Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Hrútafellsfíflin

Úr Wikiheimild

Ámundi mun hafa haft orð á sér fyrir fastheldni, því hún gekk ekki að því að eiga hann nema með því skilorði hún mætti gjöra svo mikið gott sem hún vildi.[1] Hann játaði því með því móti hún segði sér það ekki áður.

Hann hefir verið einhver ríkasti maður því mér hefir verið sagt hann hafi átt allar jarðir út að Kaldaklifsá auk þess sem hann átti annarstaðar.

En til að sýna að Ámundi var þó ekki sá svíðingur að tíma engu þá set ég hér aðra sögu um hann sem mér hafa sagt Sesilía Jónsdóttir – móðir mín – og Sigríður Einarsdóttir í Varmahlíð ættniðji hans og svo fleiri:

Ekkja ein fátæk bjó á Hrútafelli; nafn hennar er mér ókunnugt. Hún átti tvo syni – hét annar Jón, en hinn Gamalíel, Jónssyni – þvílíka dauðans aumingja að viti að slíka getur ekki eða varla, en mestu slöngulmenn að vexti og afli [svo] að fágætt var. Ekkja þessi missti kúna sína snemmbæra. Sendi hún því syni sína eftir annari snemmbæru sem Ámundi léði henni. En er þeir komu þar höfðu þeir ekkert band til að leiða kúna með. Léði Ámundi þeim blauta ól, en lagði ríkt á við þá að skila sér ólinni jafngóðri. Þeir hnýttu henni um háls kúnni. Þegar þeir komu út að Hrútafelli hafði ólin harðnað svo þeir gátu ekki leyst hana. Fengust þeir þá mikið um það að Ámundi hefði bannað þeim að skemma ólina, sáu því ekkert annað ráð til að ná henni en drepa kúna, skáru svo af henni hausinn og náðu ólinni heilli.

Móðir þeirra varð aumari en frá verði sagt, fór til Ámunda og sagði honum sorgarsögu sína. Hann sagði hún skyldi eiga kúna, en skila sér skinninu.

Aðrir segja þeir hafi teymt kúna út með görðum við nýtt hárband, en hlið var á garðinum. Kýrin fór inn um hliðið í túnið, en þeir utan garðs. Vildu þeir toga kúna að sér, en hún streitti á móti. Hengdu þeir hana þarna yfir um garðinn.

  1. Hér er átt við Ámunda lögréttumann Þormóðsson í Skógum undir Eyjafjöllum og Solveigu Árnadóttur konu hans.