Alþingisrímur

Úr Wikiheimild

Líklega eftir Guðmund Guðmundsson skólaskáld og Valdimar Ásmundsson.

Fyrsta ríma (Þinghúsríma)[breyta]

Stikluvik

Dísin óðar, himins Hlín,
hell mér glóð í blóðið;
eg í ljóðum leita þín,
líttu góða’, í náð til mín.


Hertu stengi hörpunnar,
háa ljá mér tóna;
syngdu um drengi sögunnar
sætt og lengi um vökurnar.


Herjar kera kneyfi’ eg bjór,
kalla á allar vættir;
mögnum hér vorn kvæða-kór
um kappa’ er bera völdin stór.


Eg vil syngja óðinn minn,
æðin blæði Kvásis,
um vort þing í þetta sinn
með þróttar-slyngu afrekin.


Út við grænan Austurvöll,
sem angar lengi’ á vorin,
stendur væn og vegleg höll,
vonin mænir þangað öll.


Húsið vandað háveggjað
hlær við skærum röðli,
Bald á sandi byggði það,
Bald hefur landið margsnuðað.


Þar er stríðið þunga háð,
þar eru skörungarnir,
þar sjá lýðir þor og dáð,
þar fæst tíðum biti’ af náð.


Brandar gjalla góma þar,
glymja’ og ymja salir,
ræður snjallar, stórorðar
stökkva’ af palli mælskunnar.


Hetjur þá er halda á þing
húfur og skúfar glitra;
margir slá um húsið hring,
horfa’ á knáa skrautfylking.


Magnús prúði fremstur fer,
frækinn mæki gyrtur;
ljósin Úðar leika sér
um Löndungs skrúðann, sem hann ber.


Hvíti fjaðurhatturinn
háan lágan gerir;
krossum hlaðinn höfðinginn
hefur aðals baksvipinn.


Lágur á velli og lotinn er
lundur Þundar bála;
aðköst, hrelling, hulin sker
hefur elli í för með sér.


Völdin háu heykja þá,
sem hreinir reyna’ að sýnast,
vegsemd þrávalt vandi’ er hjá
og vant að sjá, hve treysta má.


Stríð er að fást við stjórn og þjóð,
sem standa andvíg jafnan;
kóngaást er einatt góð,
en oft það sást að skammt hún stóð.


Fagurt skein á forsetann
fríðan neðri deildar;
skortir einurð aldrei þann
íturhreina sæmdarmann.


Doktor Valtýr víðfrægur
var og þar í flokki,
hæstur talinn herkóngur,
Herjans sala máttviður.


Brandinn nautinn Nellemanns
nakinn skók í mundum;
var í þraut sá vinur hans
vopnagautur utanlands.


Þar var herra Hallgrímur,
herlega forkláraður,
og líkur Sverri Sigurður,
svartur og snerrinn ísfirzkur.


Klemens slyngur korðann sinn
kreisti og hvessti augun
oft á þingmenn íbygginn
Eyfirðinga höfðinginn.


Völdin há og virðing ber
vopna-Þráinn knái,
enda tjá það margir mér,
að maðurinn sá veit hver hann er.


Guðjón rauðan hristi haus
með hrotta-glott á vörum,
aldrei blauður, óttalaus
öskraði, sauð og vall og gaus.


Andar þutu óhreinir
út af beiti spjóta;
fram er brutust berserkir,
blóðgir flutu valkestir.


Hollur tiggja’, er var til von,
vanur fénu að býta
rammur Yggjar reið þar kvon
riddarinn Tryggvi Gunnarsson.


Margir stefna í húsið hátt,
en hér um fleiri ei getur;
þá, sem efna eggja slátt,
eg mun nefna og lýsa brátt. —


Stríðsöl teygað óspart er
áður en stríðið byrjar;
glóa veigar, glampa ker,
gott er að eiga sæti hér.


Stirnir presta alda á,
Íslands vísu syni,
þar má flesta saman sjá,
sæmd er mesta vilja fá.


Þar hin hreina þjóðrækni
þykir mikils virði,
einlæg meining, mannhylli,
mögnuð eining, sjálfstæði.


Þvílík björg ei bifast hót,
búinn þó sé hætta,
efla að hörgum heilög blót,
hamast vörgum grimmum mót.


Því skal minnast maklega
málmþings álma snjallra,
en — Hrundin tvinna hýreyga,
eg hætti um sinn við rímuna.Önnur ríma (Valtýs ríma og Benedikts)[breyta]

Ferskeytt

Nú skal byrja braginn á
Bensa hinum gamla;
mest á þingi þótti sá
þjóðskörungur bramla.


Hátt var ennið, hvatleg brá,
harka í andlitsdráttum;
gustur kaldur gaus um þá
úr geysimörgum áttum.


Þar hafa örlög ramma rún
rist, er fáir skilja;
atalt skein und augnabrún
eldur þrjózku’ og vilja.


Þung var röddin, römm og snjöll
rétt sem ofsaveður,
eða hrynji hæstu fjöll
heljar-skriðum meður.


Liðs fyrir þing sér leitaði’ hann,
um landið var á hlaupum,
en berserk aðeins einn hann fann
í þeim mannakaupum.


Karli var það um og ó
út á fari tveggja
stjórnmálanna’ á saltan sjó
í svarta roki’ að leggja.


Valtýr undir Lómsey lá,
laust í rómu harða;
Nellemanni fékk hann frá
feikimikinn barða.


Trjóna’ á dreka gein við grá
gráðugu Hildar róti;
mátti stæltan stálkjaft sjá
standa fjöndum móti.


Rafmagnsljós ei lýstu þar
lýðum Valtýs snjöllum,
en „mýraljósið“ magnað bar
mikla birtu öllum.


Lauga mun eg minnast á,
mesti jötunn var hann;
ægilega ygglibrá
andlitssvartur bar hann.


„Grenjaði voða-hljóð með há“,
hnefum skjöldinn barði,
dreka Valtýs djarfur sá
drengilega varði.


Glæsimenni Valtýr var,
af virðum flestum bar hann;
þó um hann þytu örvarnar,
aldrei smeykur var hann.


Orðahremmsur þutu þétt,
þrumdi’ í mælsku tólum;
stjórnarskútan leið fram létt
líkt og vagn á hjólum.


Gramt var Lauga í geði þá,
gráðugur valköst hlóð hann;
meir en fyrr var biksvört brá,
blóð í kálfa vóð hann.


Honum vits mun frýja fár,
en fremur um græsku mundi
grunaður sá kappinn knár;
hann komst í land á sundi.


Spýttust „eiturormar“ þá
út úr Guðjóns túla;
og engir brandar bitu á
berserkinn í Múla.


Landshöfðinginn lagði frá
löngum hríðum mála:
fús hann leggur aldrei á
ísinn slétta’ og hála.


Nú var Bensa brjóstið þreytt,
beygði karlinn mæði,
en Valtý hann ei hræddist neitt,
hjartað sló af bræði.


Bleki spúðu berserkir,
beittir pennar flugu,
málaoddar eitraðir
inn í hjörtun smugu.


Sungu lengi sverðin blá
seggjum dánarlögin;
dundu í lofti og þutu þá
þungu reiðarslögin.


Hné þá Bensi helveg að,
hetju mæddi elli;
eins og Hannes Hafsteinn kvað,
hélt þó kappinn velli.


Íslands grétu fjöllin forn,
fossinn gígju stillti;
Einar sat og hljóður „horn“
harma sinna „gyllti“.


Þá var mikil þjóðar sorg,
þá voru’ augu á floti,
gnístran tanna í glæstri borg,
grátur í Tobbukoti.


Minna Gustav Adolf á
afrek kappans snjalla,
sem við Lützen sverði brá
með sigri’, en hlaut að falla.


Það er gott að falla’ að fold
fyrir ættjörð sína;
látins yfir lágri mold
ljúfar stjörnur skína.


Lofaður mun hann ekki um of,
afrek hans og geðið,
úr því Hannes Hafsteinn lof
hefur um hann kveðið.


Valtýr undan halda hlaut,
hraustur seint þó flúði;
upp á drekann Einar „graut“
ákaflega spúði.


Kvað þá Valtýr: „Örvænt er
ekki’ um landsins bjargir,
svo sem Nelli sagði mér,
sjóli’ og ótal margir.


Annars dags eg betra bíð
bröndum með að stríða;
sérhvað hefur sína tíð,
sízt er neinu að kvíða“.


Lauk þá rómu, einskær ást
til ættlands sást þar skína,
þar sem enginn, enginn brást
elsku’ og rækt að sýna.


Enda læt eg óðsmíði,
en aftur hef eg kliðinn,
þegar Valtýs vitjaði
vinur aldinn liðinn.


Sofa rósir, dreymir draug
dóm og kærur saka;
ofar ljósin luktum haug
ljóma skær og vaka.Þriðja ríma (Draumríma)[breyta]

Braghent

Hrindi’ eg Austra fari’ á flot og fer að kveða;
Valtýs aftur leita ljóðin,
landsins hlýði gervöll þjóðin.


Sár og þreyttur hélt hann heim í hvílu sína,
ljúfur blundur leið á brána,
lukti hetjuaugað frána.


Sumarnóttin verndarvængi voldug lagði
yfir hann og böli bægði;
blíður draumur harma lægði.


Nellemann hann þóttist þá í þingsal líta
lagðan gulli og ljósum borðum,
líkt og úti’ í Danmörk forðum.


Reis úr sæti ráðgjafinn og réði mæla:
„Þú átt, Valtýr, þetta sæti;
þoka, vinur, hingað fæti.


Baráttu þú barðist góðri’, úr býtum líka,
eins og núna sjálfur sérðu,
sigurlaunin fögur berðu.


