Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Kjartan í Gerðakoti og skólapiltar í Skálholti

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Kjartan í Gerðakoti og skólapiltar í Skálholti

Þess er getið í sögunni að framan að Nikulás sýslumaður sagði við Kjartan að eina gilti hvað hann hefðist að, því ekkert vynni á hönum, og var það þess vegna að sýslumaður þekkti að Kjartan var hraustmenni og fullhugi mikill og ósvífinn ef illu var að skipta. Svo hafði borið til áður þegar sýslumaður var að læra í Skálholtsskóla að þá var Jón sonur séra Þorsteins í Holti við lærdóm þar líka. Það var eitt haust þegar Jón átti að ferðast í skólann frá Holti að Kjartan í Gerðakoti var fenginn til að fylgja hönum þangað. Var Kjartan þá átján ára og þótti þá hið mesta hraustmenni í Holtssókn af jafnöldrum sínum. Þegar þeir komu í Skálholt voru margir skólapiltar komnir þar fyrir og sagði Jón þeim þá að fylgdarmaður sinn væri hraustmenni mikið og mundi hvurjum hinum þeirra ofvaxið að eiga við hann; en af þessu umtali Jóns vissi Kjartan ekki, en af þessu umtali lék skólapiltum hugur á að reyna sig við Kjartan. Var hann þá fyrir þeirra tilstilli látinn um kvöldið fara í stofu eina og gefinn þar matur og var hann so þar þangað til dimmt var orðið. Síðan var kallað á hann af einhvurjum skólapilti að koma á eftir sér í gegnum göng dimm hvar níðamyrkur var, en í göngum þessum veit Kjartan ekki fyr til en tveir menn ráðast á hann að framan og þegar finnur hann að hinn þriðji kemur aftan að sér og ætlar að taka um fætur sér. Kjartan verður fljótur til og slær þann sem fyrir framan var hnefahögg svo mikið á vangann að hann fellur flatur, en hrindir hinum frá sér, og um leið setur hann fótinn svo snöggt aftur undan sér fyrir brjóst þeim sem að baki hans stóð svo hann hrökkur aftur [á] bak upp í loft; en so hafði hann hart hrint þeim er fyrir framan hann var að hann féll og flatur á gólfið. Stökk Kjartan þá áfram og yfir þá og hélt áfram; varð hann þá þess var að fleiri menn vóru í göngunum, en þeir hrukku allir undan og forðuðu sér. Komst hann so úr göngum þessum og komst inn í eldhús og var þar fyrir kona ein sem var að sjóða ket og hljóp hann innar í eldhúsið og sagði henni að skólastrákar hefðu gletzt við sig í göngunum, og litlum tíma eftir komu þar inn sex skólapiltar og spurðu hana að Kjartani og sögðu að hann hefði meitt nokkra af þeim, en hún var byrst í svari við þá og sagði þetta væri rétt handa þeim þó þeir ræki einhvurn tíma í það nefið að láta aldrei ókunnuga menn í friði, og skipar hún þeim þegar út aftur, ella mundi hún þegar ausa á þá brennheitu soði og bjóst til að gjöra það og hvurfu þeir þá út aftur. Síðan fylgdi konan Kjartani til sængur þar er vinnumenn voru og sagði hann þeim af þessu og þótti þeim um hið vænsta að skólapiltar höfðu farið halloka fyrir hönum því þetta hefðu þeir gjört mörgum aðkomumanni og hefði stundum illt af hlotizt.

Kjartan svaf þar um nóttina í góðu yfirlæti. Um morguninn bjóst Kjartan í burtu og var þá skólapiltum mjög starsýnt á hann og höfðu illan hug á hönum, en þorðu þó ekkert neitt við hann að eiga og höfðu þungan hug á hönum, en treystust þó ekki að rétta hlut sinn við hann áður hann fór. Sagði Jón Þorsteinsson hönum að tveir skólapiltar lægi sjúkir eftir viðureign þeirra í gærkvöldi og sá þriðji væri lasinn, og þakkaði Jón hönum einslega fyrir kallmennsku hans og harðfengi að hann sópaði þeim af sér. Ekki vissi Kjartan hvurjir þeir voru sem helzt áttu við hann. Fór Kjartan svo heim og bar so ekki á þessu meira.

En þegar Nikulás fékk Rangárvallasýslu settist hann fyrst að í Holti undir Eyjafjöllum hjá séra Þorsteini Oddssyni. Þá bjó Kjartan í Gerðakoti og þegar fundum þeirra bar saman þá sagði sýslumaður við hann: „Bölvaður vertu, Kjartan, mikið illt hef ég haft af þér.“ Kjartan vissi fyrst lengi ekki hvað orð þessi áttu að þýða fyr en hann síðar komst að því að Nikulás hafði verið sá er hljóp attan á hann í göngunum í Skálholti og hann setti fótinn fyrir brjóstið [á], og var hann slæmur fyrir brjóstinu jafnan síðan og þorði aldrei að hefna sín á hönum því hann bar ótta fyrir kallmennsku hans og hugrekki og leitaðist þegar að ná vináttu hans, og urðu þeir að lyktum góðir vinir sem hélzt meðan sýslumaður lifði.