðli og giftist nokkru síðar manninum og átti með honum þrjú börn. Eitt sinn þegar börn hennar voru öll hjá henni segir hún: „Mörg á ég nú börnin hérna, en fleiri á ég þau í sjónum.“ Það er nú frá selshamnum að segja að maðurinn bar hann heim með sér og læsti hann ofan í kistu og hafði jafnan lykilinn á sér hvað sem hann fór. Eitt sinn þegar hér var komið sögunni fór bóndinn í ferð eina og gáði ekki að að taka með sér kistulykilinn. En þegar hann var heim kominn var konan horfin ásamt belgnum úr kistunni og hefir ekki sézt síðan, því þegar hún var búin að ná selsham sínum fór hún alfarin í sjóinn til fyrri barna sinna.