Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Björn á Burstarfelli og ættmenn hans

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search

Bjarni Oddsson prests hins ríka á Hofi Þorkelssonar Hallgrímssonar Barna-Sveinbjarnarsonar var sýslumaður í Múlaþingi í tíð Brynjólfs biskups Sveinssonar.[1] Hann var stórríkur og mikilhæfur. Kona hans var Þórunn Bjarnardóttir sýslumanns Gunnarssonar Gíslasonar er bjó á Ásbrandsstöðum í Vopnafirði; hann var yfirgangsmaður mikill; hann fól katla fulla af silfri í Ásbrandsstaðahrauni; hann tók eignarjörð bóndans í Jórvík í Hjaltastaðaþinghá undir sig fyrir það hann dró leynd á brot af vogreki (bugspjóti) sem rak á hans eiginn reka. Síðast drukknaði hann af ferju á Galtastaðahyl.

Bjarni Oddsson var aldavin Brynjólfs biskups sem setti hann yfir jarðir sínar í Austfjörðum. Bjarni bjó fyrst á Ási í Fellum, síðan á Burstarfelli, eignarjörð sinni; illt þókti kotbændum ofurvald hans.

Þess er getið eitthvört sinn þá hann var í velgengni sinni á Burstarfelli að hann fór að heiman; hann reið við spora eins [og] þá var títt heldri mönnum og reið um hlað á bæ einum í Vopnafirði; þar sat kall örvasa úti undir bæjarvegg. Bjarni reið mikinn í hlaðið og setti sporana í karlinn um leið og hann þeysti fram hjá honum. Karl leit við honum og mælti:

„Líttu á hvörnig lukkan hröð
laglega kann að stíma;
hugsaðu maður hornístöð
hefurðu einhvörn tíma.“

Karlinn lagðist eftir þetta og dó. – Bjarni átti dóttir er Þorbjörg hét.

Maður hét Jón, kallaður kampur; hann bjó í Syðrivík; hann var ríkur maður og átti tvær dætur er heldu sér mikið í klæðaburði og ýmsu skrauti, en á orði að þær hefðu ekki „hrein“ höfuð. Eitt sinn í samkvæmi fjölmennu sem haldið var í Vopnafirði er þess getið að dóttir sýslumanns hratt faldinum af höfði annarar dóttir Jóns kamps í fjölmenni. Út af þessu urðu stórmál og varð Bjarni undir í öllum, svo hann varð síðast öreigi og reið við hornístöð. Eitt sinn kom hann í Vopnafjarðarkaupstað þá hann var kominn í vesældóm; fór þá einhvör til kaupmanns og sagði hann Bjarni Oddsson væri kominn, hvört ekki ætti að bjóða honum. „Nei,“ sagði kaupmaður, „Bjarni var, en Bjarni er ei meir.“

Bjarni þóttist skáld gott og yrkti sálma. Heyrt hefi ég eitt vers, það er svona:

„Situr á tignar tróni
og hengir dindildú.
Þangað kemur rindilkindin syndagrú.
Þar ræður og stjórnar ríkur herrann þú.“

Allra verst sagði hann sér gengi með heilagan anda.

Pétur hét sonur Bjarna; hann bjó í Skógum í Axarfirði; hann átti mörg börn, öll stórvaxin og mikil í bragði. Eitt þeirra var Björn sýslumaður á Burstarfelli, annað Bjarni á Djúpalæk; enginn vissi afl hans; hann giftist aldrei og átti ekki barn; þriðja var Óluf, hún bjó í Vopnafirði. Maður hennar hét Sveinn, kallaður „sálarlausi“, vesælmenni. „Sálarlausi“ nefndu konur hann því hann stóð fast á því að kvenfólk allt væri sálarlaust. Þau bjuggu í Skálanesi inn frá kaupstaðnum í Vopnafirði. Einhvörju sinni kom Óluf út í kaupstað og var þá svo ástatt að verið var að afferma skipið, og kom hún að því að velt var upp tveimur mjöltunnum, og með því hún var þá ólétt og komin á fallandi fót, sagði kaupmaður í spaugi: „Ég skal nú gefa þér þessar mjöltunnur, Óluf, ef þú tekur þær nú upp og kemur þeim inn að Skálanesi.“ Hún bað þá sem kring stóðu að minnast þess, gekk að mjöltunnunum og tók sína undir hvora hönd og gekk svo af stað og kom þeim þangað sem leiti bar af og skildi þar við þær og sókti síðar og hafði þær með þessu móti.

Eitt sinn kom Björn bróðir hennar að Skálanesi; hún var þá að þvo við lækinn. Björn kastaði kveðju á hana og sagði: „Fyrir þann skuld,[2] er steggi þinn heima?“ Hún stóð upp og sagði: „Það skaltu vita að heima eru sokkatetrin hans,“ og barði þeim blautum um eyru bróður síns, en hann snautaði burt með þetta. Héldu menn þótt Björn væri afarmenni að burðum að hann mundi skorta afl við [hana]. Hann hafði Svein í forakti og fór oft illa með hann.

