Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Jón biskup Þorkelsson Vídalín

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Jón biskup Þorkelsson Vídalín

Jón biskup Þorkelsson Vídalín fæddist að Görðum á Álftanesi 1666. Foreldrar Vídalíns [voru] sr. Þorkell Arngrímsson lærða og Margrét (fædd 1636, deyði 1706) Þorsteinsdóttir, prests í Holti fjörutíu ár († 1668), Jónssonar pínslarvotts, skálds, prests í Vestmannaeyjum (deyði 1727).

Margar sögur ganga um Jón biskup Vídalín og skal hér geta þess helzta er ég hefi heyrt um hann sagt.

Hann sigldi strax í æsku til vísindalegra iðkana, en hefir að líkindum átt heldur örðug kjör, því sagt er honum hafi verið talin trú um að miklu ábatameira væri honum að gefa sig í stríðsþjónustu; hafi hann hlýtt þeim ráðum, en brátt séð sig um hönd, en þá verið svo bundinn í báðar fætur að hann varð að gegna stöðu þessari um stund; en það varaði ekki lengi áður umskipti urðu á högum hans.

Einu sinni átti hann að halda vörð með öðrum hermönnum í kringum hús konungsins Kristjáns fimmta. Þá mátti enginn maður ganga um eftir það hermenn voru gengnir á vakt. Það bar við eitt sinn er þeir héldu vörð að kvenmaður einn gekk um borgina; brugðu varðmenn við og eltu hana. Fóthvatastur varð Jón Þorkelsson Vídalín og náði henni í húsdyrum hennar; hún bað hann um líf, en hann sagði annað hvort þeirra mundi lífið missa, að öðrum kosti allir varðmennirnir. Samt hét hann henni því. Hún bað hann þá finna sig og móður sína er þar bjó í húsinu og var finnsk, ef það ætti líf hans að gilda. En er hermennirnir komu kröfðu þeir stúlkunnar af hendi Jóns Vídalíns, en hann varði stúlkuna. Sóktu þeir þá að honum, en hann varðist; segir sagan hann dræpi þá alla. Fyrir þetta hvorutveggja var Vídalín dæmdur til dauða; skyldi hann ríða á harðbakshesti. Þeirri reið var svo varið að stólpar tveir voru standandi og randhvasst járn á milli sem sverðsegg væri. Klauf þungi hvers eins er á settist þann í sundur. Sagt er Jón Vídalín færi á fund þeirra mæðgna og hafi kerling saumað bók í klofið á brók hans og fengið honum hjartarskinnsglófa og getið þess að duga mundi. Sumir segja þar við hafi þá verið staddur Þórður Þorkelsson Vídalín rektor, bróðir hans; hann hafi þráhrækt í lófana og strokið um eggina. Eftir það var hann settur upp, en bar ekki til tíðinda annað en hann var jafngóður. Aðrir segja hann hafi stungið niður höndum og þeytt sér upp eins og sumir léttir menn hafa að leik; en almælt er hann hafi þá sagt er hann var á bak kominn: „Þessum skal til Íslands ríða.“ Bað konungur þá að taka hann ofan og gaf honum upp sakir, en sagði honum upp þjónustu. Eftir það dvaldi hann í Kaupmannahöfn um hríð.

Það bar til einu sinni að presti eða biskupi varð snögglega illt svo messugjörð féll þar sem konungur var viðstaddur og allur hoflýður. Bað hann þá einhvern af guðfræðingum þar að taka þar til messunnar er hinn felldi niður. Varð enginn til; en er Vídalín sá það kastaði hann búnaði sínum og steig í stólinn og predikaði. En er konungi þókti hæfilega löng orðin ræðan stóð hann upp og gaf honum merki til þagnar. Jóni var ekki um það, herti nú ræðuna sem mest, sagði Guðsbörnum væri það sannarleg huggun og yndi sálum þeirra að heyra guðs orð, en um Satansbörn hirti hann ekki. Predikaði hann hart og skorinort fram eftir götunum þannig er honum leizt. Að endaðri messu dáðist konungur að orðfæri hans og einurð og sagði hann væri betur hentur að vera biskup á Íslandi en hermaður í Danmörk. Mælt er hann hafi meir verið honum sinnandi eftir þetta en öðrum Íslendingum og fyrir hans tilstilli hafi hann orðið heyrari í Skálholti 1692, þá 26 ára. Þar eftir varð hann dómkirkjuprestur þar 1693 og prestur til Garða á Álftanesi 1696, biskup 1698 um 22 ár; deyði 30. ágúst 1720.

Um þann tíma sem hann var utanlands í lærdómsiðkunum og hermannaþjónustu bjó Margrét Þorsteinsdóttir móðir hans búi sínu. Frétti hún hingað til landsins klandur það er hann komst í og varð áhyggjusöm um hans hag. Henni þjónaði stúlka ein – ekki hefi ég heyrt hver. Hún kom eitt sinn inn um þetta bil sem frá hefir verið sagt um stund og segir til Margrétar: „Ekki hefi ég oft séð hann Jón son yðar, heillin góð, en ekki þekki ég hann ef hann kemur ekki heim eftir túninu.“ Margréti varð ekki annað við en hún stóð upp og rak henni gildan snoppung og mælti hún skyldi annaðhvort njóta þess eða gjalda ef hún segði satt eða lygi; og er ekki að efa að svo hafi orðið. Þetta var þá Jón Vídalín kominn hingað til landsins.

