Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Árni Jónsson Eyjafjarðarskáld

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Árni Jónsson Eyjafjarðarskáld

Í Eyjafirði var maður nokkur er Árni hét og var Jónsson, kenndur fyrst við Stórhamar, en seinast við Sámsstaði hvar hann bjó og deyði. Í æsku var hann kátur og snemma hagorður; orti hann ýmislegt, bragi og vísur margar, og lýsti það góðri náttúru hans til skáldskapar hefði menntun og auðna fylgt. Margt er af þess háttar í minnum Eyfirðinga enn í dag og væri þess vert að því væri saman haldið. Til var eftir hann Bjarkarbragur, Brauðbragur og ljóðabréf nokkur og fleira auk fjölda af stökum vísum sem hann nær því við hvert atvik kastaði fram.

Einu sinni þá hann var sem vinnumaður á Stórhamri vildi svo til um sumartíma að vinnukona braut þar hrífu og þorði ekki að segja húsbóndanum sem fékk henni hrífuna nýja um morguninn. Árni tekur þá hrífubrotin og býðst til að stilla reiði húsbóndans sýnir honum hrífuna og segir undir nafni stúlkunnar:

„Hún liggur hér dauð
hrífan sú í morgun,
fellur á mig flest nauð,
fæ ég af því hástun,
augun standa alrauð,
olli tára því hrun
mér er þörf á miskun.“

Þegar Árni var fullorðinn fór hann að hugsa til kvenfólksins og gekk honum ekki fljótt að gifta sig því allar sáu að aldrei mundi hann búhöldur verða í lagi, en efni skorti. Eitt sinn lofaðist honum stúlka sú er Sigríður hét, lagleg stúlka og efnileg, en bráðum sagði hún honum upp aftur; en um leið og hún gjörði það bauð hún honum að borða mat hjá sér og kvað hann þá þetta:

„Ætlarðu ekki elskan mín
ég muni sorgir bera?
Meira er að missa þín
en matarins án að vera.“

Líkt fór og um fleiri. Loksins komst hann í kunnleika við stúlku þá er Ingibjörg hét og þókti lítill kvenkostur; þar um orkti hann:

„Fyrir mér liggja forlög örg,
– fleira er gaman en drekka vín, –
ef að þessi Ingibjörg
á að verða konan mín.“

Hann giftist henni samt litlu síðar og kvað að því búnu:

„Nú eru glötuð gleðistig
sem gjörði ég fyr við una.
Síra Magnús setti á mig
svörtu hnapphelduna.“

Reyndist það líka sem hann sagði í byrjun vísunnar því búnaður hans með Ingibjörgu fór í litlu lagi og lifðu þau við sult og seyru; varð hann af því dapur og þunglyndur.

Oft fór hann til Grímseyjar til bráða sér og átti þar sem víðast góðu að mæta, því fáskiptinn var hann, en þó skemmtiligur öllum er tóku hann tali. Kona nokkur í eyjunni er Þorbjörg hét varð vinkona hans; til hennar kvað hann fallegt ljóðabréf. Í bréfinu segir hann henni frá ferðinni til landsins; höfðu þeir fengið ofviðri og sjói stóra og urðu að ryðja miklu af skipinu og missti Árni þar mat sinn sem aðrir. Þegar hann er að segja henni frá þessu er ein vísan:

„Lifi ég enn með láni stóru,
liggur það í ættinni;
ýsurnar hans Árna fóru
eftir fiska vættinni.“

Þetta hafði honum gefizt í eyjunni því ferðin var til skreiðarkaupa, en Árni var ætíð kaupleysingi.