Alltaf mín þú fast í fótspor fetað hefur;
maklegastur muntu vera
mína tignarskikkju’ að bera“.


Að svo mæltu af sér reif hann allan skrúðann,
Valtýs brjóst hann hendi hrærði,
hann í tignarklæðin færði.


Krossum mörgum björtum, bæði’ í bak og fyrir,
Valtýr sá sig sjálfan skrýddan;
sætið tók hann, glaður hlýddi’ ’ann.


Valtýr áður yfirfrakka átti brúnan,
af átján meyjum unninn var ’ann,
öðrum langt af flíkum bar ’ann.


Þegar á eimreið Valtýr var í Vesturheimi
Indíánar á hann skutu,
á þeim frakka vopn sín brutu.


Og er grautnum upp á drekann Einar spúði,
eins og fyrr er innt í ljóði,
allt brást nema frakkinn góði.


Mælti Valtýr: „Vel mér þætti’, ef vita’ eg kynni,
hver nú mundi virða vera
verður þennan frakka’ að bera.


Verðari’ hans um veröld alla víða finn eg
engan kærum aldavini,
Einari mínum Hjörleifssyni“.


Þóttist Valtýr húrra-hróp þá heyra’ í salnum,
hátt í rjáfri hvelfdu dundi,
hrökk hann upp af værum blundi.


Þá var eins og andi kaldur um hann liði;
þungur súgur þaut við glugga,
þrusk hann heyrði’ í næturskugga.


Stóð á ofni hundsmynd hátt í herberginu,
hafði gull á hvítu trýni;
hundurinn var úr postulíni.


Þá var hálfbjart. Eitthvað út við ofninn bærðist.
Valtý þangað varð að líta.
Vofu sá hann mjallahvíta.


Valtý brá, hann þóttist þekkja þennan svipinn;
Bensa’ ’inn gamla glöggt hann kenndi,
gegnum brjóst hans óttinn renndi.


Taugar, sinar, brjóskið, beinin, blóðið, æðar
hrollur greip, og hjartað barðist;
hetjan naumast æði varðist.


Vofan hóf upp hendurnar og hátíðlega
hvíldi ró á brúnabaugum,
bjarma sló frá hvössum augum.


„Valtýr“, kvað hún, „kominn er eg kalda vegu
til þín nú mig nauðsyn knúði,
napra dánarsali’ eg flúði.


Fyrst vér sjáum sannleikann, er sárt vér þráum,
þegar losna líkamsböndin,
lyftir sér til himins öndin.


Ljóst er mér nú loksins, hvað þú liðið hefur
fyrir Íslands frelsi og heiður;
fjarri’ er nú að eg sé reiður.


Valtýskan minn versti fjandi var á jörðu;
eg hef fengið æðri þekking;
engin nú mig ginnir blekking.


Upp nú lyfti’ eg höndum hátt og hana blessa;
hún skal ráða lýð og landi,
ljúf og góð sem verndarandi.


Aldrei muntu út af þinni „eimreið“ hrjóta,
þó að hátt í tálknum tóni
Tobbu hjá og séra Jóni.


Fullkomnað er allt — og öllum ófrið lokið.
Vertu sæll, — og svo án tafar
sáttur fer eg út til grafar“.


Hvarf þá vofan; hissa Valtýr horfði’ í bláinn,
bæði af ótta og undrun bundinn;
ekkert sá hann nema hundinn.


Mundar fanna Grundin granna góða’ og rjóða!
un í leyni ljóðin viður. —
Léttur dettur óður niður.Fjórða ríma (Eldhúsdagsríma)[breyta]

Gagaraljóð

Gígjan knúð skal hljóða há,
hlusti fljóð, en syngi menn;
Magnús prúða minnast á
munu ljóðin aftur senn.


Fyrir stríðið fjárlaga
flestir stika þingmenn djarft,
af því víða aflaga
ýmsum þykir fara margt.


Heyrast ópin æðihá,
upp í rót er þingið fer;
stjórnar sópa strompinn þá,
strýkur sótið hver af sér.


Heyja frægir hamramman
hjörva slátt með sköllunum
„eldhúsdaginn“ alræmdan;
ekki er fátt á pöllunum.


Skúla nefni’ eg skjóma-Bör,
skarpur gildur fullhugi,
margri stefna eitur-ör
oft hann vildi’ að Magnúsi.


Mikið féll á herðar hár,
hafði skalla’ að framan þó;
þótti á velli þrekinn, knár,
þrautir allar gegnum smó.


Stoð hann þótti lýðs og lands,
löngum bændum fylgdi vel;
brast ei þrótt né þrekið hans,
þótt hann ætti í vændum hel.


Óspar var á eigið fé,
ættlands sjóðum hlífði mest;
krónurnar lét karl í té,
kærleik þjóðar mat hann bezt.


Erjur strangar átti hann
áður forðum Magnús við;
skjótt þó ganga’ á Skúla vann
skarpa korða hretviðrið.


Þjóðin Skúla fylgdi fast,
fjártjón skæðast beið hann þó;
en á honum túlinn ekki brast,
er af honum klæðin stjórnin dró.


Endurborinn í sér hann
ætlaði Skúla fógeta;
kaupmenn vora hugðist hann
hörðum múl að þrælbinda.


Ása móður á hann kvam,
augun brunnu stór og grá,
byrstur vóð í berserksham,
brandarunnum móti þá.


Magnús slag hann þóttist þá
þurfa’ að reyna’ af nýju við;
varð Fjárlagavöllum á
válegt fleina kafaldið.


Æddu góma eldflaugar,
ýfðust brár á köppunum;
sólir ljóma Sigmundar
sýndust þrjár í höndunum.


Skúli lagði, Skúli hjó,
skjóma brauzt út élið rammt;
Magnús þagði, Magnús hló,
makalaust hann varðist samt.


Fremst í brjósti fylkingar
fram þar geystist Laugi knár;
sá með þjósti brandinn bar,
bragna treystist við hann fár.


Magnús prúða’ á móti rann,
mælgin stúku’ á vörum óð;
eldi spúði’ og eitri hann,
eins og rjúki að klettum flóð.


Magnús hálfgert hikaði,
hjarta raunir settust að.
„Aldrei kálfar ofeldi
aftur launa“, í hug hann kvað.


Einnig snjall þar atti flein,
út er flóði mælskan rík,
sá er allra mýkir mein
manna og fljóða’ í Keflavík.


Magnús skjaldsvein Flensborg frá
fékk, er gat þó lítt í þraut;
hildi sjaldan háði sá,
heima sat hann mest við „slöjd“.


Marga skeinu Magnús hlaut,
mæki bjartan reiddi þó,
sábeitt einatt örin þaut
að hans svarta hjarna-mó.


Brynjan hörð þó hlífa vann;
henni fylgdi kraftur sá,
eigin gjörða engra hann
ábyrgð skyldi borið fá.


Nokkuð þung í vöfum var,
var þó honum sæmandi,
andlitsþrunginn þá hann bar
þetta konungs gersemi.


Vök hann átti að verjast í,
var þó brynjan skjólið hans;
þóttu hátt við Hildar gný
harðar drynja grundir lands.


Svo var kallað samt, að þar
sigri Magnús fengi náð;
hrukku allar hetjurnar
harða slagnum frá í bráð.


Þrýtur ljóðin, — líti þjóð
línur fáar mínar á.
Flýtis-óðinn ýta fróð
öldin má á kvöldin sjá.Fimmta ríma (Fjárlagaríma)[breyta]

Langhent

Það er eitt af þingsins verkum
— þangað skal nú víkja mál —
út að hluta mönnum merkum
mótað fagurt Rínar bál.


Keppist hver að köku sinni
kappinn eldi’ að skara þá;
brennur mjög í brjóstum inni
bálheit gull- og silfurþrá.


Oft er rimman háð þar hörðust,
hver vill sínum veita lið;
aldrei sumir betur börðust,
brugðið er því jafnan við.


Svo var og á þessu þingi,
þótti harðna vopna dans;
bezt þó sótti ’inn sóknumslyngi
Sigurður snari’ og kappar hans.


Burt þeir héldu gulli gæddir,
glampi stóð af ásjónum,
undurfögrum fötum klæddir
úr fjögra aura póstmerkjum.


Næst þeim dugði doktor Forni,
dál’tið var hann rykugur;
sagt er á þeim sama morgni
sást hann ganga óhaltur.


Dróttir til hans drjúga bita
detta létu’ af borðum hám,
því annars þóttust allir vita,
hann yrkja mundi’ um þingið klám.


Silfri út þeir sáðu’ um götur,
sínu hver þar eftir gekk;
Bjarni til að skoða skötur
skratti háa summu fékk.


Matthías vor á vængjum þöndum
vatt sér snjall að hrúgunni.
Gullið kreisti’ í heljarhöndum
Haraldur inn ebreski.


Þeir, sem upp til himinhæða
hóa drottins gemlingum,
landssjóð talsvert létu blæða,
líkt þeim var það, blessuðum.


Sent var læknum sáðið Kraka,
svo þeir gætu keypt sér skol;
drjúgan skerf þeir til sín taka
til að rífa menn á hol.


Sýslumönnum sízt má neita
silfrið um, er gert þeim var,
svo þeir stæðust við að veita
vín um næstu kosningar.


Dável þótti varið vera
vænni hrúgu af peningum
til að kenna að kókettera
kvennaskólastúlkunum.


Upp í matarskóla skína
skæru faldasólirnar,
eitthvað þurfti til að tína
til að fylla kjölturnar.


Jónas þurfti fólk að fræða
um færin betur æxlunar, —
á hans ritum einkum græða
yfirsetukonurnar.


