Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Byggð í Torfajökli
Byggð í Torfajökli
Það er mælt að plágan seinni hafi komið út hingað með enskum kaupmönnum í Hafnarfjörð; hafi þeir haft klæði að selja ásamt öðrum varningi, en er þeir röktu sundur einn klæðastrangann hafi rokið þar úr gufa bláleit. Þeir Jón prestur Egilsson og Jón sýslumaður Espólín eftir honum segja „að mönnum hafi þótt sem fugl kæmi úr klæði bláu“, og setja útkomu plágunnar árið 1493. Eftir það dreifðist hin bláa gufumóða skjótt út og fylgdi henni sótt mikil og mannskæð hvervetna þar sem hana bar yfir. Mannfallið byrjaði um alþing og geisaði fram á haust til þess er veður kólnaði. Urðu svo snögg umskipti með sótt þessari að komið var að konum þar sem þær sátu dauðar undir kúm á stöðlum við mjólkurfötuna og við keröld í búrum. Þetta sumar eyddust bæir mjög um allt Suðurland og því nær vestur að Gilsfirði, og víða lifðu ekki fleiri eftir en tveir eða þrír menn og sumstaðar ungbörn er sugu mæður sínar dauðar er til var komið. Tíðum voru grafnir þrír og fjórir á dag við kirkjur og þó sex eða sjö fylgdu líkum til grafar komu ekki aftur fleiri en þrír eða fjórir; hinir dóu á leiðinni til eða frá eða fóru og sjálfir í þær grafir er þeir tóku að öðrum.
Þegar þetta var tíðinda var Torfi Jónsson í Klofa orðinn héraðshöfðingi í Árnessýslu og Rangárvallasýslu. En er hann frétti að drepsótt þessi var komin austur yfir Hellisheiði austur í Ölfus tók hann upp búslóð sína og fór burtu frá Klofa með allt er hann mátti með komast og þurfti nauðsynlega og fór með það og hyski sitt allt upp á Landmannaafrétt. Sunnan til í þeim afrétti er jökull einstakur og veit annar endi í austur, en hinn í vestur. Hann er í fullt austur af Heklu eða lítinn mun sunnar. Þangað stefndi Torfi með skuldalið sitt og flutninga. Hann hélt austur með jöklinum norður í Tungnaá. Með kvísl þessari var frjóvsamt land og fagurt og lá gras í legu. Torfi hélt upp með kvíslinni og eftir gili því er hún féll úr og heitir það nú Jökulgil; þar fór grasið að þverra og verða grýtt með kvíslinni. Töluðu þá húskarlar Torfa um að þeir vildu láta fyrirberast í graslendinu niður með kvíslinni því þar þótti þeim allbyggilegt og trauðla mundi Torfi bóndi fá sér fegri og kostabetri bústað þó hann færi lengra með þá upp í svarta gilið sem þá luktist nálega af hömrum yfir höfðum þeirra. Torfi varð áskynja um mögl húskarla sinna og bað þá láta sig einráðan því fyrri hefði hann séð fyrir þeirra kosti en nú svo dugað hefði. Eftir það héldu þeir inn eftir gilinu og er þeir höfðu farið um hríð sáu þeir að úr suðri kom aftur birta á móti þeim; opnaðist þá gilið aftur og komu þeir fram í víðan dal og fagran er þeim virtist liggja eftir endilöngum jöklinum frá austri til vesturs svo hvergi var skarð að sjá nema þar sem þeir komu inn í hann frá norðri og kvíslin rann út. Svo langt sem þeir eygðu umhverfis dal þenna efst var ekki annað að sjá en jökulinn og heiðan himininn. En þegar jöklinum sleppti að neðan tóku við hlíðar skógi vaxnar allt ofan undir láglendið, en þar sem skógurinn hætti voru sléttar grundir jafnfagrar og þær voru grösugar. „Hér skulum vér láta fyrirberast um hríð,“ sagði Torfi, „og mun móðan bláa verða mannskæð ef hún vinnur oss mein í dal þessum.“ Eftir það lét Torfi taka til bæjargjörðar og var þess ekki langt að bíða að þar reis upp veglegur bær enda átti Torfi mörgum á að skipa.
Um sumarið lét Torfi húskarla sína yrkja dalinn öllum venjulegum sumaryrkjum í sveit og stóð þar búhagur hans með hinum mesta blóma því landkosti vantaði ekki og þóttust engir þeirra er með honum voru hafa séð slíka. Þótt Torfi léti menn sína varast allar samgöngur milli dalsins og byggðarinnar á Land eða Rangárvöllu til þess að sóttin kæmi því síður í dalinn lét hann eigi að síður tvo menn er hann trúði bezt, fara í hverjum hálfum mánuði fram á fjallabrúnirnar þaðan sem þeir sáu til byggðarinnar til að vita hvað gufumóðunni bláu liði. En svo liðu langir tímar að jafnan komu þeir með þau ógeðstíðindi að móðan lægi yfir byggðinni og tæki upp í miðjar fjallahlíðar umhverfis byggðina og væri að sjá yfir hana sem bláleitt haf, en enga sæju þeir mannaferð um héruðin. Þó kom þar um síðir að sendimenn þessir báru Torfa þau tíðindi að móðan væri horfin; en nokkra stund dvaldi Torfi eftir það í dalnum þangað til honum þótti komið fyrir alla von að sóttin mundi haldast lengur í sveitum þeim sem hann hafði spurn af. Tók hann sig þá upp og flutti sig aftur í byggðina og reisti að nýju bú í Klofa og varð hvorki honum né neinum af hans mein af drepsóttinni.
Ekki er þess getið hversu lengi Torfi hafi verið í jöklinum er síðan dregur nafn af honum og er kallaður Torfajökull. Það er sagt að þegar Torfi fór að flytja aftur úr jöklinum til byggða hafi nokkur af hjúum hans ekki viljað fara úr dalnum, hafi hann og látið það eftir þeim og gefið þeim húsabæ sinn eins og hann stóð. Síðan hefur það verið haft fyrir satt allt til skamms tíma að í Torfajökli væru útilegumenn og hafi ferðamenn er farið hafi fjallabaksveg austur í Skaftafellssýslu af Rangárvöllum sunnan undir Torfajökli þótzt kenna reykjareim af jöklinum með norðanátt líkan því er skógarviði væri kynt. Það var og trú manna að þessir útilegumenn yllu illum heimtum á sauðfé af afréttum er ósjaldan hafa að borið. En fyrir fáum árum er það staðreynt að eitthvað veldur annað illum heimtum en útilegumennirnir í Torfajökli því Landmenn tóku sig til og könnuðu Jökulgilið og komust svo langt inn í gilið að þeir sáu að dalurinn var allur orðinn fullur af jökli og óbyggilegur og því allsendis ólíkur því sem sagan segir að hann hafi verið á dögum Torfa.