Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Sagan af Axlar-Birni

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862)
Sagan af Axlar-Birni

Pétur hét maður, ættaður úr Hraunhrepp á mýrum; hann kvongaðist í Breiðuvík á Snæfellsnesi öndverðlega á dögum Guðbrandar biskups. Pétur átti tvö börn með konu sinni er hér var komið, son og dóttur; hétu þau Magnús og Sigríður. Eftir þetta varð kona Péturs með barni; er þá sagt að [að] henni setti fáleika mikinn með þeim hætti að henni fannst hún gæti ekki komizt af nema hún bergði mannsblóði. Við þessa ílöngun átti hún lengi að berjast án þess nokkur vissi, en loksins getur hún ekki leynt henni fyrir manni sínum. Af því samfarir þeirra hjóna voru góðar og Pétur mátti ekkert móti henni láta sem hann gat veitt henni vökvaði hann sér blóð á fæti og lét hana bergja. Þegar þessi ílöngun var stillt barst konu þessari í drauma ýms óhæfa sem ekki er á orði hafandi, og gat hún þess við vinnukonu sína að hún væri hrædd um að barn það sem hún gengi með mundi verða frábrugðið í ýmsu öðrum mönnum og gott ef það yrði ekki einhver óskapaskepna. Nú leið og beið til þess hún varð léttari; fer það allt með feldi og fæðir hún sveinbarn; var það nefnt Björn, vóx hann svo og vel dafnaði. Pétur hafði áður verið vinnumaður hjá Ormi Þorleifssyni ríka á Knerri, en því var hann kallaður Ormur ríki að hann átti allar jarðir í Breiðuvík út að Sleggjubeinu; hann hafði og byggt Pétri Húsanes og var vel til þeirra hjóna þó hann þætti svo harðdrægur í viðskiptum við aðra að um hann var sagt:

„Enginn er verri
en Ormur á Knerri.“

Þegar þeir bræður Magnús og Björn voru sex og fimm vetra reið Ormur einu sinni á reka og sá þá bræður leika sér á rifi einu og áttust heldur illt við og var Björn harðleiknari. Ormur reið þá um í Húsanesi og býðst til að taka Magnús á fóstur því hart var í ári. En móðir þeirra biður hann að taka heldur Björn, því hann sé óstýrilátur og þó mannsefni og voni hún að hjá Ormi verði heldur maður úr honum. Ormur lætur þá til leiðast og fer Björn með honum heim að Knerri. Björn leggur þar vináttulag við unglingsmann, fjósamann Orms, og höfðust þeir nálega við nætur og daga í fjósinu; það var mikið hús og í þrjátíu naut. Björn tók fljótum þroska eftir að hann kom til Orms, en dulur þótti hann í skapi og harðlyndur. Ormur átti launson sem Guðmundur hét; var hann á aldur við Björn og snemma mikill fyrir sér sem faðir hans og harðgjör; hann tamdi sér glímur og aðrar íþróttir sem þá var þó ekki alltítt, en við vinnu var hann lítið hafður; vel féll á með þeim birni og honum. Kirkja var þá sem nú á Knerri og var Ormur vandur að því að heimilisfólk hans rækti vel tíðir.

Það bar til einu sinni að Björn svaf um messutíma inni í rúmi móti vilja og vitund Orms. Dreymdi hann þá að ókunnugur maður kom til hans og hélt á diski með keti á skornu í bita og býður Birni. Björn þáði bitana og át átján og þótti hver öðrum lostætari, en við hinn nítjánda varð honum óglatt og illt og hætti við svo búið. Ókunnugi maðurinn segir þá: „Vel gerðir þú að þú þáðir mat minn; en nú vil ég leggja meira til við þig; far þú á morgun svo enginn viti af upp á Axlarhyrnu. Þar muntu sjá tvo einkennilega steina nokkuð stóra; lyftu upp minna steininum lítið eitt og það sem þú finnur norðan undir honum skaltu eiga og nota vel; fylgir því sú náttúra að þú munt verða nafnkunnur maður.“[1] Eftir það hvarf draummaðurinn, en Björn vaknaði og fýsti mjög að leita þess sem honum var til vísað. Daginn eftir var Björn snemma á fótum, fór upp á Hyrnuna og finnur steinana; undir minna steininum var öxi, ekki mikil, en allbiturlegt vopn. Þegar hann tók hana upp kom í hann vígahugur. Snýr hann nú þaðan og ofan í fiskiver á Frambúðum; hefur hann öxina hulda í klæðum og lætur engan sjá og huldi hana í hraungjótu; síðan rær hann þar með sjómönnum um daginn. Spyr hann svo skipverja sína að hvað þeir mundu vilja gefa sér fyrir það sem hann hefði fundið nýlega undir steini uppi á Axlarhyrnu. Þeir sögðu að það mundi hafa verið ómerkilegt. En um kvöldið þegar þeir voru lentir hleypur Björn frá skipi, en kemur bráðum aftur; hefur hann þá í hendi sér öxi og þegar hann kemur til skipverja reiðir hann hana á loft með vígahug og segir með kuldahlátri: „Hver af ykkur vill nú eiga náttstað undir þessari?“ Þeim varð heldur bilt við og vildi enginn til þess verða. Einn af skipverjum, gamall maður og hygginn, sagði við lagsmenn sína, en gegndi Birni engu: „Takið öxina af honum því þetta er óhappaverkfæri.“ Björn beið þá ekki boðanna og fór sína leið heim að Knerri. Skömmu síðar hvarf fjósamaður á Knerri, lagsmaður Bjarnar, og fannst hann hvergi.

