Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Náttúrusögur/Sumartunglið

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Sumartunglið

Fyrsta tungl í sumri er kallað sumartunglið eða sumartunglið fyrsta. Þegar maður sér það allra fyrst á vorin skal maður ganga þangað sem menn eru fyrir, en hvorki láta á því bera við þá að maður hafi séð sumartunglið né yrða á neinn að fyrra bragði, heldur bíða þess að annar ávarpi sig og setja á sig hvernig þeim fara orð til sín. Þegar hann er svo ávarpaður sem séð hefur tunglið er það kallað „að svara einum í sumartunglið“; en mikið þykir undir því komið hvernig það er gjört. Sé manni t. d. boðnar góðar nætur þá er sá feigur sem svarað er og þar fram eftir, eftir því sem í orðunum liggur. „Varaðu þig, hann er valtur,“ sagði vinnukona við stúlku, hún ætlaði að setjast á kistil. Þessu var henni svarað í sumartunglið og um sumarið sagði unnustinn henni upp o. s. frv. Því þykir orðheill mikils varðandi í þeim efnum; því svo á hverjum að vegna að sumrinu sem honum er svarað í sumartungl á vetri eða vorið fyrir.