Fara í innihald

Bárðar saga Snæfellsáss/4

Úr Wikiheimild
Ótitlað

Bárður Dumbsson lagði sínu skipi inn í lón það sunnan gengur í nesið og þeir kölluðu Djúpalón. Þar gekk Bárður á land og hans menn og er þeir komu í gjárskúta einn stóran þá blótuðu þeir til heilla sér. Það heitir nú Tröllakirkja.

Síðan settur þeir upp skip sitt í vík einni. Þar á lóninu höfðu þeir gengið á borð að álfreka og þann sama vallgang rak upp í þessari vík og því heitir það Dritvík.

Síðan fóru þeir að kanna lönd og er Bárður kom á víkurnes eitt þá bað Kneif ambátt að Bárður skyldi gefa henni nesið og svo gerði hann og er það nú kallað Kneifarnes.

Þá fann Bárður helli stóran og þar dvöldu þeir um hríð. Þar þótti þeim svara öllu því er þeir mæltu því að dvergmála kvað fast í hellinum. Hann kölluðu þeir Sönghelli og gerðu þar öll ráð sín og hélst það alla stund síðan meðan Bárður lifði.

Síðan fór Bárður þar til hann kom að tjörn einni. Þar fór hann úr klæðum sínum öllum og þvó sér í fjörunni og hana kalla menn nú Bárðarlaug. Þaðan skammt í frá gerði hann bæ stóran og nefndi hann að Laugarbrekku og bjó þar nokkura stund.

Sá maður kom út með Bárði bónda er Sigmundur hét. Hann var sonur Ketils þistils er nam Þistilsfjörð. Hildigunnur hét kona hans. Þau voru með Bárði að Laugarbrekku.

Þorkell rauðfeldur nam sér land er á Arnarstapa heitir en Skjöldur bjó í Tröð. En Gróa kona hans undi eigi hjá honum sakir skapsmuna sinna því að hún þóttist honum of góð og fór í hellisskúta einn og ruddi með bjarghöggum, að þar varð stór hellir, og bjóst þar um með föng sín svo hún hafði engan bústað annan meðan Skjöldur lifði og var hann kallaður Gróuhellir.

En eftir Skjöld dauðan bað Þorkell skinnvefja Gróu og með atgangi Bárðar frænda hans fékk hann hennar og bjuggu þau síðan að Dögurðará.

Þórir Knarrarson varðveitti bæ Bárðar að Öxnakeldu.

Skinnbrók ambátt Bárðar bjó að bæ þeim er Skinnbrók heitir.

Ingjaldur fór fram fyrir nesið og fann sér land að ráði Bárðar þar sem heitir að Ingjaldshvoli.

Svalur og Þúfa hurfu frá skipinu þegar hina fyrstu nátt og spurðist eigi til þeirra nokkura stund en reyndar voru þau í fjallinu og trylltust þar bæði. Og er á leið gerðust margar óspektir af þeim og treystust menn ekki að að gera sakir trölldóms þeirra.

Það var einn tíma að hvalur kom á reka Bárðar og hafði Svalur þá vanda sinn og fór til um nátt að skera hvalinn. Og sem hann hafði skorið hvalinn um stund kom Bárður þar. Tókst þar glíma sterkleg með þeim. Trylltist Svalur þá svo Bárði varð aflsfátt en þó kom svo um síðir að Bárður braut hrygg í Sval og kasaði hann þar í mölinni og heitir þar Svalsmöl. Aðra nótt eftir fann hann Þúfu á hvalnum og drap hana með sama móti. Þetta þótti hin mesta landhreinsan.