Vinnukona var á Knerri sem Steinunn hét; hún þjónaði Birni og giftist honum. Um þetta leyti dó Ormur ríki, en Guðmundur sonur hans bjó eftir hann á Knerri og varð brátt ríkur í héraði. Hann byggði Birni fóstbróður sínum Axlarland. Bærinn í Öxl hafði áður staðið fyrir utan hólana, en Björn færði hann með leyfi Guðmundar ofan og heim fyrir þá; þar reisti Björn bú með Steinunni konu sinni sem verið hafði þjónusta hans á Knerri; þeim farnaðist vel; fátt hafði hann hjúa, en hélt þau vel. Það þótti mönnum furðu gegna hversu marga hesta Björn átti og fór þá suma að gruna að þeir mundu misjafnlega fengnir, og sá kvittur kom upp að hann myrti menn til fjár. Eitt sinn sendi ríkur maður nokkur sem Björn hét tvo vinnumenn sína vestur undir Jökul til róðra og fól nafna sínum í Öxl þá til umsjónar. En þegar þeir komu að Öxl og Björn sá að þeir voru vel útbúnir og höfðu væna hesta bauð hann þeim með sér út í fjós. Þar var myrkt, en þó sér annar þeirra glampa á eitthvað í hendinni á Birni; ber hann honum þá þegar kveðju húsbónda síns. Þegar Björn vissi hvaðan þeir voru tók hann þeim vel, veitti þeim bezta beina og útvegaði þeim góð skiprúm á Stapa. En það grunaði þá lagsmenn að öðruvísi mundi hafa farið ef Björn hefði ekki nógu snemma vitað hvaðan þeir voru.

Sagt hefur verið að gestur einn norðlenzkur gisti hjá Birni og var honum um kvöldið vísað til rúms frammi í skálahúsi í bænum. Þegar hann var lagztur fyrir varð honum ekki svefnsamt og fór ofan. Varð honum það þá fyrir að hann þreifaði undir rúmið og fann þar mann dauðan. Við það varð honum ákaflega bilt, en tók þó það ráð að hann lagði hinn dauða upp í rúmið og breiddi rúmfötin yfir, en sjálfur lagðist hann undir rúmið þar sem dauði maðurinn lá áður. Þegar eftir var þriðjungur nætur hér um bil komu þau Björn og kona hans í skálann. Hafði Björn öxi í hendi og lagði í gegnum þann sem í rúminu lá, því hann ætlaði að það væri gesturinn og skyldi hann ekki frá tíðindum segja. Kona Bjarnar segir: „Því eru svo lítil eða engin fjörbrot hans?“ Björn svarar: „Í honum krimti, dæstur var hann, en ósleitulega til lagt, kerling.“ Við það fóru þau til baðstofu. En þegar lýsti af degi forðaði gesturinn sér úr bænum og komst við það heill undan.

Þó miklar dylgjur væru um framferði Bjarnar þorði enginn að kveða upp úr með það fyrir ríki Guðmundar Ormssonar, en þó fór vinátta þeirra Bjarnar heldur að kólna um þessar mundir og eru ekki orsakir tilgreindar nema ef vera skyldi sú að einu sinni reið Guðmundur að heiman til Garða í Staðarsveit og hafði tvo hesta til reiðar. Seint um kvöldið kom hann við í Öxl heim í leið og bað að gefa sér að drekka. Björn bauð honum inn, en það þáði Guðmundur ekki. Kom þá kona Bjarnar út með blöndukönnu og réttir Guðmundi á hestbak. En þegar hann ætlar að fara að drekka kemur Björn út í stórri úlpu; sér Guðmundur að skaftendi stendur niður undan úlpunni, fleygir hann þá blöndukönnunni og ríður af stað. Í því bregður Björn öxinni undan úlpunni og heggur til Guðmundar, en missti hans og særir hestinn miklu sári svo Guðmundur komst ekki heim á honum og tók þá hinn ósára. Daginn eftir fór kona Bjarnar út að Knerri og bað Guðmund fyrirgefningar á tilræði þessu. Guðmundur hét henni góðu um það, en sagði að upp mundi komast ódæði Bjarnar þótt hann þegði.

