Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Náttúrusögur/Vandhæfi á bjarnardrápi
Útlit
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862)
Vandhæfi á Bjarnardrápi
Vandhæfi á Bjarnardrápi
Þegar búið er að særa bjarndýr til ólífis og það er lagzt fyrir til að deyja þá er það níðingsverk að veita því framar áverka og er það tilgreint því til sönnunar að fyrir næstu aldamót veittust Skagamenn að einu bjarndýri og drápu það. Þegar það var búið að fá banasárið lagðist það á skafl og sleikti sár sín. En þá veitti einn því nýjan áverka og varð sá hinn sami ólánsmaður upp frá því.
Það er og haft í munnmælum að ef bjarndýr sem lagt er til ólífis rekur upp org eitt eða fleiri áður en það deyr þá er það trú að það kalli með því ættingja sína til hefnda eftir sig og eigi að koma þangað jafnmörg bjarndýr árið eftir eins og orgin voru sem það rekur upp árið fyrir og vinna á þeim sem björninn eða birnuna hafa unnið árið fyrir.