Fé sem nemur fjölda bjóra
fengu’ í hlut sinn Templarar;
enda er sagt þeir sitji að þjóra
síðan fram á næturnar.


Súrir mjög á svipinn fóru
sumir burt og fengu ei neitt,
en þeir furðu fáir vóru:
féð er löngum óspart veitt.


Krókinn vildi’ af kappi maka
kvennaljóminn Indriði;
þegar átti til að taka,
tómhljóð var í skúffunni.


„Sverð og bagal“ sinn hann reiddi,
sorglega brást hans fagra von;
út er þingið auðinn greiddi,
Einar hlaut hann Gunnarsson.


Gvend á Sandi sveið í lófann,
synjuðu þeir um skáldstyrkinn,
einn með hnýttum höndum skóf hann
himingrautar-pottinn sinn.


Til að „spila á telegrafinn“
trú eg þingið veitti ei fé, —
á því hvílir helzi vafinn,
„hazard-spil“ hvort ei það sé.


Stefán Sveinsson sigla vildi
sér til gagns og skemmtunar;
kvaðst hann aftur kominn skyldi
kenna mönnum reykingar.


Þingmenn bentu á tóbakstollinn,
töldu skaðlegt því um líkt;
sögðu að mætti sjálfur skollinn
senda menn að læra slíkt.


Jóhann refum ótal eyddi
oft á grýttum fjallastig;
styrkinn þó ei þingið greiddi,
það var dauðans hrætt um sig.


Beztu húsin margir meina
moldarbælin gömlu sé,
til að gera tigulsteina
tókst ei Birni að safna fé.


Brynki, sá er fríðum fljóðum
fagran kennir organslátt,
ekkert fekk af unnarglóðum,
út hann gekk og stundi lágt.


Ekkert fekk hann „Binni bróðir“,
bágt þó væri um prestsgjöldin;
verndi allir englar góðir
Ólafsvalla guðsmanninn.


Þingið bændum veita vildi
vænan styrk sem alloft fyr,
en er til þess taka skyldi,
tæmdir voru sjóðirnir.


Endar ríma, úti’ er skíma,
að mér gríma sækja fer. —
Lofnin kímin lagar bríma,
lof mér að híma’ í nótt hjá þér!Sjötta ríma (Bankaríma)[breyta]

Ferskeytt

Nú skal búið Frosta far
fljúga um leiðir Drafnar;
yfir bláu bárurnar
bregð eg mér til Hafnar.


Þar er auður, gæði, gull,
gleðistundir nógar,
ker af víni fleytifull,
fagrir beykiskógar.


Þá í Danmörk Warburg var,
víkingurinn frægi;
aðsetur hann átti þar
eitt í stærra lagi.


Hafði víða herjað sá,
hlotið linna sýki;
suður fór hann Saxland á,
svam í Garðaríki.


Frakka’ og Breta’ hann barðist við,
brúkaði kænsku slynga;
en mælt er semja mundi ’ann frið
við meykóng Hollendinga.


Lönd hann vann og frægð og fé,
fylgdu jötnar honum;
marga lét hann krjúpa á kné
hjá kynja gullhrúgonum.


Fór hann þá á fund við Pál,
frægan kappa og slunginn, —
hvessti rödd og hóf svo mál
hetjumóði þrunginn:


„Sendiför þér ætluð er,
Íslands skaltu vitja;
komdu þar sem þingið er
og þjóðskörungar sitja.


Kauptu sál og sannfæring,
í sóknum vertu’ ei linur;
fullan silfri sjóvettling
sendi’ eg með þér, vinur.


Landsmenn skortir lagarbál,
lítið hafa að éta;
vesöl mun ei seggja sál
silfrið staðizt geta.


Frétt hef eg að Fáfnir þar
feiknaból sér reiði,
fullur illsku og eitrunar,
upp á Bankaheiði.


Gæta fjárins fjögur tröll
föst á einu bandi,
kynjamögnuð eru öll
austan af Bjarmalandi.


Fáfnir gerist gamlaður,
gakk þú hann að finna,
þér mun ekki örðugur
ormur sá að vinna“.


Páll við brá og gekk á gnoð,
gnötraði Rán og drundi;
var að húnum hafin voð,
hrannajórinn stundi.


Fleyið rann um voga’ að Vík,
vendi Páll í staðinn;
kom ei fyrr þar kempa slík,
kynjaauði hlaðinn.


Mikill sá á velli var,
veifaði regnhlífinni;
kápu’ á öxlum báðum bar
brúna’ úr refaskinni.


Sjóvettlinginn seggur skók,
í silfrinu hringla mundi;
af því jóðsótt Einar tók,
Indriði litli stundi.


Fylgdi auðnum fjölkynngi,
fengu sumir æði,
Einar Ben og Indriði
eins og léku’ á þræði.


Þessir fremstir „finanz“-menn
fylgdu glaðir Páli;
vörnin þeirra er einstæð enn
í því bankamáli.


Þó var fátt af þingmönnum,
þeim er fylgja vildi;
lækkað var í vettlingnum
væna meira’ en skyldi.


Þá varð Laugi óðr og ær,
öngu vildi sinna;
Páls að barka kreppti klær
kempan orkustinna.


Ekkert Páli ágengt varð,
ill sú för hans þótti;
brotnaði’ í trausta brjóstvörn skarð,
brast í lið hans flótti.


Þetta Warburg fregnað fær,
feiknareiður var hann;
ámur miklar átta’ og tvær
út á skip þá bar hann.


Rínar-bál frá Rússíá
rautt þar mundi glóa;
heldur síðan hafið á
hirðir fingra-snjóa.


Söng í ránum, rumdi grimm
Rán á óðum mari;
löng í trjánum dundi dimm
duna’ á góðu fari.


Þvoði úðinn öldujó,
eimvél rámri knúin
gnoðin prúð um svalan sjó
sveimaði’ og ámum lúin.


Warburg hátt í stafni stóð,
stór og frægðaríkur,
þegar skeiðin öflug óð
inn til Reykjavíkur.


Öllum sá af brögnum bar,
brúna ýfði hnykla;
annan sáu ýtar þar
Alexander mikla.


Dökk var víkings ásýnd öll,
augun snöru glóðu;
allir horfðu’ á heiðið tröll,
hissa’ í fjöru stóðu.


Upp á land hann ámur bar,
áður sem er getið;
sáu bragnar blika þar
bjarta linna fletið.


Hækka brúnin þótti þá
á þingskörungum vorum;
margir vildu Warburg sjá
og vera nær hans sporum.


Matfrið naumast hafði hann
hrotta spennti gráan;
allir sögðu ’hann örlátan,
allir vildu „slá“ hann.


Þeir, sem skuldir þjáðu mest
og þarfir líkams pína,
þóttu nú í bankann bezt
borga víxla sína.


Mörgum böl og meinin jók
megna bankakvefið;
en Halldór Jónsson hló og tók
hálfu meira’ í nefið.


Laugi og doktor Þórður þá
þungar fengu hviður;
höfuðin næstum alveg á
í ámur steyptust niður.


Óráð fengu ýmsir skjótt,
innanskömm í maga,
fengu ramma riðusótt,
römbuðu’ og tóku’ að að slaga.


Ofsjónir að augum bar:
— urðu sumir trylltir —
hraunin, jöklar, heiðarnar,
hafísjakar gylltir, —


akurlendi, eimvélar,
íslenzk fley og vagnar,
bæði radd- og ritsímar, —
ruglaðir vóru bragnar.


Tók að vaxa’ af þingsveit þá
þröngin Warburg kringum;
óför búna sér hann sá
að sækja’ að Íslendingum.


Samt er grímur sagt að tvær
á suma þeirra rynni,
þegar gullsins geisli skær
glampaði’ af ölkrúsinni.


Warburg fyllti fjölda manns,
fór svo burt til Hafnar;
auð ei jók sú herför hans
hingað um vegu Drafnar.


Einars tók að hnigna hag,
hjartað vonrof bíta,
og revisórinn sælan dag
síðan má ei líta.


Fáfnir enn í bæli býr,
brýzt um skepnan svarta.
Enginn sækir törgu Týr
til hans gullið bjarta.


Ríman þá er enda á. —
Eikin Bráins túna,
óðar fá nú skaltu skrá
í skyndi frá mér búna.Sjöunda ríma (Bakkusarríma)[breyta]

Langhent

Bakkus sjóli sæll við bikar
situr á stóli tignar hám;
eins og sólin öðling blikar
upp í jólna sölum blám.


Hefur þengli þrúðgum lengi
þjónað mengi jarðarranns,
hraustir drengir vítt um vengi
veg og gengi framað hans.


Þeir, sem mega athvarf eiga
óbráðfeigum kóngi hjá,
fagrar veigar fá að teyga,
flest þá geigar bölið frá.


Hótel Ísland heitir stóra
höllin vísis tignarrík;
kappa hýsir hún, sem þjóra,
hvergi rís á jörðu slík.


Halberg jarl og Júlíus snjalli
jöfurs höllu ráða þar;
hörpur gjalla’ að hilmis stalli,
hátt í fjöllum bergmálar.


Þakið eldi líkast logar,
ljós á brá er sólin skín;
sterkir, hvelfdir, háir bogar
hvítir gljá sem postulín.


Veggjatjöldin víða ljóma
vegleg strá um salargöng;
þar á kvöldin háa hljóma
heyra má og fagran söng.


Byggð sem kirkja er höllin háa,
himnum móti turninn snýr;
rammleik styrkir stálið bláa,
sterka þrjótum mótvörn býr.


