Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Deilur Torfa og Stefáns biskups

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862)
Deilur Torfa og Stefáns biskups

Meðan Magnús Eyjólfsson mókolls sat að stóli í Skálholti (1477-1490) fór allt fram með honum og Torfa meinlauslega, en annað hljóð kom í strokkinn er Stefán Jónsson varð þar biskup; því þeir Torfi eldu einatt grátt silfur saman. Var sú orsök til þess að um þær mundir var siðleysi mikið hér í landi, en sú landvenja þá að biskupar dæmdu öll kvennamál og lögðu fésektir þungar á afbrotamenn þeim til fjörlausnar eða undanþágu skrifta og kárína ef auðmenn áttu í hlut, og leystu þá síðan; þessu undu margir allilla. Stefán biskup var siðavandur og gekk ríkt eftir um slíkar sektir; þótti hann af því harður og refsingasamur. Þeir sem fengu því við komið stukku því undan biskupi og flýðu á náðir Torfa er þá var mestur héraðshöfðingi sunnanlands og lét sjaldan hlut sinn liggja við hverja sem um var að eiga. Torfi tók og alla á ásjá sína sem hann mátti svo biskup kom hvorki rétti né refsingu yfir þá og gengu þessir afbrotamenn óleystir og ókvittir við biskup. Var af því öllu saman megn óvild með biskupi og honum.

Það var einn vetur er Þjórsá lá öll fjalls og fjöru á milli að Torfi bjóst að heiman og hafði með sér 30 manna; ætlaði hann að fara að Stefáni biskupi í Skálholti og taka hann höndum er staðarmenn voru flestir komnir til vers suður við sjó. Riðu þeir Torfi þá út að Nautavaði á Þjórsá gegnt Þjórsárholti fyrir neðan ferjustaðinn á Hrosshyl. En er þeir komu að ánni sýndist þeim auður áll eftir henni miðri. Sneru þeir því frá og riðu með henni allt ofan í Holt að bæ þeim er heitir í Kaldárholti. Þar sneru þeir aftur við svo búið af því þeir þóttust ekki sjá fyrir enda álsins svo ekki varð aðför Torfa við biskup í það sinn. En Þjórsá var riðin á ísi þann sama dag bæði fyrir og eftir og þótti því Torfa hafa hér glapnazt sýn og hafa farið litla sæmdarför.

Torfi undi og stórilla við þessa för sína og þótti biskup í meira lagi brögðóttur er hann hafði villt svo herfilega fyrir sér. Bjóst hann því að hefna sín nær sem færi gæfist. Það var eitt sumar að Torfi reið að heiman með flokk manna og kom í Skálholt svo að fámenni var heima á staðnum. En er menn sáu ferð Torfa bauð biskup að loka öllum dyrum. Torfi gekk fyrst til kirkju og þaðan ofan að norðurdyrum, drap stórt högg á dyrnar og spurði hvort skolli væri inni. Biskupssveinn sá er Loftur hét hljóp herklæddur til dyra og mælti:

„Inni er skolli og ekki hræddur;
bíddu þess að hann er klæddur, –

með leyfi að segja, déls hórusonurinn, hver sem þú ert.“ Torfi svaraði: „Ertu þar Stráka-Loftur? Þessu mundir þú ekki anza ef þú þættist ekki yfir fleiru búa en ég veit af.“ Varð þá enn ekki af tíðindum heldur í þessari aðför Torfa og reið hann heim með förunautum sínum við lítinn orðstír.

En þótt Torfi sæi að biskup hefði bæði skiptin orðið sér giftudrýgri lét hann allt um það ekki af áreitni við biskup þó hér sé ekki greint frá atvikum.