Í bágendum sínum hvarflaði Árni víða, en aldrei kom hann í húsganga tölu því allir virtu hann sökum ráðvendni hans og gáfna og gjörðu honum fúslega gott. Einu sinni kom hann að Bæsá og gjörði presti Jóni Þorlákssyni boð að finna sig út; prestur kom út fátækliga búinn sem vandi hans var og sér mann á hlaðinu því fátækligar til fara. Maðurinn heilsar presti sem ekki þekkir hann og spyr hver hann væri. Árni segir:

„Hér er kominn á höltum klár
halur úr Eyjafirði,
ótiginn og efnasmár,
ekki mikils virði.“

Prestur kannaðist þá við manninn og mælti: „Á, ertú það, vertu velkominn og komdu inn með mér.“ Hvorugum leiddist um nóttina; hjöluðu þeir margt og köstuðu fram margri stöku. Þeir ræddu um hreppstjórana sem þá nýlega fengið höfðu vald til að flengja; var þá líka einn þeirra nýbúinn að hýða tvo lausamenn öðrum til fyrirmyndar; um hann kvað Árni:

„Gekk á vaðið vöndinn með
vopna glaði meiður,
eins og faðir aga réð,
afrekaði heiður.“

Fleira orkti hann þá þess efnis sem ekki er hér talið, en prestur kvað á móti og léku þeir sér að því að kveða sína vísuna hver; þá kvað prestur vísurnar: Ögmundur fékk engin gjöld, Kappar báru skjóma og skjöld og Hreppstjórunum heiður ber og fl. Allt sem þeir kváðu um hreppstjórana kölluðu þeir hreppstjóravísur og hentu mjög gaman að.

Einu sinni um hávetur kom Árni að Sörlastöðum í Fnjóskadal. Hjónin sem þar bjuggu, Þórður Pálsson og Björg Halldórsdóttir, þekktu hann, því áður hafði hann til þeirra komið og tóku þau vel við honum því þau höfðu nokkrar mætur á honum. Þegar hann kom var hann mjög fálátur og eins og menn segja utan við veröldina; ekkert talaði hann nema gegndi því sem á hann var yrt og þó dræmt. Fljótt bráði samt af honum þegar konan sem gáfuð var og glaðlynd fór að tala við hann. Stúlkubarn lék á loftinu skammt þar frá sem Árni sat á rúmi með olboga á knjám sér, en studdi höndum undir kinnar. Barnið var oft að horfa á gestinn og eins og börnum er títt að fara ýmist fjær honum eða nær. Einu sinni segir móðir þess við það: „Kysstu manninn,“ en barnið ýgldi sig og sneri burt frá honum. Þá segir Árni eftir litla þögn:

„Það má skilja þrautir beygja
þann sem búa stirt við á;
ekki vilja ungar meyjar
að mér snúa héðan í frá.“

Bezt féll honum að rætt væri um skáldskap og var honum veitt það því konan sem sjálf var vel hagorð gat honum til ánægju um það rætt. Fór hann þá að segja henni margar vísur sínar; hann sagði henni líka frá gistingu sinni á Bæsá hið sama sem hér er sagt. Ritaði hann þá á blað þessar vísur sem hann sagðist hafa kveðið veturinn áður:

Strangur var þorri,
í þjóstgremju hvorri
hann þorði að herja;
hans snarpur geðssnorri
á veikri húð vorri
vildi fast erja;
í kafalda korri
sá nauðungar norri
náði oss berja;
í dái lá dorri;
þá æstist hans orri
sem brimboði skerja.
Komin er góa,
kann mig að óa
við kellingar tetri:
ef hún fer að hóa
um hæðir og móa
á hrellingar vetri
og kyngjukúf snjóa
kastar með lóa
úr kvellingar setri
marga dugmjóa
hún flæmir án fróa
að fellingar Pétri.
Einmánuð betri
af sólheima setri
sendi alvaldur,
þorri kalltetrið.
þessum á vetri
því að var kaldur,
líknstafi letri
í nauð svo ei netri
náttúru aldur;
hörku grand fétri
frá heilögum Pétri
hlýinda galdur.

Fannst það á að honum þókti nokkuð varið í þessar vísur sínar. Einu sinni kom Björg á Akureyri; var þá Árni staddur þar og gekk til hennar að heilsa henni og mælti:

„Þó að mér sveigist ömun táls
angurs fleygi eg byrði
þá sé ég freyju bruna báls,
Björgu úr Eyjafirði.“

Björg var fædd og uppalin í Eyjafirði, dóttir Halldórs bónda Björnssonar hvers áður er getið.[1]

Fám árum síðar var Árni á ferð með mörgu grasafólki sem kom norðan af Reykjaheiði; var það um sumartíma rétt fyrir sláttinn. Þegar kom að Skjálfandafljóti á Eyjarvaði bað stúlka ein sem í ferðinni var – hét hún María, vinnukona á Sörlastöðum, – Árna að reiða fyrir sig lausa svuntu sem hún hafði meðferðis. Árni gjörir það, en þegar bæði vóru komin af fljótinu réttir hann henni svuntuna og segir:

„Eg hefi haldið undir slit
einvaldsþingi fínu;
taktu nú við, falda fit,
forklæðinu þínu.“

Stúlkan nam vísuna.