Rauðagulli ritað stendur
ræsis hallar nafnið glæst. —
Sértu fullur, sértu kenndur
sjóli snjall þig metur hæst.


Hofgæðinga hatar sjóli,
hans þeir skilja’ ei dýrlegt kram.
Þeir með kynngi steypa af stóli
stoltir vilja öldnum gram.


Sumir slíkir sorgum drekkja
samt þeim hara ríkum hjá;
Jósefs líka þar má þekkja
þess frá Arimatíá.


Bakkus víða vígi hefur
vafin prýði, smá og stór:
Fischer, Bryde, Thomsen tefur
Templaralýð og Bensi Þór.


Það eg fregna á þessu landi,
þó um megnið sýnist fátt,
hafi þegna í þraut og grandi
þarfa og gegna Bakkus átt.


Víða’ er tryggðin forna flúin,
fylla byggðir Templarar,
þjóðin styggð og þaðan snúin
þar sem hryggðin aldrei var.


Í Bakkí veldi er uppreist orðin,
oft á kveldin þar er hljótt;
sveitin hrelld við sultarborðin
situr eldrauð fram á nótt.


Fyrir þingið fór að bóla
feiknum á sem nú skal tjá:
Geirum stinga göfgan sjóla
garpar knáir vildu þá.


Yfir Lauga brúna baugum
Bakkó móti hatrið gein;
sem úr drauga ógnar augum
yfir blótstall voði skein.


Indriði spandi lýð í landi,
ljótur vandi að höndum bar;
út sig þandi Árni á gandi,
eins og fjandinn tilsýndar.


Þingmenn skjótt í flokkum fóru,
fella vildu gylfa höll:
eiða fljótt þar ýmsir sóru,
að hún skyldi hrynja’ á völl.


Inn þeir brutust, örum skutu,
í ofsa og flýti’ að jarlsmönnum;
augum gutu — enn þau flutu —
að ákavíti og bjórtunnum.


Tók að langa lýði’ í dropann,
linuðust trylltum sóknum í;
létu ganga að grönum sopann,
glösin fylltu af kurt og pí.


Þá vóru sköll og þá var gaman,
þá var köllum glatt í lund;
margir höllin héldu að saman
hryndi öll á samri stund.


Fast var þjórað þá „á landi“,
þyrstir í bjór þeir voru’ um of;
út þeir fóru „óferjandi“,
enn hið stóra gleymdist hof.


Aldrei síðan hilmis höllu
herjuðu stríðir á með brand,
enn liði hans fríðu eyða öllu
ætluðu víða þó um land.


Ekki þó þeir urðu’ að spotti,
ýms þeir felldu vígi smá;
Bakkus hló og Halberg glotti,
heiðri og veldi krýndir þá.


Þó verði’ in smærri vígi’ að þústum,
við því færrum görpum hrýs,
þau hin stærri þjóta úr rústum
þá með hærri veg og prís.


Bakkus lifir öldum yfir, —
ekki skrifa’ eg meira um hann. —
Falda-Sifin fegurð drifin,
við förum að tifa í svefnarann.Áttunda ríma (Arnarhólsríma)[breyta]

Nýhent

Þar sem sólin signir lá
sæl með væna geislastafinn,
blikar hólinn Arnar á
iðjagrænum skrúða vafinn.


Þangað bar af bláum mar
— björt í kring þá svifu regin —
sigurfarar súlurnar,
sem að Ingólfs greiddu veginn.


Þar hefur Saga björt á brá
búið, — því skal nú að hyggja, —
hundadaghilmir þá
hraustur vígi lét þar byggja.


Upp á garði geysihám
ginu hvoftar fallbyssnanna,
mekki varð ei greint í grám
grundin, loft né toppar hranna.


Þegar Danir ætluðu’ á
Íslendinga að skjóta forðum,
eins og hanar hólinn þá
hlupu kringum búnir korðum.


„Batterí“ þeir byggðu hátt,
bráðum skyldi’ ei neinu eira;
skota gný og geira slátt
gríðar-trylldan átti' að heyra.


Dönum kreppti kuldinn að,
króknuðu flestir þeirra’ um vetur,
virkið eftir þó er það,
þar sem bezta vígið getur.


Margir vildu fegnir fá
fræga og dýra vígið góða;
en — því skyldu engir ná
álma-Týra neinna þjóða.


Þar er yndi út við sjá,
uppi’ er tindrar stjarnan skæra:
fljóðin yndisblíð á brá
bjarta’ í vindi lokka hræra.


Hólnum pískrað oft er und
ástmál dátt í kyrrum leynum;
þar má hvískra hal og sprund
heyra lágt hjá fjörusteinum.


Þingmenn unnu þessum stað,
þar var næði’ að hugsa málin;
þangað runnu þegar að
þyrst var bæði líf og sálin.


Þegar leið á þingtímann,
þóttu undur bera að höndum:
hraðsigld skeið af hafi rann,
hvein og stundi Kári’ í böndum.


Var sem eldur léki’ um lá,
ljóss í glampa allt nam renna,
þegar kveldi þöglu á
þúsund lampar sáust brenna.


Stóð þar drós í stafni fríð,
stafaði ljós af hvarmi björtum,
fegri’ en rós í fjallahlíð,
fekk hún hrós í allra hjörtum.


Gullnir lokkar léku’ um háls,
liljur hvítar barminn skrýddu;
yndisþokki og fegurð frjáls
fljóðið íturvaxið prýddu.


Töfrum alla heilla hún
hölda snjalla mundi kunna,
sem á fjalla blikar brún
og blómin vallar morgunsunna.


Dana hún frá veldi var;
Viðarr hét sá réði fleyi;
svarta brún og svip hann bar,
í sóknum lét hann bugast eigi.


Jötunn var að vexti hann,
voðalega röddin drundi;
sterklega bar hann brynþvarann,
branda þegar hríð á dundi.


Þótti landið frúnni frítt;
fögur skýin rauf þá sólin,
skein að vanda bjart og blítt
á „Batterí“ og Arnarhólinn.


Reisa vildi’ hún háa höll
hólnum á með skrauti glæsta;
af gulli skyldi’ hún glóa öll,
gleðin þá var fengin æzta.


Ísland vildi hún unnið fá,
Arnarhól og vígið sterka;
bezt með mildi og blíðu þá
baugasólin hugðist verka.


Frúin þá á þingið gekk,
þingmenn fann að máli snjalla;
brögðum gráum beitt hún fékk,
bráðum vann hún flesta’ að kalla.


Blóminn Hafnar hýreygur
hugum allra í skyndi sneri;
svo að jafnvel Sighvatur,
sjötugur kallinn, varð að sméri.


Svefnþorn stakk hún seggjum — því
suma æði og gerning tryllti —
hét það „Jac de Hennessy“;
Halldór bæði’ og Þórð hún fyllti.


Laugi’ á foldu fleygði sér,
fald á svanna pilsi kyssti;
satt er, holdið óstyrkt er,
ekki hann þó kraftinn missti.


Sór hann fljóði fylgd að ljá
og flein að skaka af mætti öllum,
hitnaði blóð í hetju þá,
heyrðist brak á rómuvöllum.


Fegurð svanna samt ei fékk
sigrað þingmann Reykvíkinga;
með Valtý hann að hildi gekk;
hetjur slyngar engir þvinga.


Allur frúar flokkurinn
fylkti nú við „Batteríið“
— mót réð snúa harður hinn —
heiðri búið liðið tigið.


Ekki á þingi’ eg þar er með,
þar sem falla menn til grundar. —
Hagkveðlinga hátt eg kveð
um hetjur snjallar innan stundar.Níunda ríma (Batteríisríma)[breyta]

Samhent (öll ríman er ort undir afbrigðinu Hagkveðlingahætti, sbr. seinasta erindi áttundu rímu)

Féll minn óður áður þar,
æddu’ í móði hetjurnar,
Hárs með glóðir hvassyddar
hart á slóðir vígvallar.


Hófst þar róma hörð og ströng,
hvinu skjómar lofts um göng;
hljóðin óma lúðra löng,
af laufahljómi’ í björgum söng.


Grenjuðu bláir berserkir,
bölvuðu þá sem vitlausir,
logaði á þeim Óðins hyr,
enginn sá þau læti fyr.


Margur gapti grimmúðgur,
gaus úr kjafti bálreykur,
framan og aftan fúlvindur,
Fjandans krafti magnaður.


Skall og small í skoltunum,
skjómi ball á hjálmunum,
blóðið vall úr benjunum,
buldi’ í fjallagnípunum.


Laugi byrstur lengi’ af móð
Löndungs hristi rauða glóð;
í herinn fyrstur áfram óð,
ýmsir misstu líf og blóð.


Sótti hann þá hinn þrekmikli,
þróttarknái og beinskeyti,
Jón hinn fráni fullhugi,
fleina-Þráinn reykvíkski.


Æða svall þar aldan heit,
ópin gjalla’ í lýða sveit;
stál við kalla hausum hneit,
á hvorugs skalla járnið beit.


Mækja högg þar mundi’ að sjá
mörg og snögg í skjóma þrá;
merki glögg þess mátti fá,
að mikla rögg þeir sýndu þá.


Jón er drengur dáðrakkur,
dugði’ hann lengi ótrauður,
á Hildar vengi höggfimur,
hart þó gengi’ að berserkur.


Hörðnuðu tónar Hildar ranns,
hamaðist dóna grimmur fans;
hjörs við són í sóknar dans
sótti að Jóni nafni hans.


Reyndu’ að stinga rekkar þann,
Reykvíkinga-fulltrúann,
en hann slyngur stökkva vann
strax yfir hringinn margfaldan.


Valtýr sá það, lagði lið
lengi fráum skjómavið;
ruddi þá í hersveit hlið
hetjan kná að fornum sið.


