Bárðar saga Snæfellsáss/21

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
villa í sniði: ekki fjarlægja auðar breytur (sjá nánar í skjölun sniðs.)

Það er nú að segja frá þeim er á hauginum voru að þann tíma sem þessi undur voru sem nú var frá sagt brá þeim svo við að þeir ærðust allir nema prestur og hundur Gests. Hann fór aldrei frá festinni. En er Gestur knýtti sig í festina þá dró prestur hann upp með styrk hundsins með allan fjárhlut og fagnaði Gesti og þóttist hann úr helju heimt hafa, fara til þar er menn þeirra voru og héldust á og stökkti prestur á þá vatni. Tóku þeir þegar vit sitt.

Bjuggust þeir í burt. Nálega þótti þeim jörðin skjálfa undir fótum þeim. Gekk og sjórinn yfir allt rifið með svo stóru boðafalli að mjög svo gekk sjór yfir allan hólminn.

Aldrei hafði Snati gengið frá hauginum meðan Gestur var inni. Nú þóttust þeir eigi vita hvar þeir skyldu rifsins leita. Vísaði hann Snata út á boðana en rakkinn hljóp þegar út á boðana á kaf þar sem rifsins var von og stóðst eigi kynngi Raknars og drukknaði hundurinn þar í bárunni. Það þótti gesti hinn mesti skaði.

Jósteinn prestur gekk þá fram fyrir þá og hafði róðukross í hendi en vatn í annarri og stökkti því. Þá klufðist sjórinn svo að þeir gengu þurrum fótum á landi.

Fóru þeir allan hinn sama veg. Gestur færði konungi alla gripuna og sagði allt sem farið hafði. Konungur bað hann þá skírast láta. Gestur sagðist því heitið hafa í Raknarshaugi. Var þá og svo gert.

Hina næstu nótt eftir er Gestur var skírður dreymdi hann að Bárður faðir sinn kæmi til hans og mælti: „Illa hefir þú gert er þú hefir látið trú þína, þá er langfeðgar þínir hafa haft, og látið kúga þig til siðaskiptis sakir lítilmennsku og fyrir það skaltu missa bæði augu þín.“

Tók Bárður þá að augum hans heldur óþyrmilega og hvarf síðan. Eftir þetta er Gestur vaknaði hefir hann tekið augnaverk svo strangan að hinn sama dag sprungu þau út bæði. Síðan andaðist Gestur í hvítavoðum. Þótti konungi það hinn mesti skaði.