Að minnum var það haft hversu ræðinn og skemmtinn Árni var í ferð þessari og lét lipurt í kveðlingum fjúka, enda átti hann þá skammt ólifað, því nýkominn heim úr ferðinni veiktist hann af umgangandi landfarsótt og deyði eftir stutta sængurlegu; mun hann verið hafa nálægt sex tugum ára að aldri, en fráfall hans aðborið á árunum 1815 eða 1816.[2] Það má nærri geta að sagan sé miður en hálfsögð, því sá sem hana segir var unglingspiltur í annari sveit þegar Árni dó og hefur hann nú ekki annað við að styðjast en það honum er í barnsminni af vísum Árna og því um hann heyrði þá rætt. Viljann er þó hér að virða sem og hitt að svo er rétt hermt sem bezt vissi. Ekki hefur ritarinn tínt allt er hann kunni af vísum eftir Árna og sem eru í brögum hans og ljóðabréfum og Bæjavísum. En vísum Árna er hann kunni og stakir atburðir kölluðu fram vildi hann ekki sleppa og þó urðu nokkrar ótaldar sem þessar og fleiri:

Árni kom eitt sinn á bæ; hittist svo á að kona fæddi barn rétt þegar hann kom; þá sagði hann:

„Aðsóknin var ekki góð,
um það verður mér nú kennt;
dáðavalin dúkaslóð
datt í sundur rétt í tvennt.“

Á Akureyri vóru þeir eitt sinn báðir staddir síra Sigfús prófastur í Höfða og Árni. Prófasturinn var gleðimaður og skáld gott; var honum forvitni að heyra Árna kasta fram stöku, gengur að honum og segir:

„Knífi beiti ég kjálka fróns,
kjör við þreyti messu þjóns,
Sigfús heiti ég sonur Jóns,
setztur á leiti ævinóns.“

Árni snýst við honum og segir:

„Þó brjóstinu sárni bólið tjóns
beiti ég járni grana fróns,
en hróður kárni hyggju lóns,
heiti ég Árni sonur Jóns.“

Einu sinni um sumartíma bar Árna að seli frá Hvassafelli; bóndadóttir var selráðskona og hýsti hann í selinu um nóttina; hún hét Ingibjörg. Veturinn eftir kom Árni að Hvassafelli; var Ingibjörg þá nýbúin að ala barn. Þá segir Árni við hana:

„Mér var dulið mjög til fulls
hvað með þér bjó í skorðum
í selinu þá, grundin gulls,
gisti ég hjá þér forðum.“

Í ljóðabréfi nokkru sem kveðið var í Norðurlandi veturinn næsta eftir það Árni sálaðist er vísa þessi:

Árni Jónsson andaðist sem yrkja gjörði
og skenkti Ómaskála byrði,
skáldablóm í Eyjafirði.

Þetta var því síður ofhermt sem ég hygg að sannast mundi að væru ljóðmæli Árna og einkum tækifærisvísur hans með tilgreindum orsökum þeirra komið í eitt safn, að maðurinn var á sinn máta merkisskáld í bændaröð og í kveðskap sínum sléttorður og tilgjörðarlaus. Það sem hann kvað áður hann giftist lýsti glaðlyndi og fjöri hans og jafnvel gjálífi. En hitt er hann síðan orkti kennir hugdeyfðar og amasemis, en hvertveggja prýðir jafnt hversu óþvingað það er og sem menn segja blátt áfram og líkt daglegu tali.

  1. Björg var móðir sr. Benedikts Þórðarsonar er skrásett hefur þennan þátt.
  2. Árni dó 1. ágúst 1816.