Miðvikudaginn í páskaviku sama árið komu systkin tvö að Öxl; hlákuveður var og orðið framorðið; beiddust þau gistingar og var það fúslega veitt. Voru dregin af þeim vosklæði og fengin önnur föt þurr. Síðan var þeim borinn matur. Kerling sat þar í baðstofunni og svæfði barn; sagt er að hún hafi viljað vara systkinin við hættu þeirri sem yfir þeim vofði og raulaði fyrir munni sér gamla vísu í hvert sinn sem kona Bjarnar fór fram. Vísan er svo og þó höfð á ýmsa leið:

Gisti enginn hjá Gunnbirni
sem klæðin hefur góð;
ekur hann þeim í Ígultjörn,[2]
rennur blóð
eftir slóð,
og dilla ég þér jóð.

eða svo:

Gisti enginn hjá Gunnbirni,
sem góð hefur klæði,
og dillidó;
svíkur hann sína gestina
sem úlfurinn sauðina,
og korriró.

Þegar þau systkin voru búin að borða fór stúlkan[3] fram. En litlu síðar heyrði bróðir hennar hljóð og varð honum bilt við. Hleypur hann þá út og inn í fjárhús. Björn kom þegar á eftir; hleypur pilturinn þá upp í garðann og þaðan inn í heytóft sem var áföst við húsið og komst þar út því torfið var þítt. Björn kom enn á hæla honum, en missti sjónar á honum í myrkrinu; komst svo pilturinn í hraunið og faldist í gjótu skammt frá bænum meðan Björn leitaði. Síðan fór pilturinn úr gjótunni og komst um nóttina ofan að Hraunlöndum. Bóndinn á Hraunlöndum fylgdi honum út að Hellnum til Ingimundar hreppstjóra í Brekkubæ sem bæði var ríkur maður og harðfengur. Á páskadaginn snemma tekur Ingimundur tvo karska menn með sér og ríður heim að Knerri. Fátt var með þeim Guðmundi á Knerri og honum; hafði Guðmundur þó ríkur væri og harðfengur orðið undir bæði í átökum og viðskiptum við Ingimund. Þenna páskadag skein sól í heiði og stóðu menn úti í góða veðrinu; þar var og kominn Björn frá Öxl og er mælt hann hafi sagt við þá sem næstir honum stóðu: „Nú eru sólarlitlir dagar, bræður[4] Brátt gengur Ingimundur að Birni og spyr hvaðan honum komi hetta[5] sú sem hann hafði á höfði, hneppir síðan frá honum hempunni sem hann var í yztri fata og spyr hvaðan hann hafi fengið silfurhneppta peysu og bol sem Björn hafði. Björn segir að slíkar spurningar séu heldur betur kynlegar og muni hann engu þar til anza. Ingimundur sagðist og ekki þess við þurfa, kallaði á fylgdarmenn sína og bað þá líta á föt þessi á Birni og bera um hvort vinnumaður sinn Sigurður sem farið hafði frá Ingimundi fyrir tveimur árum og hafði horfið svo enginn vissi hvað af varð hefði ekki átt þessi föt og verið í þeim þegar hann fór frá Ingimundi, og sönnuðu þeir það. Kvaddi þá Ingimundur Guðmund Ormsson til að taka Björn höndum sem illræðismann; en Guðmundur neitaði því. Ingimundur tók svo Björn höndum og lýsti hann banamann Sigurðar og stúlkunnar sem áður er getið og flytur út á Arnarstapa til Jóns lögmanns. Síðan var Steinunn kona Bjarnar sótt og sett í varðhald á Stapa. Meðkenndi Björn þá fyrir lögmanni að hann hefði drepið og myrt átján menn alls og þeirra fyrstan fjósamanninn á Knerri og væri hann dysjaður þar undir flórnum, en hina sautján hefði hann fólgið í Íglutjörn og bundið steina við líkin og hefði kona sín verið í vitorði og aðbeiningu með sér.