Örum skaut hann eitruðum,
ískraði og þaut í skjöldunum;
margur gaut upp glyrnunum
að garpi’ í þrautum rammefldum.


Hetjur taka Heljar ró;
af hafi drakon mikill fló;
sá nam skaka kjaft og kló,
koníaki á herinn spjó.


Æstist Hildur áköf þá,
yfir sig skildi Valtýr brá;
orkufyllda kempan kná
konjakk vildi ekki sjá.


Skulfu stræti af hrotta hljóm,
heyrðust lætin suður í Róm;
laufaþrætu löngum óm
lýst ei gætu orðin tóm.


Laugi’ um síðir sigurs naut
sóknarstríða viður þraut;
maðurinn skríða móður hlaut
í munarblíðast frúar skaut.


Veitti’ hún hressing hetjunum,
hjörs við messu þjökuðum;
gaf hún blessun berserkjum
á blóðvang þessum margsærðum.


Glóðu blóm á brjóstum þar
Börva skjóma um göturnar,
er fyrir sóma fagurrar
frúar Óma báru skar.


Margur í hljóði frúna fann,
en fá varð þjóð við sigur þann;
vígamóðr í virðum brann. —
Valtýr stóð við fjórða mann.


Brestur hljóðin, enda’ eg óð. —
Unga rjóða baugaslóð,
syngdu ljóðin sönn og fróð
um Sjafnar glóð og stál og blóð.Tíunda ríma (Konungs ríma og ráðherra)[breyta]

Stafhent

Enn skal hróður hefjast minn.
Hilmir góður þetta sinn,
Rínar eldi reifaður,
réð fyrir veldi Danmerkur.


Afar tiginn öðling sá
aldurhniginn mundi þá.
Kóngurinn get eg kynsæli
Christian hét hinn níundi.


Ástsæld hljóta af ýtum vann
enginn skjóta vildi hann;
efldi frið og frelsi jók,
fylkir við er ríki tók.


Beitti forðum brandi sá
buðlung storðum Mistar á,
hjörs í róti harðskeyttum
herjaði móti Þjóðverjum.


Atti að lubbum eggjum þá
„Als“ og „Dybbøls“-hæðum á;
vals á slóðum hristi hrein
hetjan góða Mistiltein.


Var að etja ofjarl við
álmahret frá Dana hlið,
enda fóru ófarir
álma-Þórar tröllefldir.


Bismarck, Fjandans fulltrúi,
fúlum anda blásandi,
Dönum kaldan klaka á
kom þar galdrahundur sá.


Talsverð missti lönd og lýð
lofðung Christian stáls við hríð;
hræddist síðan sjóli mest
sverðahríð og vopnabrest.


Sat í Höfn með hirð í frið, —
há er Dröfn sú borgin við,
sóma hlaðinn heimsfrægur
höfuðstaður Danmerkur.


Tvo ráðgjafa ræði’ eg um,
ræsir hafi í meðráðum;
hrannar ljósi hlaðnir með,
hétu Goos og Sehested.


Ísland lýtur öðling þeim,
öld er býtir rauðum seim —
þar sem aldrei sumarsól
sezt við kaldan norðurpól.


Þar eru háir herkóngar —
herma frá þeim rímurnar. —
Hilmis gagns þar geyma þeir
Goos og Magnús prúði tveir.


Svo bar við einn sunnudag,
saddur friði og auðnuhag
yfir borðum öðling sat;
átu korða runnar mat.


Þar var dísætt þrennslags vín,
þar var nýsteikt keldusvín;
baunir ýtar átu og graut,
ákavíti um borðin flaut.


„Brennivínið bragðgóða“,
bjarta, fína og heilnæma
sjálfur dreypti’ í sikling stór,
sem hann keypti af Bensa Þór.


Borð fyrir gylfa gengur snar
Goos með Ylfings brugðið skar,
ekki frýnn var á að sjá,
yggldust brýnnar gráar þá.


Augum hvolfdi ákaft þar,
Ísafold í hendi bar;
brann sem gneisti’ und brúnunum,
blaðið kreisti’ í lúkunum.


Enginn brosti, öðlings þjóð
eins og lostin þrumu stóð.
Mælti hraður hilmir þá:
„Hvað er það, sem gengur á?“


Innti í skyndi aftur hinn:
„Illtíðindi, herra minn;
hreyfa snarir herskildi
herkóngar á Íslandi.


Allt í brandi’ og báli’ er þar,
blóði randir litaðar,
bragna fall og brandshviður;
berst þar allur þingheimur.


Út úr ríkisráði mér
rammir víkja ætla sér
runnar þorna þjóðfrægir,
— þeir eru’ orðnir vitlausir.


Skortir Valtý vopn og lið,
varla er talað þar um frið.
Býsna hnellinn brands við el
Bensi féll, og það fór vel!


Æða slyngar áfram þar
Ísfirðinga kempurnar;
skjóma’ á þingi skerpir sinn
Skaftfellinga jötunninn.


Þetta lygi engin er
eftir því sem stendur hér:
skammagrein, sem — skilst mér von —
skrifaði Einar Hjörleifsson.


Líkur bola biksvartur
blæs að kolum Þjóðólfur;
út þar fossar eiturtjörn,
en Einar krossar sig og Björn“.


„Hvaða fjandi?“ hilmir kvað,
„höndum vandi kemur að,
eyðist ríkið yndi þver,
illa líkar stríðið mér.


Grein mér rétt um hersins heild,
hvað er að frétta’ úr efri deild?“
Goos þá svarar: „Illa er
aftur farið kóngsins her.


Árni dugar ekki hót,
elli bugar Þorkel ljót,
Júlíus gefur jafninga,
Jónas hefur ginklofa.


Bagals hristir Hallgrímur
hirðir Kristí sauðkindur,
pillur hnoðar himneskar
úr hjómi’ og froðu mælskunnar“.


Borðum, hrindir hilmir fram,
hverfur yndi frægum gram;
saman kallar ríkisráð
ræsir snjall og fékk svo tjáð:


„Ellin ljóta amar mér,
annars skjótur byggi eg her;
brands með hviðum blóðugan
bældi eg niður ófrið þann.


Hefði ungan hlegið mig
hjörva þungan troða stig,
hrista nakinn hjör og sax,
en hvað skal taka nú til bragðs?“


„Herra“, sagði Sehested,
„sé eg bragð, er förum með:
Finn einn aldinn eigum vér,
ýmsa galdra’ er temur sér.


Gorms frá tíð er gamla sá,
gengur skíðum hafið á,
um himin þýtur, haf og grund
og heljar-Víti á klukkustund.


Ekki er vandi Finna’ að fá
að fara á gandi’ um höfin blá,
til að æra alþingi
eða hræra’ í þjóðinni.


Sendið Finninn alþing á,
yðar kynni boðskap sá,
að harðir láti af hernaði
hlynir plátu á Íslandi —


á þeim lemja auðvelt sé,
ef þeir semja’ ei vopnahlé —
slíðri’ ei hringa hlynir brand,
„Heimdellingar“ skjóti’ á land“.


Þengli ráðið þóknast réð,
þakkir tjáði Sehested;
gandi renndi rammaukinn
um Ránar lendur Finnurinn.


Allt var þá í uppnámi.
Öllum brá við þingheimi,
þegar renndi’ í Reykjavík
ræsis sending flugu lík.
Vænstan kostinn sinn þeir sjá
að sefa rosta’ og hjörva þrá;
hættu eggja ógnir við
ára tveggja sömdu frið.


Margur friði feginn var
frækinn viður skjóma þar,
enda þótti um endirinn
uggvænt drótt í þetta sinn.


Hétu þó í huga sér
handar snjóa Böðvarner,
að þeir skyldu annað sinn
auka Hildar rifrildin.


Valtýr fór til Hafnar heim,
hlaðinn stórum auð og seim;
hefndir stríðar hugði á
hirðir víðis ljóma þá.


Veizlu þáði’ í hilmis höll
hlaðin dáðum kempan snjöll;
korða álfur kónginn fann,
kyssti sjálfan ráðgjafann.


Þungt féll Lauga’ að leggja frá
ljótri flauga’ og eggja þrá;
stála Baldur blóðugar
beit í skjadar rendurnar.


Ýmsir vóru óvígir
eftir stóru kapparnir;
slíðraði digur sísta sinn
sverðið Vigur-klerkurinn.


Jón í Múla mergund bar,
mýldist túli hetjunnar.
Sómakarlinn Sighvatur
svo var fallinn óvígur.


Heima þroka hertogar,
hildi lokið allri var,
enda skil eg efni við. —
Enda vil eg ljóða klið.


Lengur strenginn stirðan minn
slá eg eigi hirði’ um sinn.
Sof þú, dúfan dýr og góð,
döf þín ljúf sé, hýra fljóð.Ellefta ríma (Krossferðarríma)[breyta]

Ferskeytt

Hlustaðu á mig björt á brá,
blóminn ungra fljóða;
Magnús prúða aftur á
efnið minnist ljóða.


Eftir tveggja ára bil
úti reyndist friður;
frétti Valtýs ferða til
frækinn álma viður.


Safnað Valtýr hafði her
hér á landi víða
og á Magnús ætlað sér
ógurlega að stríða.


Honum voru margir með
mætir skjóma þundar;
berserkir með gráðugt geð
geystust til þess fundar.


Magnús prúði’ og hirðmenn hans
hlupu’ um borgar-stíga;
hræddust flokkinn hreystimanns,
hjörtun tóku að síga.


Magnús sér, að setu til
sízt mun boðið vera;
hann í snarpan hjörvabyl
herör upp lét skera.


