Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Torfi fer að Lénharði fógeta

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search

Meðan Torfi hélt Árnessýslu var fógeti á Bessastöðum sem Lénharður hét. Hann var illur maður og ódæll og veitti mikinn yfirgang. Hann fór austur í sýslu Torfa með ránum, settist á Arnarbæli í Ölfusi og heitaðist að drepa Torfa. En Torfi fór að honum úti á Hrauni í Ölfusi og tók hann af lífi. Það tiltæki Torfa lét biskup sér vel líka og bað hann hafa það verk unnið manna heppnastan. Gekk þó Torfi til skrifta við biskup, en lauk honum litlar fésektir. Þó var ekki þelalaust með þeim.