Björn var tröll að vexti og rammefldur. stórleitur mjög, og eins og auðkenndi ættfólk hans lafði á honum neðri vörin. Hann var ofsamaður mikill og ágengur mjög, en bjargvættur mesti þá til hans var leitað og þá höfðinglyndur. Hann sagðist ekkert hræðast í veröldinni nema „ekkjuna“ og þann „föðurlausa“. Þegar hann fékk ei af mönnum það hann vildi þá tók hann það með valdi. Enginn mátti eiga skip í Vopnafirði, allir urðu að róa á vegum hans. Það voru alls tveir bændur sem skip áttu, bóndinn í Krossavík, ég man ei nafn hins. Með þessum hætti rakaði hann saman auð fjár í föstu og lausu gótsi. Kona hans var Guðrún Marteinsdóttir Rögnvaldssonar frá Eiðum. Þau áttu nokkur börn, Jón og Martein, Ingibjörgu og Gróu, Þórunni.

Björn bjó fyrst á Hallfreðarstöðum í Hróarstungu; síðan flutti hann að Burstarfelli og bjó þar alla ævi síðan. Hann byggði þar reisugan bæ og lét þar kirkju gjöra; byggingarefni til þess hafði hann mest af kaupskipum þremur er fórust hvort eftir annað á Vopnafjarðarlegu. Tók hann skipsskrokkana og lét flytja viðinn að Burstarfelli og trésmiðina og fleiri af skipunum starfa að byggingunum við sléttan kost. Oftlega höfðu þeir óskað með hugargremju að byggingar þær eyddust eins og til þeirra var aflað. Illur grunur lá á því að Björn mundi valdur að skipsköðum þessum. Liðu svo nokkur ár að enginn þorði að sigla inn á Vopnafjörð þar til einn ungur maður í Kaupmannahöfn bauðst til þess. En þá hann var kominn á leguna kom sýslumaður strax eftir vana út á skipið og Ásmundur með honum, er ætíð var honum fylgisamur og brúkaður til stórræða. Kapteinninn hellti strax víni á bikar og rétti Birni, en hann veik bikarnum að Ásmundi sem drakk af honum og datt strax dauður niður.[3] Brá Birni svo við þetta að hann með flýti fór í land og kom þar aldrei síðan. Eftir þetta kom skip á hvörju ári á Vopnafjörð og tókst upp verzlun. – Ásmundur var illa ræmdur af alþýðu fyrir hroðaverk sín; um fráfall hans var þetta kveðið:

Hafður var til að höggva og slá, –
heimtust litlar bætur, –
honum dauðinn hælkrók brá,
hann komst ekki á fætur.

Þegar Jón biskup Vídalín vísiteraði Austfjörðu kom hann að Burstarfelli. Tók Björn honum vel og bauð í stofu; voru þeir þar lengi dags unz mönnum biskups fór að gruna að eitthvað tefði biskup, gengu að stofudyrunum og heyrðu þrusk mikið og hark inni svo einn biskupsmanna sem Jón hét, tveggja maka maður, gat brotið hurðina, og þá hann kom inn var Björn búinn að koma biskup upp fyrir kistu eina og var þar ofan á honum. Jón gat náð biskupi; fóru þeir síðan til tjalds síns og vóru þar um nóttina. Um morguninn eftir kom Björn skríðandi að fótum biskups; þá varð honum af ofurgremju þetta að orði: „Skríddu, bölvaður.“ En á orði var að Björn hefði keypt sig í frið með fégjaldi miklu, því þeir skildu sáttir að kalla.

Eitt sinn tapaði Björn máli á Alþingi; þá kvað Páll lögmaður Vídalín vísu þessa:

Kúgaðu fé af kotungi
svo kveini undan þér almúgi;
þú hefnir þess í héraði
sem hallaðist á alþingi.

Man ég ekki hvört mál þetta hlauzt af því þá hann bar tjöru í skegg Þórðar Árnasonar er kallaður var Poka-Þórður; þar mátti hann lúta í lægra haldi, því Þórður reið á alþing með tjöruna í skegginu.

Stöku menn vóru það sem Björn fór halloka fyrir, svo sem Jón Guttormsson, Sigurður sterki í Njarðvík, Jón er kallaður var pungur sem var mesta afarmenni að burðum og illmenni kallaður. Ég hef heyrt þess getið að eitt sinn þá hann bjó á Landsenda fyrir utan Ketilsstaði í Hlíð, kom Björn að innan snemma morguns og ætlaði að koma Jóni á óvart og ná karli í rúmi; en þegar hann kom heyrði hann að kallað var inni og sagt: „Ljáðu mér brókartetrið mitt þarna, Begga mín.“ Björn þurfti ekki meira, lagði í flýti af stað og upp á Hellirsheiði.