Þá, sem fyrr hann veg og völd
veitti’ af mildi sinni,
bað hann djarft með dör og skjöld
duga’ á krossferðinni.


Lárus má þá minnast á,
mækja-Börinn slynga;
nú var gildur garpur sá
goði Snæfellinga.


Forgyllt Magnús hafði hann
hérna fyrr um árið,
þegar vestra margan mann
mæddi Skúla-fárið.


Þegar Skúli skjóta inn
Skurð í svarthol vildi,
líkna vildi honum hinn
af hugulsemi og mildi.


Sendur Lárus vestur var
vígamóði fylltur;
móti Skúla brandinn bar,
barðist eins og trylltur.


Komst í marga þunga þraut
þrekinn Baldur skíða;
Ísfirðingar álma-Gaut
ætluðu’ um nótt að hýða.


Segir fornum sögum í,
sem að ýmsir trúa,
að Lárus hugðust heljarþý
úr hálsliðunum snúa.


Lygi sjálfsagt er það allt
um þann kappa fríðan,
en eitt er víst, að höfuð hallt
hefur ’ann borið síðan.


Landshöfðingja Lárus nú
liði sínu heitir;
á goðanum hafði tröllatrú
traustur lagabeitir.


Lárus bændum bauð á fund,
búinn tignarskrúða.
Talar þá á þessa lund
þjóðar hetjan prúða:


„Heyrið mál mitt, hlýðið mér,
hér í dag skal þinga:
Kveðju’ eg yður öllum ber
okkar landshöfðingja.


Vitið þér, að Valtýr, sá
versti höfuðfjandi,
undir Danskinn ætlar ná
okkar föðurlandi?


Kjósið mig að bregða brand,
beint á þing að ríða,
fyrir guð og fósturland
við fjanda þann að stríða.


Heldur var mín fræknleg för
forðum daga vestur,
Skúli’ er mínum hné und hjör,
höfðingjanna mestur.


Vel eg dugði’ er sóttu i senn
Sviðris kyntum eldi
sextíu’ að mér svolamenn
saman á einu kveldi.


Í Höfn á knæpur kom eg oft
kátr og hress í bragði;
„bullur“ allar upp í loft
eg á gólfið lagði.


Hef eg og með höfðingjum
heldur verið talinn,
og í nefnd í útlöndum
öðrum fremur valinn.


Kenndi Hannes Hafstein mér
haglega’ í blöð að yrkja;
ljóð mín skulu hraustan her
hressa, magna og styrkja.


Vilji eitthvert illfygli
ofan í mig fara,
þá skal ég í Þjóðólfi
því með stöku svara.


Hreppstjórar mitt heyri tal —
heiður mun það vera —:
eins og mig ég yður skal
uppdubbaða gera.


Verðlagsskráin verður lág,
vondu minnka gjöldin,
ef þið viljið lið mér ljá,
lemja hjör á skjöldinn.


Mitt skal öllum opið hús,
engum mungát banna;
ég skal vera faðir fús
föðurleysingjanna.


Sveig úr ljósum lárviðum
landið skal mér flétta;
ég af yður ómögum
öllum fljótt skal létta.


En munið og, að eg er sá,
sem að sér hæða’ ei lætur,
ef þið nú mér fallið frá
fleins við skæðar þrætur“. —


Orðinn var hann ærið hás,
undir flatt hann lagði. —
Bárður stóð þar Snæfellsás,
stilltur glotti’ og þagði.


Bændur góða gáfu von,
þá gladdi’ að fá í soðið. —
Herra Einar Hjörleifsson
hafði fram sig boðið. — —


Lárus kusu karlarnir
knáir þó á móti;
prófast bláir berserkir
beittu hvössu spjóti.


Hélt þar Lárus harðfengur
höfuðpaurinn velli,
en hann séra Sigurður
síðast trú’ eg félli.


Meira að sinni’ ei segir frá
sverðabrjóti slyngum. —
Stýrði Hannes Hafsteinn þá
hraustur Ísfirðingum.


Sá var fyrða fríðastur
fallega mjög sig bar hann,
kempa’ á velli, knálegur,
konunglegur var hann.


Talaði’ í ljóðum, skemmtinn, skýr,
skáldaði mörgum braginn;
og við skál var ósköp hýr
oft er leið á daginn.


Magnús bað hann leggja lið,
lífsins næði hafna;
Hannes bón hans varð nú við,
vildi liði safna.


Skúli átti’ og Hannes hríð
harða þar og langa;
ýmsum þótti í þann tíð
ógna-styrjöld ganga.


Sendi Hannes seiðkonur
saman her að smala;
kaldrifjaðar kveldriður
kepptu fram til dala.


Hannes kom á Horn og lét
hátt sinn lúður gjalla,
og með röddu hárri hét
hann á galdrakalla: —


„Surtur nú að sunnan fer,
sólu byrgir skæra;
í dauðans hættu okkar er
ættarjörðin kæra.


Hingað brunar Heimdallur,
honum Valtýr ræður,
blár og digur berserkur,
bændum gestur skæður.


Fram hann æðir emjandi,
eldi spýr úr kjafti,
lönd og sjóinn lemjandi
löngu axarskafti.


Hefur fjöld af fallbyssum
fantrinn til að stríða;
hér mun ekki’ á Hornströndum
hollt í kyrrð að bíða.


Skýrt hefr Magnús mér því frá,
muni ’ann þessa daga
landið okkar suðr í sjá
svikull ætla’ að draga.


Haldið þið, piltar, Hornið í,
hér þarf fast að standa;
sendið mig í málma-gný
móti þessum fjanda.


En ef þið hans eflið lið
eða fylgið honum,
danskir verðið þrælar þið
þá á galeiðonum.


Sonum verður skipað skjótt
að skjóta feður sína;
þá mun dauðans næðings nótt
nísta ættjörð mína.


Eg á „órótt ólgu blóð“,
eg skal standa’ og verjast
og með hug og hetjumóð
hermannlega berjast“. —


Hornstrendingum heldur brá,
hvítnuðu þeir í framan.
„Kjósum Hannes Hafstein þá!“
hrópuðu allir saman.


Gerðu’ að Skúla gerningar
galdramenn frá Ströndum;
enginn mennskur maður bar
megn við slíkum fjöndum.


Samt við krossa’ og klukknahljóð
kempan studdist ríka,
og til sæmdar þingi’ og þjóð
á þingið komst hann líka.


Lýðir hlýði ljóðasmíð;
landsins rjóðu dætur
hræðist blíðar blóðugt stríð,
bjóði’ oss góðar nætur.Tólfta ríma (Kosningaríma)[breyta]

Braghent

Um þær mundir ýmsir högg í annars garði
áttu, því að þing var nærri,
þóttist hver þar öðrum hærri.


Guðjóns áður getið er, sem grimmur forðum
biskup lét og landshöfðingja
ljóta títuprjóna stinga.


Veður skiptist skjótt í lofti, skaltu trúa,
landshöfðingja vinur vera
vildi’ ’ann nú og „agítera“.


Bjóst hann við, að máske mundu molar hrynja,
eins og komið er á daginn,
af hans borðum sér í haginn.


Kosninga var hríðin hörð þar háð á Ströndum;
átti ’ann þar við enga gungu,
Ingimund í Snartartungu.


Knéskít Guðjón hraustur hlaut, svo hermir sagan,
fyrir ungum Ingimundi;
óglatt varð þá mörgu sprundi.


Aftur tókst nú orrustan, sem allir muna;
eftir langar eggja-hviður
Ingimundi þvældi ’ann niður.


Höggorrusta háð var grimm í Húnaþingi:
Árni sleit í Höfðahólum
á hlaupum sínum fernum sólum.


Þaut hann eins og þeytispjald um Þing og Dali
til að æsa að álma-róti
alla karla Valtý móti.


Komst því ekki til á túni töðu’ að hirða
þessi fleina Freyrinn mætur
fyrr en undir veturnætur.


Þarna’ er dæmi, þjóðin mín, sem þú skalt læra;
haltu þér við hærri vegi,
hirtu’ um bú og fé þitt eigi.


Undarlegt er æðimargt, en einkum þetta,
að hér skyldi orkuslynga
Árni teyma Húnvetninga.


Svo hann villti sjónir þeim, að sumir vildu
vekja upp dauða og Valtý senda, —
virðist slíkt á æði benda.


Jósafat bjóst aldinn út í álma-hretið,
ætla kvaðst „með elli bleika
óskelfdur til Hildar leika“.


Hermann digur þrífork þreif, á þingið reið hann;
selir grétu gleðitárum,
gægðust upp úr köldum bárum.


Vöðuselur var þar stór og varð að orði:
„Hermann frændi, í þingsal þínum
þú skalt heilsa bræðrum mínum.


Vertu sæll, þér óskum allir auðnu’ og gengis.
Á því vota áttu heima,
aldrei máttu þessu gleyma.


Dauf mun vistin þykja þér á þurru landi,
verði þar ei vært, þá flýja
vínlands skaltu til hins nýja“.


Kom þá mikið kríuger að kveðja garpinn,
fast og heitt á koll hans kysstu
kríurnar og fæðu misstu.


„Dekorerað“ hattinn hans þær höfðu’ og klæði,
svo að kempan sýndist prúða
sakleysis í hvítum skrúða. —


Skal eg þá í Skagafjörðinn skjótt mér snúa,
þar sem gengu þungu stríðin,
þar varð ljóta orrahríðin.


Innan héraðs ýmsir vildu á alþing fara,
og Stefán minn á Möðruvöllum,
maður sá er bar af öllum.


Hann er fríður, vaxinn vel og vígalegur;
bregður grönum, glottir tíðum,
gleðst hann oft af deilum stríðum.


