Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Að gjalda Torfalögin

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, edited by Jón Árnason
Að gjalda Torfalögin

Eins og Torfi var uppivöðslusamur og ófyrirleitinn ef hann átti við stórmenni og hlutsamur í sýslum þeim sem hann hélt af konungi, eins var hann mikill búsýslumaður heima fyrir og heldur ágengur og kenndu sveitungar hans og nágrannar helzt á því. Eftir það að Torfi hafði flutt byggð sína aftur úr jöklinum að Klofa fann hann það í mörgu hversu landkostir voru miklu lakari í Klofa en í jökuldalnum, en einkum brá honum við vetrarbeitina því enginn skógur er nærri Klofa.

Eins og nú er byggðum skipað á Landi stendur Klofi ofan til í sveitinni og er þaðan löng bæjarleið út að Skarði. Sá bær stendur undir fjalli sem Skarðsfjall heitir og er meginhluti fjallsins fyrir norðan bæinn. Þegar fjallinu sleppir að norðan liggja hálsar úr því enn lengra til norðurs – þeir heita Skarðshálsar – og er ekki nema kippkorn frá hálsendanum norður að Þjórsá. Hálsar þessir hafa í fyrri daga verið allir skógi vaxnir sem enn má sjá vott til þar víða í jarðföllum og giljum þó nú sé þar allur skógur eyddur fyrir löngu bæði af manna völdum og náttúrunnar. Til þess að geta notað skógarlandið á hálsunum til vetrarbeitar þar sem þeir liggja svo hátt að aldrei hefur tekið fyrir beit í þeim lét Torfi bóndi hlaða geysiháan og breiðan garð frá Klofa og allt norður í Skarðshálsa, yfir Klofaland, Merkurland og Skarðsland til að reka á honum sauði sína sem sumir segja að hafi verið 600, en aðrir 900 að tölu. Garður þessi lá yfir allt einar lágheiðar þar sem ýmist skiptast á hólar eða dældir. En ef snjóavetur er fyllast allar dældirnar svo ókleift verður fyrir fé að komast af einum hólnum á annan er jafnan standa upp úr.

Af því garðurinn var hið mesta mannvirki fóru margir langt að til að sjá hann auk þess sem leið flestra Upplandsbúa lá þar yfir til kirkju að Skarði. En svo var ríki Torfa mikið að engum leiðst að sjá garðinn eða fara yfir hann nema hann styngi þrjá hnausa og legði í garðinn og voru þær álögur kallaðar „Torfalög“, og er sagt að þaðan sé dregið orðtæki það sem enn er haft er sá er engan hlut á að máli grípur í að gjöra það sem honum er ekki skylt að vinna, en vinnur þó ekki meir að öllu verkinu en Torfi lagði á þá er sjá vildu sauðagarð hans eða svo aðeins til í Merkurheiði og norðan til í Skarðsheiði og liggur hann í beina stefnu norður á Skarðshálsa. Í hrauninu milli heiðanna sést hann ekki því þar hefur hann blásið af eða brunnið eins og annar jarðvegur sem þar var til forna.