Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Jón Árnason í Skjaldarbjarnarvík

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Jón Árnason í Skjaldarbjarnarvík

Um sama tíma og Jón Árnason bjó að Ófeigsfirði bjó annar Jón Árnason að Skjaldbjarnarvík. Hann var hið mesta afarmenni til krafta og þótti ekki einhamur, einrænn og myrkur í skapi; mat hann menn mjög eftir vexti og afli. Lítt var hann til presta og annara yfirvalda og kallaði þá jafnan blóðsugur og átumein frelsisins. Aldrei vildi hann prestlamb taka, en að nafninu galt hann verð fyrir fóður. Meðan Jón bjó að Skjaldarvík urðu prestaskipti; kom til Árness síra Jóhann Bergsveinsson.[1] Fyrstu ár sem hann var þar sendi hann Jóni tvö lömb til fóður[s] því hann kallaðist eiga tvö fóður að Jóni. Var sent með lömbin bæ frá bæ. Tók þá hvur það sem helzt vildi, en síðast urðu eftir gimbrar tvær lítt á vetur setjandi og skyldi Jón fóðra. Ekki vildi Jón reka þær til baka; líka var kominn snjór og illt yfirferðar. Tekur hann þá lömbin, slátrar og flær belgi af, lætur síðan sundraða skrokka með öllu til heyrandi, gori, görnum, lungum og blóði, í úthverfa belgina, hengir upp í eldhús [og] geymir þar til síðar um veturinn; flytur hann þetta [þá] til Munaðarness og fær leyfi að hengja í hjall. Líður vetur og vor fram til sumars. Fer þá Jón til höndlunar á Reykjafjörð. Af hendingu hittir hann prest og spyr Jóhann eftir lömbum sínum. Segir þá Jón meðferð sína og líkar presti miður, en varð þó so búið að hafa. Segir Jón að so skuli fara um hvurt lamb sem prestur sendi, og skilja að því.

Hallvarður gamli Hallsson frá Horni, síðar bóndi að Skjaldarvík, var þá í för með Jóni og vóru tveir á fimm manna fari. Róa þeir logn af Reykjafirði og allt norður til Dranga. Hvessir þá fljótlega af vestri út Bjarnarfjörð og skulu þeir róa yfir hann til Skjaldarvíkur. Tekur nú að gjörast inn um vott og segir þá Jón: „Hvurt vilt þú heldur, Hallvarður minn, dálpa eða skvetta út.“ Hallvarður kvaðst heldur vilja dálpa – „því vanur hef ég verið að halda beint þó nokkuð kulaði“. Gengur þá sjór í bátinn so Jón sagðist síðar ekki hafa nær sér tekið en hafa þurran bátinn því Hallvarður réri einn alla leið.

Sú er önnur saga af Jóni að einu sinni ól hann fola rauðskjóttan að lit. Þótti honum so mikið um hestinn þegar eltist að hann ekki vildi þvinga hann með geldingu, því ekki var hætt við að nágrannar öm[uð]ust við, þar langt er milli bæja og þá ekki tíðar samgöngur á Hornströndum eða lestaferðir; líður þar til hesturinn var sjö vetra. Gjörðist hann þá ægur og illur so enginn gat með hann farið nema Jón einn. Það hafði gjört hestinn grimman að hvurn morgun gekk Jón til hans, lék við hann og so var foli vaninn að þegar hann sá Jón koma tók hann á rás og réðist á húsbónda sinn; var oft harður þeirra aðgangur, en þó sigraði Jón. Þar kom um síðir, því Jón tók að þyngjast og mæðast, að hann eitt sinn komst nauðuglega undan hestinum lerkaður mjög. Og á því sama hausti lét Jón lóga hestinum og var hann áður búinn að gjöra heimamönnum harðleikið.

  1. Jóhann Bergsveinsson (1753-1822) var prestur í Árnesi 1781-1793.