Bjarnar saga Hítdælakappa/10

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Bjarnar saga Hítdælakappa
10. kafli

Frá því er nú að segja þá er voraði að Björn bjó skip sitt til Íslands. Og þá bjuggust og önnur skip til Íslands og koma þau fyrr út en Bjarnar skip. Ólafur konungur sendi orð með mönnum að Þórður skuli vel halda sáttum við Björn þótt hann kæmi út og kvað hann þess skyldan fyrir sakir þeirra viðskipta slíkra sem orðið höfðu.

Á því sumri kom Björn út í Hrútafirði á Borðeyri með mikið fé og hafði sóttan mikinn frama og atgervi. Þeir bera búnað sinn af skipi og reisa tjöld sín.

En í öðrum stað er þess við getið eitt kveld að Oddný tók til orða við Þórð bónda sinn: „Hefir þú nokkuð tíðinda heyrt Þórður?“

„Engi,“ segir hann, „en því muntu um það ræða að þú munt spurt hafa nokkur.“

„Nær getur þú,“ segir hún. „Frétt hefi eg það er mér þykja tíðindi. Mér er sögð skipkoma í Hrútafirði og er þar á Björn sá er þú sagðir andaðan.“

Þórður mælti: „Það má vera,“ segir hann, „að þér þyki það tíðindi.“

„Víst eru það tíðindi,“ segir hún. „Og enn gerr veit eg nú,“ segir hún. „hversu eg er gefin. Eg hugði þig vera góðan dreng en þú ert fullur af lygi og lausung.“

„Það er mælt,“ segir Þórður, „að yfirbætur séu til alls.“

„Mig grunar,“ segir hún, „að sjálfur muni hann hafa skapað sér bæturnar.“

„Haf þú það fyrir satt sem þér sýnist,“ segir hann. Nú fellur þetta hjal með þeim.

Þeir Arngeir og Ingjaldur fara til skips og hitta Björn. Verður þar fagnafundur með þeim og bjóða Birni til sín og kváðust nú verða honum fegnir, sögðu nú langt hafa verið funda á milli. Hann kvaðst fara mundu. Síðan var upp sett skipið er á leið sumarið en Björn fór heim til föður síns.

Mörgum mönnum varð nú dátt um heimkomu Bjarnar því að áður hafði mjög verið á dreif drepið um mál Bjarnar hvort hann var lífs eða eigi. Sagði annar það logið en annar sagði satt en nú var reynt hvort sannara var.

Birni var vel fagnað er hann kom heim. Fóstri hans gaf honum hundinn V... því að honum hafði þótt hann góður fyrr. Faðir hans gaf honum hest er Hvítingur hét. Hann var alhvítur að lit og með fola tvo hvíta. Það voru góðir gripir.