Bárðar saga Snæfellsáss/2

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
villa í sniði: ekki fjarlægja auðar breytur (sjá nánar í skjölun sniðs.)

Bárður fór norður á Hálogaland og hafðist þar við. Hann átti þrjár dætur við Flaumgerði konu sinni. Hin elsta hét Helga, önnur Þórdís, þriðja Guðrún. En sem Bárður hafði einn vetur verið á Hálogalandi þá andast Flaumgerður kona hans og þótti honum það hinn mesti skaði. Síðan bað Bárður Herþrúðar dóttur Hrólfs hersis hins auðga. Við henni átti hann sex dætur. Hét ein Ragnhildur, önnur Flaumgerður, Þóra, Þórhildur, Geirríður og Mjöll.

Nú er þar til að taka að vex að eins ófriður milli þursa og Dumbs konungs. Þótti þeim hann afar grimmur viðureignar. Bundust þeir þá saman og gerðu það statt með sér að ráða hann af. Hét sá Harðverkur er fyrir þeim var. Gekk þetta fram að þeir mættu honum einn dag á steinnökkva einum. Voru þeir átján saman. Sóttu þeir að honum og börðu hann með járnstöngum en hann varðist með árum og lauk með því að Dumbur konungur féll enda hafði hann þá drepið tólf af þeim en Harðverkur var eftir og þeir sex saman. Gerðist hann þá konungur yfir þeim norður þar.

Mjöll giftist aftur Rauðfeld hinum sterka syni Svaða jötuns norðan frá Dofrum. Þau áttu þann son er Þorkell hét. Hann var mikill og sterkur. Hann var svartur á hár og hörund. En þegar hann hafði aldur til varð hann hinn mesti ójafnaðarmaður.

Litlu síðar andaðist Mjöll móðir hans en Þorkell kvæntist og fékk Eygerðar Úlfsdóttur af Hálogalandi. Móðir Eygerðar var Þóra dóttir Mjallar Ánsdóttur bogsveigis. Fór Þorkell þá byggðum til Hálogalands og var í nágrenni við Bárð bróður sinn. Bjuggu þeir í firðinum Skjálfta norðarlega á Hálogalandi.

Nokkuru síðar fóru þeir bræður norður yfir Dumbshaf og brenndu inn Harðverk hinn sterka og þrjá tigu þursa með honum. Síðan treystist Bárður eigi þar að festast. Fóru þeir þá heim aftur í Skjálfta og bjuggu þar til þess er Haraldur konungur lúfa efldist til ríkis í Noregi. Og er hann var fullger í því starfi varð hann svo ríkur og ráðgjarn að sá skyldi engi maður vera í milli Raumelfar suður til Finnabús norður, sá er nokkurs var ráðandi, svo að eigi gyldi honum skatt, jafnvel þeir sem saltið brenndu svo sem hinir sem á mörkinni yrktu. En er Bárður frétti þetta þóttist hann vita að hann mundi eigi heldur undan ganga þessum hans álögum en aðrir. Vildi hann þá heldur forláta frændur og fósturjarðir en lifa undir slíku ánauðaroki sem hann frétti að allur almúginn var þá undir gefinn. Kom honum það þá helst í hug að leita annarra landa.