Mörg eru sögð dæmi til þess að hann hafi mjög bráður verið, sem dæmi þar upp á:

Einu sinni – sumir segja eftir það hann var orðinn biskup – reri hann fyrir Landeyjasandi. Drógu aðrir um daginn, en hann varð ekki lífs var þangað til seint og síðar meir hann dró eina ýsu. Varð hann þá svo reiður að hann barði hana upp til agna á borðstokknum; en er í land kom beiddi hann Guð og skipverja grátandi fyrirgefningar og bað þá varast að gjöra slíka glópsku eftir sínu dæmi.

Alltaf bar Jón biskup korða sinn. Einu sinni vantaði smalamann margt af fé; varð biskup þá svo reiður að hann brá korða sínum og ætlaði að slá hann. Elti hann smalann þangað til hann kom að jarðfalli einu, og skildi það með þeim.

Jón biskup Vídalín giftist Sigríði frá Leirá Jónsdóttir biskups Vigfússonar.

Einu sinni rak hval á reka biskupsins og seldi hann allan hvalinn; þá var mjög hart í ári. Þetta frétti Margrét móðir hans, gjörði sér lítið fyrir og reið heim að Skálholti. Biskup frétti það að móðir hans væri komin, gekk út og fagnar henni. Hún rak honum snoppung einn mikinn og bað hann að láta ekki skurðgoðið frá Leirá draga hann til helvítis. Sneri hún í burtu með það. Þá er mælt að biskup hafi sagt: „Reið er móðir vor nú.“ Vissi hann hvað kerlingu var, en lét það svo vera. Skömmu þar eftir fekk hann annan hval og gaf hann allan.

Einu sinni kom til hans fátækur maður sem hafði misst kúna sína. Biskup lét fá honum kú og bað hann eiga. En er frú Sigríður heyrði það segir hún: „En hvað þú gafst honum ekki hest líka!“ „Þá er að gjöra það,“ segir hann og fekk honum þann hest er henni þókti vænst um og sagði konan hefði gefið honum.

Litlir vinir voru þeir Oddur lögmaður Sigurðsson og biskup sem sjá má af því að eitt sinn er Jón biskup hélt ræðu, að sagt er á alþingi, vildi Oddur ekki brjóta svo mikinn odd af oflæti sínu sem að hlýða embættisgjörð biskups síns, sendi því heldur þénara sinn og bað hann segja sér úr messunni. Sú ræða er orðlögð er hann þá hélt; en er sumum þókti nóg sagt ætluðu þeir að ganga út. Hafði biskup þá tekið dæmi af Datan og þeim félögum og skipað jörðunni að opna sig og svelgja þá óguðlegu er ekki gætu unað við að heyra hans orð. Fannst þeim þá jörðin skjálfa undir fótum þeim og settust niður.

En er ræðunni var lokið fór þénari Odds til hans, féll á kné fyrir framan hann og las honum ræðuna orðrétta. Þá hafði Oddi orðið þetta að orði: „Mikill kjaftur er á honum Jóni.“ Þegar Jón biskup heyrði að maðurinn hefði lesið ræðuna trúði hann ekki að satt væri fyrr en hann fekk hana upp skrifaða og bar saman við sína. Sú ræða er víst til ennþá því móðir mín þekkti mann í æsku sinni er Ásmundur hét, húsmaður í Miðhúsum, ofan úr sveitum ættaðan er hafði lesið eða heyrt lesna þessa ræðu.

Þórður rektor Þorkelsson bróðir hans er talinn engu minni vizku- og vísindamaður en meistari Jón biskup Vídalín, enda hefir hann það fram yfir hinn að hann var haldinn fjölkunnur. Það er eftir honum haft hann hafi kunnað níutíu og þrjár galdraaðferðir, en ekkert illt gjört að fráteknu við eina stúlku sem hann hefði átt sakir við og iðraði sig þess jafnan síðan.

Einu sinni kom Þórður að Skálholti. Voru menn þá að taka gröf og spurði hann hverjum. Þeir sögðu handa bóndanum á Hamri. Það sagði hann ekki geta verið, því hann hefði talað við hann á dögunum og hefði hann þá ekki verið feigur. Sýndu þeir honum kistuna. Hann bað þá fá sér tól því hann vildi skoða líkið; en er hann hafði opnað kistuna sló hann hamrinum við henni þar sem hún lá á stólunum svo hún hraut ofan á gólf. Raknaði maðurinn þá við. Hann bað þá skila til biskupsins í Skálholti að kviksetja ekki menn oftar. Sagðist samt mundi halda í burtu því nú mundi bróðir sinn reiður.

Þegar hann var í Kaupmannahöfn keypti hann af konu einni fjölkunnri að vekja upp Runsivals kappa og sýna sér bardagann. Börðust þeir Rollant og annar maður móti honum. Sýndist honum blár reykur af vitum þeirra.