Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Sveinn skotti

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search

Það er frá Steinunni að segja, konu Bjarnar, að hún fór norður að Skottastöðum í Svartárdal og ól þar son sem kallaður var Sveinn skotti. Þegar Steinunn var orðin léttari segja sumir að hún hafi verið tekin af án þess hún viknaði.

Sveinn fór víða um land eftir að hann komst á legg, bæði stelandi og strjúkandi, gat börn víða og þótti djarftækur til kvenna; nálega var hann kunnur að illu einu, en enginn var hann hugmaður eða þrekmaður. Bæði var hann hýddur norður í Þingeyjarsýslu fyrir stuld og aðra óknytti og aftur á alþingi 1646 var honum dæmd hýðing fyrir sömu sakir svo mikil sem hann mætti af bera og þar með skyldi hann missa annað eyrað. Eftir það hélt Sveinn sig á Vestfjörðum og lagði lag sittt við Jón nokkurn sem kallaður var Sýjuson; hann tamdi sér galdur og aðra illmennsku. Þeir kumpánar stálu fé manna af afréttum og höfðust annað illt að. Sagt er að Sveinn næmi galdur að Jóni og veðsetti sig djöflinum til þess að enginn fjötur gæti haldið sér og treysti Sveinn þeim samningi síðan. Einu sinni kom Sveinn á bæ um messutíma og var allt fólk við kirkju nema börn, hið elzta tólf eða þrettán vetra. Sveinn stakk upp búrið og fyllti þar poka sinn af því sem honum þótti lostætast. Síðan kom hann til barnanna, nefndi sig réttu nafni fyrir þeim og gaf þeim bita úr pokanum sínum. Sögðu þá börnin við hann: „Guð drýgi í pokanum þínum, Sveinn minn.“ Sveinn svaraði: „Hann þarf þess ekki; ég get það sjálfur.“ Loksins var Sveinn handtekinn þegar hann vildi nauðga konu bóndans í Rauðsdal á Barðaströnd, en bóndi var ekki heima. Lét hún binda Svein með reifalinda sínum og hélt hann Sveini af því hann hafði gleymt að taka fram um reifalinda í samningnum (contractinum) við kölska. Var Sveinn svo dæmdur og hengdur í Rauðuskörðum 1648.

Tveim árum síðar var Jón Sýjuson dæmdur líflaus á alþingi og skyldi afhöfða hann. Er sagt að böðullinn yrði að höggva þrjátíu sinnum á háls Jóni áður höfuðið færi af, því svo var sem höggvið væri í stein og veðraðist öxin öll upp í eggina. Í öðrum skó Jóns fannst eikarspjald, en í hinum höfuðskel af manni með hárinu á, hvorttveggja ritað rúnastöfum; þetta olli því að öxin beit ekki. Eftir aftökuna gekk Jón aftur þangað til þingmenn tóku skrokkinn og brenndu til kaldra kola.

Sveinn átti son eftir sig sem Gísli hét og var kallaður hrókur, og þótti þar renta fylgja nafni. Hann var bæði þjófur og annað illt að honum; hann var seinast hengdur í Dyrhólum. Sagt er að Sveinn ætti dóttur eina sem var í Dalshúsum hjá Sauðlauksdal og var notuð til þess að halda á barni bónda. En þegar hún hafði ekki lag á að hugga barnið sagði hún við það: „Væri ég sem afi minn, væri gott að stinga gat á maga og hleypa út vindi.“ Þegar bóndi heyrði þetta orðalag til hennar rak hann hana burtu.

Lengi þótti reimt eftir þar um kring sem Skotti var hengdur og trúað var því að það væri af völdum hans að séra Guðbrandur Sigurðsson frá Brjánslæk varð úti í Rauðuskörðum 132 árum síðar.