Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Náttúrusögur/Steinninn bezóar eða lífsteinn

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Steinninn bezóar eða lífsteinn

Það hagleiks heilsu og lukku brauð, sú rauðabaun, sjálfur lífsteinninn sem kallast bezóar, um hann er nóglega sagt í þeim francforisku bókum. So hafa þeir gömlu skrifað af honum að í þessu litla beri væru fólgnar allar heilsubætur sem skapaðar hafi verið í öllum öðrum náttúrusteinum, urtum, grösum og viðum til lífs og heilsu. Lífsteinn kallast hann af því hann lengir líf manns og gefur heilsu með; lífgar krummi með honum unga sína; þar um er svo skrifað: Sezt niður móti hrafnsunga í hreiðri, tak alla burt og drep þá, en kreist að kverk hans til dauðs og lát lítið kefli í gin hans so hálfopið sé, vitja síðan um. Sé hrafninn þar til duganlegur sækir hann lífsteininn og lætur í munn hans. Sem þú sér ungann með lífi og þessa rauðu baun í hans nefi þá tak steininn, en gef lausan ungann. Þeir vísu krummar æla upp þeim góðu steinum, fela og geyma mjög kænlega. Þeir eru vísir, grimmir og torsóktir. Reynzt hefur að sá hrafn sem náir að eta mannshjarta verður öllum öðrum vísari. Hann veit af því öllu sem fólgið er ásamt mörgu öðru fáheyrðu; mest og flest vita blæingar í bóli sínu við dagsbrún; volkast nokkuð vizkan hans þá vasar í sinna bræðra krans.