Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Náttúrusögur/Vondir steinar

Úr Wikiheimild

Það er alkunnugt að til eru lausnarsteinar, en það eru einnig til steinar sem gagnstæða verkun hafa. Helga Magnúsdóttir amma mín,[1] merk kona og skýr, dáin 1836 rúmlega sjötug, sagðist í ungdæmi sínu hafa átt fullan kistil af fallegum steinum sem hún hafði fundið og safnað. Einu sinni lagðist þar kona á gólf og gat ekki fætt hvað sem til var reynt. Loksins segir einhver það komi líklega til af steinunum hennar Helgu. Hún sagðist þá ekki hafa verið sein á sér að hlaupa út með kistilinn, en rétt þegar hún var komin út með hann fæddi konan barnið. Henni þókti þá auðsætt að í kistlinum hefðu verið steinar sem tálmuðu fæðingunni. Litlu seinna fékk karl einn hjá henni alla steinana hennar.

  1. Þ. e. sr. Jóns Norðmanns.