Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Náttúrusögur/Tvíbytnur

Úr Wikiheimild

Á ýmsum stöðum á Íslandi eru kallaðar „tvíbytnur“; það eru vötn sem sagt er að hafi samrennsli undir jörðinni, en svo djúp að enginn finnur botn í.

Þannig eru kvarnir tvær í Þorskafirði sem kallaðar eru Kóngavakir. Þó fjörður þessi sé svo grunnur að maður geti riðið yfir hann um fjöru er sagt að þessar vakir séu ómælandi djúpar og hafi menn rennt í þær 120 faðma löngu færi með sökku á, aðrir segja heilli færatunnu, og ekki náð til botns. Ekki leggur heldur sjóinn á þessum stað eins og nafnið bendir einnig á eða mjög seint og sjaldan. Frá þessum vökum í Þorskafirði er sagt að sé samrennsli við Ísafjörð og því sé jafnhátt í sjónum á báðum stöðunum, bæði með aðfalli og útfalli. Til merkis um samgöngur fjarðanna er það sagt að einu sinni hafi stórflyðra sem komið hafi á öngul í Ísafirði, en rifið sig af aftur, komið í ljós á þessum stað í Þorskafirði með önglinum í sér.

Nálægt Víðivöllum í Blönduhlíð í Skagafirði er pyttur einn í mýri þar út á klöppunum; hann heitir Ráðskonupollur. Sagt er að ráðskonan frá Víðivöllum hafi dottið í hann og hafi hún síðar fundizt rekin út á Borgarsandi á Reykjaströnd, og samrennsli neðanjarðar hafi borið hana þangað.