Bárðar saga Snæfellsáss/22

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
villa í sniði: ekki fjarlægja auðar breytur (sjá nánar í skjölun sniðs.)

Um sumarið eftir bjuggust þeir bræður, Þórður og Þorvaldur, til Íslands og komu skipi sínu á Borðeyri í Hrútafirði, fóru síðan heim til föður síns og þóttu hinir mestu menn.

Þórður bjó í Tungu eftir föður sinn en Þorvaldur fékk Herdísar, dóttur Óspaks af Óspaksstöðum, og bjó að Hellu í Helludal.

Þeir voru systkinasynir, Þorbjörn faðir þeirra og Hjalti Þórðarson er nam Hjaltadal. Synir Hjalta voru þeir Þórður og Þorvaldur sem fjölmennast erfi hafa haldið á Íslandi eftir föður sinn. Þar voru tólf hundruð boðsmanna. Þar færði Oddur Breiðfirðingur drápu sem hann hafði ort um Hjalta. Áður hafði Glúmur Geirason stefnt Oddi um ányt til Þorskafjarðarþings. Þá fóru þeir bræður norðan á skipi til Steingrímsfjarðar. Þar komu þeir bræður Þorbjarnarsynir úr Hrútafirði til móts við þá og gengu allir samt norðan yfir heiðina þar sem heitir Hjaltdælalaut.

En er þeir komu á þingið voru þeir svo vel búnir að menn hugðu þar væru komnir æsir. Þá var þetta kveðið:

Manngi hugðu manna
morðkannaðra annað,
ísarns meiðr, en æsir
almærir þar færu
þá er á Þorskafjarðar
þing með ennitinglum
holtvartaris Hjalta
harðfengs synir gengu.

Vörðu þeir mál fyrir Odd með styrk þeira bræðra úr Hrútafirði. Síðan fóru hvorirtveggju með hinum mestu kærleikum heim aftur til heimkynnis síns og skildu þeir frændur með mestu kærleikum. Er mikil ætt komin af þeim Þorbjarnarsonum og svo Hjaltasonum.

Ekki er getið að Gestur Bárðarson hafi nokkur börn átt. Og lýkur hér sögu Bárðar Snæfellsáss og Gests sonar hans.