Fara í innihald

Bárðar saga Snæfellsáss/19

Úr Wikiheimild

Að vori fóru þeir þaðan og bar hver sínar vistir. Þeir gengu fyrst eftir landinu milli vesturs og útsuðurs. Síðan snéru þeir um þvert landið. Voru fyrst jöklar og þá tóku til brunahraun stór. Tóku þeir þá járnskó þá er konungur hafði fengið þeim. Þeir voru fjórir tigir en menn voru tveir tigir og Gestur umfram. En er allir höfðu tekið skóna nema Jósteinn prestur gengu þeir á hraunið. Og er þeir höfðu gengið um stund varð prestur ófær. Gekk hann þá blóðgum fótum hraunið.

Gestur mælti þá: „Hver yðar sveina vill hjálpa skráfinni þessum svo hann komist af fjallinu?“

Engi tók undir það því að allir þóttust nóg bera.

„Það mun ráð að hjálpa honum,“ segir Gestur, „því að konungur mælti þar mikið um en oss mun það best gegna að bregða ekki af hans ráðum. Og far nú hingað prestur og sest upp á bagga minn og haf með þér föng þín.“

Svo gerir prestur. Gestur gekk þá fyrir og gekk þá harðast. Svo gengu þeir upp þrjá daga. En er hraunið þraut komu þeir að sjó fram. Þar var hólmur stór fyrir landi. Út til hólmsins lá eitt rif, mjótt og langt. Þar var þurrt um fjöru og svo var þá þeir komu að. Gengu þeir þá út í hólminn og þar sáu þeir standa haug einn stóran.

Segja sumir menn að sjá haugur hafi staðið norðarlega fyrir Hellulandi en hvar sem það hefir verið þá hafa þar engar byggðir í nánd verið.