Hávarður hét maður, kallaður stóri; hann var af kyni Bjarnar skafinn, mesta tröll að burðum. Eitt sinn þá hart var milli manna brá hann sér úr Héraði og í Vopnafjörð, braut upp mauraskemmu sýslumanns á næturtíma og batt sér byrði stóra af mat, fór á næsta bæ við heiðina og hvíldi sig þar, en gjörði Birni orð um hvað hann hefði gjört. Brá honum ekki við það og lét Hávarð fara ferða sinna með byrðina; sögðu menn að honum hefði þókt maðurinn bera sig kallmannlega eftir björginni.

Margir undirmenn hans báru mikla virðingu fyrir honum. Einn var lögsagnari hans er Finnur hét, hár maður, en grannvaxinn; að því brostu menn að ætíð þá hann kom fyrir sýslumann fleygði hann sér endilöngum fyrir fætur hans.

Oft var það á vetrarkvöldum siður sýslumanns þá gott var gengi að [hann] lá úti á gluggum í Vopnafirði að hlera eftir hvað talað var inni; urðu menn þá síðar varir við, væri eitthvað um hann rætt.

Eftir að hann tók að eldast fór að bera minna á yfirgangi hans, og skömmu eftir að hann missti konuna gaf hann alveg frá sér bústjórn og lagðist í rúmið, en Högni er fékk Gróu dóttir hans tók að sér búráð öll; þókti mönnum þá fljótt ganga saman Burstarfellsbú, með því þau héldu sig ríkmannlega og spöruðu ekkert. Þá Björn hafði legið eitt eða tvö ár í rúminu var það eitt sinn að hann skreiddist á fætur og gekk þá í hvört hús og leit yfir, talaði ekki eitt orð, gekk til rúms síns og fór ekki á fætur eftir það, en lifði nokkur ár. Sögðu menn hann hefði lagzt fullburða fyrir þegar hann sá hann gat ekki haldið við búi sínu með sömu rausn og stórmennsku og áður. Er að merkja sem hugur hans hafi snúizt í elli hans á betra veginn, því þá tók hann að gefa fátækum stórmannlega. Það eru margir jarðarpartar í Múlasýslum fátækra eign af honum gefin.

Nokkru eftir að hann lagðist komu þau að Burstarfelli Sigurður Eyjólfsson og Bóel Víum kona hans. Hann tók þeim vel þótt hann lægi í rúminu, tók ofan af hillu hjá sér pottkönnu af silfri og gaf þeim úr henni fjórar spesíur. Hann sagðist, „fyrir þann skuld“ – þetta var orðtak hans – hafa þetta að gamni sínu hjá sér til að réttvíkja með því þeim sem kæmu inn að rúmi sínu; sér entist kannan þetta í mánuð. Ég held hann hafi ekki lifað lengi eftir þetta. – Þau sögðu hann hefði haft létta upp yfir sér og sáu hann taka í hann; sögðu þau að ekki hefðu [þau] séð gildara handleggsbein, og var þó ekki vorðið nema bein og sinar; hafði þó Sigurður víða farið og séð margan mann þreklegan.

Eftir Björn látinn fór Marteinn sonur hans búferlum að Burstarfelli, en Högni og Gróa burtu; þóktu þau fengsöm meðan þau vösuðu í völdum. Marteinn reisti bú á Torfastöðum í Vopnafirði; þar brann bær hans með allri búslóð hans, svo hann átti ekki föt utan þau sem hann stóð upp í; í þeim fór hann til kirkju daginn eftir að brann. Þegar faðir hans sá hann í hvorndagsfötum sínum sagði hann til hans: „Fyrir þann skuld, Marteinn, hafðirðu ekki annað að hleypa þér í til kirkjunnar en þetta?“ Marteinn sagði honum þá hvörnig komið var. Fékk hann honum þá strax kirkjuföt að fara í og gerði upp bæinn með honum, fékk honum líka búslóð sem þurfti. Á fyrsta ári eða öðru sem Marteinn bjó á Burstarfelli brann öll sú mikla bygging að köldum kolum með öllu dauðu er inni var, frá dagmálum til hádegis; kirkjan stóð ein eftir og í henni eitthvað af hirzlum vinnufólks. Dóttir Marteins ein ætlaði að bjarga skarti sínu úr dyralofti og fór með fullt fang sitt ofan í stigann, en missti það niður í eldinn sem þá var kominn svo nálægt henni. Marteinn húsaði aftur bæ sinn og bjó þar til dauðadags, þókti æ prýðis- og sómamaður, síbúinn til góðs og greiða með lækningum og ýmsu fleira. Hann hafði verið utanlands, en tók ekki embætti; ég veit ekki heldur hvört hann gaf [sig] við bókmenntum. Hafa afkomendur hans setið síðan að Burstarfelli.


  1. Bjarni Oddsson (1590—1667) var sýslumaður í Múlaþingi 1630—50.
  2. Máltæki Bjarnar. [Hdr.]
  3. Átt mun við Ásmund á Austur-Skálanesi.