Sá var mestur Valtýs vin á voru landi;
mælsku skorti’ og einurð eigi,
ótal þræddi krókavegi.


Herma skal frá honum Jóni’ á Hafsteinsstöðum:
norðr í Fljót eg frá hann ríði,
forna hitti töfragríði.


Mannsrif eitt þau magna’ og senda meginpúka;
Stefán á sá fjandi’ að finna,
ferð hans tálma’ og ógagn vinna.


Hafsteinsstaða-fjandinn fer nú ferða sinna;
mórauð hundtík mögnuð var ’ann,
með sér djöfuls-kynngi bar ’ann.


Var þá Stefán vestur búinn, — var þó áður
búinn fund að boða’ og lýði
bað sér fylgja’ í hörðu stríði.


Eina nótt það er, að Stefán illa lætur
svefni í, og sárra kvala
svo hann kenndi’ að mátti’ ei tala.


Þrútinn var og helblár háls og höfuð bólgið;
beinverkir og svimi sóttu
sárt á hann á þeirri nóttu.


Vætti ’ann kverkar víni á, en varla niður
— svo mjög tók hann kvala’ að kenna —
kunni hann nokkrum dropa renna.


Sent er nú á Akureyri á augabragði
Guðmund Hannesson að sækja
sveigi til að líkna mækja.


Sá hefr marga hölda heimt úr Heljar greipum;
lýsir honum lærdóms andi,
læknir mesti á Norðurlandi.


Með sér hafði’ hann hundrað glös af Hoffmannsdropum,
skurðarhnífa, skæri’ og tengur,
skyldi’ ei Stefán kveljast lengur.


Allt kom fyrir ekki þó; — þau orð hann hafði,
að sú veiki ekki mundi
einleikin í hjörva-Þundi.


Stefán býst nú bráðum þar við bana sínum,
mjög af honum mundi dregið,
maðurinn gat ei framar hlegið.


Ólafur Davíðs son var sagt að sóttur væri;
enginn maður manninn blekkti,
mætavel hann drauga þekkti.


Réttum beinum sezt hann svo á salar gólfið;
las og þuldi’ í hálfum hljóðum
heljar-feikn af galdraljóðum.


Sér hann Stefáns hart að hálsi herða fjanda;
eftir langar kynja-kviður
kom hann draugsa loksins niður.


Létti skjótast laufa-Tý, og langferð sína
hefur nú og heldur vestur,
höfðingjanna auðnumestur.


Stefán sigur frægan fékk og fór á þingið.
Ólafur frá Álfgeirsvöllum
einnig fór með kappa snjöllum.


Jón varð þá að hírast heima á Hafsteinsstöðum
og með honum Ullar skíða
aðrir þeir sem vildu stríða. —


Ögn skal nú á Eyfirðinga einnig minnast.
Hæst lét þar í Hildar sköllum
Hjaltalín á Möðruvöllum.


Þá var Klemens kempan háa kesju gyrtur,
og sterkur sá er stýrir plógi
Stefán út í Fagraskógi.


Allir vildu á alþing þeir og ótal fleiri;
allir þóttust „vissir“ vera,
vitlausir að „agitera“.


Hjaltalín með hálfanker í hernað lagði;
kempan dýra, dáðum slynga
dreypti’ úr því á Svarfdælinga.


Glaðir kneyfðu karlar vín, en kjörþingsdaginn
loforð heima hjá sér geymdu:
Hjaltalín þeir flestir gleymdu.


Stefán ræðu hélt, sem heyrðist hundrað rastir;
margt af viti, margir sögðu,
margir brostu’ í kamp og þögðu.


Hné þar gamli Hjaltalín með heiðri og sóma.
Klemens bar úr býtum sigur,
burðamikill, hár og digur.


„Úníform“ og augnaráð hans engir stóðust;
þinggjaldanna minntust margir;
meintu „líðun“ helztu bjargir.


Stefán fekk til fylgdar með sér fleina Baldur;
annað sætið enginn vildi
autt á þingi’ að vera skyldi.


Eg er þjáður, eg vil náðir á mig taka.
Allt er láðið orpið klaka. —
Úti’ er bráðum þessi vaka.Þrettánda ríma (Önnur kosningaríma)[breyta]

Skammhent

Þá skal tjá frá Þingeyingum,
þá var dauft og hljótt;
drúpti Bensa dáinn kringum
dauðans kalda nótt.


Þá var allur „eldur dauður“
eftir voðaskell,
þegar Bensi hart á hauður
hinzta sinni féll.


Yfir sig þeir ákaft jusu
ösku’ og fóru’ í sekk;
þá í augun illa gusu
æði-margur fékk.


Ljótur gamli lengi hafði
legið þá í kör;
að sé rekkjuvoðum vafði
vopna aldinn bör.


Sér á vinstri síðu kló ’ann,
svo í brækur fór;
hart á lærið hægra sló ’ann
hét á Krist og Þór: —


„ „Æðstu þekking“ ellin veitir,
á mér þetta sést;
heyri allar hraustar sveitir,
hvað mér sýnist bezt:


Setjið mig í sæti Bensa,
svo er bætt vort tjón;
enn mun karlinn kunna’ að skensa
kjaftfor þingsins flón.


Hörmung er ef hér á láði
heimskan skjöldinn ber:
eg vil Magnús minn að ráði
mektugr öllu hér.


Bankann þarf ei, Þórshöfn dugar,
þar er Snæbjörn minn;
eg skal flytja fegins hugar
fram þau stórmælin.


Ljótur hræðist aldinn eigi
atför Valtýings;
máske karli koma megi
kviktrjám á til þings“. —


Að svo mæltu út af féll hann —
úti’ um þingreið var;
enginn vildi’ í elli hrella’ ’ann —
og þeir kusu’ hann þar.


Pétur Gauti gjarnan sagðist
grípa vilja hjör;
allþungt stríðið í hann lagðist
undir svaðilför.


Norðmýlingar sóttu’ að sennum,
sveigðu vopnin stinn;
rauk sem gufa af rekka ennum
Rangár-samþykktin.


Einar beggja vinur vera
vildi’ í hverri þraut;
samvizkan hans sýndist bera
sannfæring á braut.


Jóhannes hinn furðu fríði
frækn sig heiman bjó,
þótti vera’ á þingi prýði,
þola flestan sjó.


Sunnmýlingar héldu að hildi,
hríð varð ekki löng;
Axel frækni, garprinn gildi,
geira herti söng.


Gutti hjá í liði lafði
landshöfðingjanum;
umboð hann og umbrot hafði
ill í maganum.


Ólafur frá Arnarbæli
austr á vængjum fló;
snerist um á hnakka’ og hæli,
hvergi af megni dró.


„Þarfastan“ sig „þjóninn“ kvað ’ann
þingi og landsmönnum;
heilla allra’ og heiðurs bað ’ann
Hornfirðingunum.


Í hans mælsku meginflóði
margir fóru’ á kaf;
séra Jón, hinn gamli, góði,
gat ei komizt af.


Skaftfellingar vestri vóru
víga búnir til;
tryggðareiðinn ýmsir sóru
ýtar Lauga’ í vil.


Skuggsýnt var og heljarhjúpi
hulin foldarból;
kúrði ugla’ á Keldugnúpi,
kveið þar degi og sól.


Doktor Forni fúll í svörum
fór með kukl og seið;
skaut hann mörgum eiturörum,
austr á Síðu reið.


Kampinn á hann byrstur bítur,
býður Lauga’ á hólm;
niður úr sorta himins hrýtur
hríðin galdra ólm.


Laugi bað sér dísir duga
djöfuls kynngi mót;
fyrsta sinn með hálfum huga
hjör hann þreif og spjót.


Hrakið lá í hrúgum víða
hey hjá bændunum;
uggði þá, að ótíð stríða
ættu í vændunum.


Kjörþingsdaginn röðull roða
reifar engi’ og tún;
glit af skærum geislaboða
gyllti fjallabrún.


Fáir kappar Forna mættu
á fundi þennan dag;
heyja sinna gildir gættu
garpar sér í hag.


Doktor Forna féllust hendur
fyrir sólarbrá;
hann varð þá að steini’ og stendur,
stór við Kötlugjá.


Laugi stoltur slíðrar vigur,
stál var ekki reynt;
frægan hafði’ ’ann hlotið sigur,
hélt á alþing beint.


Rangæingar rómu stikla
ramma þeyttu í gríð;
sendu Þórð og Magnús mikla
að magna geira-hríð.


Eggert svartur hempu hristi,
hleypti vindi’ á stað,
atkvæðanna megnið missti;
manninum gramdist það.


Á skal minna Árnesinga:
Ýmsir vildu þar
gildir, framir Gautar hringa
grípa Sigtýs skar.


Símon hafði beizlað bæði
Bakka og Flóamenn;
lét þá sprikla’ í leyniþræði
lengi marga í senn.


Pétur gapti’ og gleiðum túla
galli tómu spjó;
þóttust allir þekkja fúla
þaralykt frá sjó.


Skældi’ hann sig og skók sig allan,
skratti málugur,
hristi lengi ljótan skallann;
lá svo óvígur.


Hannes stóð á hávum palli
hampaði Þjóðólfi,
eins og gamalt goð á stalli,
grenjaði: „Þjóðfrelsi!“


Upphaf sig og endi sagði’ ’ann
allra framkvæmda;
á hvert minnsta orð sitt lagði’ ’ann
áherzluna „ha“ — — —


Móti Birni bændur stælti’ ’ann,
byrsti’ og yggldi sig:
„Eg er fastur fyrir“, mælti’ ’ann,
„flekar enginn mig“.