Þau Björn og Steinunn voru bæði dæmd til dauða á Laugarbrekkuþingi 1596. Skyldi fyrst beinbrjóta Björn á öllum útlimum og síðan afhöfða; en lífláti Steinunnar var frestað því hún var þunguð. Ungur maður sem Ólafur hét og var náskyldur Birni var fenginn til að beinbrjóta hann og höggva; voru leggirnir brotnir með trésleggju og haft lint undir svo kvölin yrði því meiri. Björn varð karlmannlega við dauða sínum og pyntingum, viknaði hvorki né kveinkaði sér. Einu sinni meðan bein hans voru brotin sagði hann: „Sjaldan brotnar vel bein á huldu, Ólafur frændi.“ Þegar allir útlimir Bjarnar voru brotnir sagði kona hans við aðra þá sem við voru staddir: „Heldur tekur nú að saxast á limina hans Björns míns.“[6] Gegndi þá Björn til og sagði: „Einn er þó enn eftir og væri hann betur af“, og var hann þá höggvinn. Dys Bjarnar sést enn í dag hjá túninu á Laugarbrekku á Laugarholti sem kallað er þar sem kirkjuveggir skiptast frá Laugarbrekku að Hellnum og Stapa. Er dysin úr grjóti og orðin grasi vaxin að neðan og kölluð Axlar-Bjarnar dys.

  1. Ein missögn er það að Björn dreymdi einu sinni að hann æti nítján mannaketsbita, en missti þann tuttugasta út úr sér. Hann var þá við slátt og sagði manni drauminn. Maðurinn þýddi svo drauminn að Björn mundi drepa nítján menn, en sá tuttugasti sleppa. „Þú skalt þá verða sá fyrsti,“ segir Björn og drap hann. Öðru sinni dreymdi hann að kæmi til sín maður og spyrði hvort hann vildi ekki eiga axarkjaggið sem lægi uppi á Hyrnunni. Þegar Björn vaknaði hugsaði hann eftir þessu, gekk upp á Hyrnu, fann öxi, gekk heim með hana og reyndi hana á því að hann hjó í sundur hvolpafulla tík. Með þessari öxi myrti hann síðan mennina.
  2. Á líklega að vera „Iglutjörn“, sem kvað vera skammt frá Öxl.
  3. Þessi frásögn fer næst því sem Espólín segir í Árbókunum, V, 84.-85. bls., að stúlkan hafi verið drepin, en pilturinn komizt undan, en mismunar nokkuð frá því sem stendur í nr. 13 af „Íslendingi“ 1. ár, einnig „eftir sögnum og munnmælum á Snæfellsnesi 1852“; en til þeirrar sagnar svipar meir munnmælum þeim um dráp piltsins og frelsun stúlkunnar sem gengu í Húnavatnssýslu um 1830. Eftir þeim er sagan svo að Björn hafi myrt piltinn, en stúlkan komizt undan í fjósrangalann (Hér líkist sögn þessi aftur því sem Espólín segir. Árb. V, 84.) og falið sig þar um stund upp á skammbita meðan Björn kannaði rangalann og pjakkaði með broddstaf um allt rangalaræfrið. fékk hún af því tvo eða þrjá stingi í útlimina, en hafði áður troðið upp í sig hálsklút sínum svo að Björn heyrði hana hvorki draga andann né hljóða þó hún kenndi sársaukans. Þegar hann fann hana ekki í rangalanum fór hann í bæinn eftir ljósi; en hún hljóp á meðan inn í fjósið og þar út. En í því hún var að láta aftur fjósið sá hún að ljós var borið í innri enda rangalans úr bænum. Hún fleygði þá aftur fjóshurðinni og hljóp beint af augum sem fætur toguðu og Björn á eftir. Stefndi hún niður til tjarnar einnar (Iglutjörn) sem þar var nærri, og af því frosið hafði um kvöldið frá því þau systkin komu að Öxl svo hundtyllingur var orðinn aðeins á tjörninni hljóp stúlkan í dauðans ofboði út á hana eins og beinast horfði við og varð með því móti fljótari en Björn og gat komizt í hraunið. En Björn varð að krækja í kringum tjörnina og missti við það sjónar á stúlkunni. Var það talin mildi guðs að hún komst lífs yfir tjörnina nýskænda og gat forðað sér til að koma upp ódáðum Bjarnar.
  4. Allar aðrar sagnir sem ég hef heyrt hafa „piltar“, en ekki „bræður“.
  5. Fyrir norðan var sagt að Björn hefði haft hatt á höfði við Knarrarkirkju í þetta sinn og að stúlkan sem slapp áður úr höndum Bjarnar hafi fyrst gengið að honum og sagt: „Of fallega skartar hatturinn hans bróður míns á hausnum á þér í dag, bölvaður fanturinn,“ og hafi aðrir þá komið til og tekið Björn.
  6. Aðrir bæta því við að hún hafi um leið klappað á lífið á sér og sagt: „Þessi mun hefna.“ Þó er þess ekki getið að Sveinn skotti sem hún gekk þá með hafi hefnt föður síns.