Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Náttúrusögur/Selurinn og skatan í Lagarfljóti

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Selurinn og skatan í Lagarfljóti

Straumur heitir bær einn; hann stendur að norðanverðu á bakkanum á Lagarfljóti í Kirkjubæjarsókn. Fram undan bænum liggur skata ein í fljótinu. Hún hefur níu hala og er óvættur mikill. Gerði hún mörgum manni mein því þar er ferjustaður. Loksins kom þar kraftaskáld að og kvað hannn skötuna fasta niður við botninn í fljótinu. Síðan hefur hún engum mein gert. – Það er til sannindamerkis um það hversu skata þessi er eitruð að svo bar við einu sinni eftir að hún var föst kveðin að sakamaður nokkur synti upp fljótið. Kom hann þá við skötuna með stóru tánni og varð honum kynlegt við. Hann fór þegar á land og sá að táin var svört og uppblásin. Hjó hann þá tána af þegar. Þessi vísa hefur verið gerð um skötuna:

„Skatan liggur barðabreið
und báruglaumi,
snýr upp hrygg og engu eirir
undan Straumi.“

Annar óvættur er sá í Lagarfljóti er margt mein gerði. Það er selur einn stór og mikill. Hann liggur undir fossinum í Lagarfljóti utar en skatan. Hann var og að lyktum kveðinn fastur við klettinn undir fossinum og þar liggur hann og má sig engum til meins hreyfa.