Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Náttúrusögur/Skötutjörn

Úr Wikiheimild

Skötutjörn heitir á Þingvöllum í Árnessýslu tjörn ein lítil, landnorðanvert við túnið. Er það pollur einn luktur klettum. Úr polli þessum liggja gjáteygingar heim undir kálgarðinn sem er fyrir austan tröðina heim að Þingvallabæ, og í enda gjárinnar er vatnsbólið frá Þingvöllum. Þegar maður lítur yfir tjörn þessa og gjáteygingarnar úr henni heim undir bæinn er það ekki ólíkt því sem þar lægi skata með mörgum hölum, og sést það bezt þegar maður hefir fyrir sér nákvæman uppdrátt af staðnum. En þó dregur tjörnin ekki nafn sitt af líkingunni, heldur er sú saga til þess að til forna var vilpa ein eða vatnsgjá í eldhúsinu á Þingvöllum og var þar nóg veiði í handa bæjarmönnum, en þó mátti ekki veiða þar meira en nægði til næsta máls og var það því varazt. Nú urðu ábúendaskipti á Þingvöllum og kom þangað ágjarn bóndi. Hann lét sér ekki lynda að veiða til næsta máls í eldhúsvilpunni, heldur settist hann við og dró þar ógrynni öll af silungi. Þegar þetta hafði lengi gengið dró hann loksins skötu með sjö hölum – eða níu sem sumir segja. Bónda leizt ekki á þenna drátt og hélt að hann hefði dregið sjálfan skrattann í skötulíki. Hann dröslar þó skötunni austur í tjörn þessa og dregur hún síðan nafn af því. En af eldhúsvilpunni veiðisælu er það að segja að þar hefir aldrei orðið silungs vart síðan.