Í brjósti allir um hann kenndu —
inn á þing hann flaut; —
en með honum samt þeir sendu
Sigurð „ráðunaut“.


Um þær mundir ærnar róstur
urðu’ í Reykjavík;
fór sem vofa’ um hraun og hrjóstur
hundvís pólitík.


Tryggvi karlinn kunni’ að smala,
kallar hann á fund
sjómann hvern og hóf að tala
hátt á þessa lund:


„Standi þið, piltar, hérna hjá mér,
hefjum málmagný,
sjómannsbragur er nú á mér,
enginn neitar því.


Árin mörg í víking var eg,
víða’ um höfin fór,
stýrði Gránu og brandinn bar eg
burða’ og tignar stór.


Mig var á úr meyjaskara
mörgu sinni bent,
með eg þótti fimur fara
flein við turníment.


Nú skal Valtýr hörðum halla
haus á foldar svörð,
Arntzen-Warburg fá að falla
fyrir mér á jörð.


Flota vil eg fagran búa
föntum slíkum mót;
hlaða vígi, hafið brúa,
hefja siðabót.


Inn í bankans hvíta höllu
heim eg yður býð;
gull og gnægð af góðu öllu
gef eg mínum lýð“. —


Sjómenn Tryggva sögðust fylgja, —
sumir héldu þó,
geigvæn kynni undirylgja
á þeim rísa sjó.


Sankti-Lárus sagt er héti
síðan kappinn á,
og glóðaraugna-Gísli léti
guða’ á hverjum skjá.


Einar brátt og Búi fóru
um borg í leiðangur;
eiða hvorir öðrum sóru
eins og fóstbræður.


Agiterað inn við Laugar
er af pilsvörgum;
risu’ úr haugum rammir draugar,
riðu húsunum.


Gísli hljóp og engu eirði,
ákaft þandi hvoft.
Einar hausinn á sér keyrði
upp í háva loft.


Mátti ei jafnast Jón við slíkum
jötna’ og þussa-leik,
hné þar búin Herjans flíkum
hetjan föl og bleik.


Ljóðin enda, óðinn sendi’ eg
ungri hringa-Bil,
hvar sem lendir, héðan vendi’ eg
hróðugr þingsins til.Fjórtánda ríma (Hafnarríma)[breyta]

Ferskeytt

Um þær mundir undur stór
urðu’ og vígaboði,
huldi allan himinkór
háan frelsisroði.


Allt var bleki atað land,
yfir jöklum glóði
voðablika’ af vígabrand’,
víða rigndi blóði.


Blásið var í hornin hátt,
herjans vafin skrúða
mynd þar birtast mundi brátt
Magnúsar hins prúða.


Komu’ að vestan víkingar
vígamóði fylltir,
í báða enda og alstaðar
utan logagylltir.


Hittust báðir Hannesar,
hvorutveggi feitur;
annar hnarreist höfuð bar,
hinn var undurleitur.


Stikaði djarft með stoltar-svip
Snæfellingagoðinn;
margan sá þar góðan grip,
gulli skæru roðinn.


Valtýr kom og kappar hans,
kesjum gyrtir bláum;
hófst hinn mikli darradans,
dundi’ í sölum háum.


Danir höfðu fengið Finn
til fylgis landshöfðingja;
átti í felum „finnurinn“
Fjösvinns mál að syngja.


Faldist bak við eina eik,
örum spýtti úr túla;
gera vildi vondan leik
Valtý sá og Skúla.


Görpum mjög hann glapti sýn,
er geystust Valtý móti;
finngálkns ásýnd ekki frýn
ægði í Hildar róti.


Meginjötnar Magnúsar
máttu ei annað þekkja
en lygi, svik og landráð þar
lýðinn til að blekkja.


Illkvikindum, ormstrjónum,
eiturslöngum ljótum
þörf að eyða þegnunum
þótti’ á vopnamótum.


Bitra Laugi brandinn skók,
björtu veifði spjóti,
honum þegar Hafsteinn tók
harðfenglega móti.


Ball á Skúla skildi hjör,
skarplega varðist jarlinn,
Lárus ekki frægðarför
fór þar mikla, karlinn.


Nær því jafnmargt lýða lið
laufa háði gjálfur;
báðum fylgdi á sóknar svið
séra Einar hálfur.


Guðjón tók að gleikka spor,
grár fyrir járnum var hann,
og á Kristján assessor
Angurvaðil bar hann.


Dró þá Kristján Dragvendil,
darrablöðin sungu,
herti snarpan hjörvabyl
hann í skapi þungu.


Heitt var báðum, höggin stór
á hjálmum sterkum dundu;
Guðjón hét á guð og Þór
grimmur á sömu stundu.


Kristján vopna þóttist þá
þurfa’ ei framar viður,
keyrði Guðjón klofbragð á,
kastaði honum niður.


Warburg hétu ýmsir á,
aðrir sögðu: „Tryggvi,
athvarf þér vér eigum hjá
‚erindrekinn dyggvi‘.“


Lárus æpti og Hannes hátt,
hjörvi slógu á skjöldinn;
kvað við grimmt úr hverri átt
heróp: „Bara völdin!“


Valtýr stóð sem veggur fast
við þau feikn og undur;
loksins hvassi hjörinn brast
í höndum Lalla sundur.


Hátt í rómu hjörinn söng,
hart var sótt og varizt;
líka’ í ótal leynigöng
laumazt var og barizt.


Utan þings við áhlaupin
ýmsir vopnum fleygðu;
hvorir aðra eins og skinn
eltu þá og teygðu.


Sigur loksins Valtýr vann
við þær skjóma hviður;
undu sér við endi þann
óvinirnir miður.


Reiður Hannes Hafsteinn tér:
„Hvað er nú til ráða?
Fyrir kóngi klögum vér
kumpán þann og snáða.


Fái’ eg Tryggva’ og Finn með mér,
á fund skal stillis halda
og öllum þessum arga her
illar skuldir gjalda.


Georg Brandes á eg að
og Eðvarð karlinn líka;
held eg þori’ að hætta’ á það
að hefja útför slíka.


Það er mín trú, að maga minn
milding respekteri;
mælskan öll og málsnilldin
meina eg talsvert geri“.


Héldu þeir til Hafnar þrír,
hrepptu byrinn þýða;
skreið sem örskot Unnar-dýr
yfir hafið víða.


Konungs fund þeir kepptust á,
er komu af jónum ranga;
í humátt við sig hal þeir sjá
harla snúðugt ganga.


Kenndu Valtý kominn þar,
körlum hnykkti viður;
fullir ótta og undrunar
ætluðu’ að hníga niður.


Kapphlaup var með hörku háð;
huldir svita í framan
loksins hilmis höllu náð
höfðu allir saman.


Beygingum og bukti með
boð fyrir sjóla gjörðu;
til hans blítt með bænargeð
bljúgir allir störðu.


Sjóli ekki sagðist fær
við „svona“ menn að tala;
kvað þó samt við kempur þær
koma mann og hjala.


„Mæðir“, kvað hann, „elli í
að eiga ræðu langa. &mdash
Vilt þú ekki, Albertí,
út til dyra ganga?“


Albertí fór út á hlað,
ofan hinit tóku —
fengu honum heljarblað
höfðingjarnir klóku.


Gleraugun upp setti sá,
svo er lesið hafði,
setti’ ’ann hljóðan, svarar fá,
saman skjalið vafði:


„Þeir eru nógu þrályndir
þessir Íslendingar!
ekki vitund auðsveipir
eins og Færeyingar.


Ykkur er nær en efla stríð
og aldinn konung mæða
frið að eiga ár og síð,
ykkar njóta gæða.


Ég mun yðar óðalstorð
ekki móti vera, &mdash
en fyrir sjálfra ykkar orð
ekki mikið gera“.


Svo fór þessi sendiför, —
sem var engin furða:
á þráðinn sinn þeim þótti gjör
þarna lagleg snurða.


Labbaði Tryggvi í landsbankann,
lán til þess að fala;
um afreksverk sín hafði hann
harla margt að tala.


Sagt er að kæmi England á
aldinn vopnarunnur,
og herra Thordal hitti þá,
sem hér er flestum kunnur.


Sá var ekki blankur, — bjór
bauð hann Tryggva og fleira.
— En hvað þeim meira milli fór,
mátti enginn heyra.


Atburður á Íslandi
eftir þetta skeður:
Hovgaard kom á „Heimdalli“
hroðafréttir meður. —


Kvað hann doktor Valtýs von
vera’ á hverri stundu,
og Magnús prúði Magnússon
mundi lúta’ að grundu.


Valtýr orðinn væri jarl; —
varð þá stjórnarmönnum
algerlega orðafall,
ískruðu og gnístu tönnum.


Hrikti’ í stjórnarstólpunum,
stundu þeir af kvíða:
hundadaga hilmi um
hugsuðu þegnar víða.


Vænka þótti Valtýs her
við það tækifæri;
sagði’ í greipar gengin sér
gæfan mikla væri.


Lygi raunar reyndist það; —
rótt varð allt að sinni, —
meðan komið ekki’ er að
aðal-kollhríðinni!


Allir mæna á Albertí,
Ás hins nýja siðar;
ætla’ að renni’ upp öldin ný,
öldin ljóss og friðar.


Allir höndum taka tveim
tíð, er stríð er þrotið;
en sumum hætta þrætum þeim
þykir súrt í brotið.


Kom þú svo með Fróða-frið,
fögur tímans stjarna;
skín þú broshýr vöggu við
vorra ungu barna.


Sé ég þú í skýjum skín,
skærust undir daginn. —
Þá er harpan þögnuð mín,
þakkið þið, stúlkur, braginn.