Bjarnar saga Hítdælakappa/11

Úr Wikiheimild
Bjarnar saga Hítdælakappa
11. kafli

Nú er það sagt að Þórður spurði Oddnýju hve ráðlegt henni þætti að bjóða Birni til vistar og kvaðst eigi vilja að menn gengju milli þeirra og rægðu þá saman „og vil eg svo reyna skap Bjarnar og trúlyndi við mig.“

Hún latti, kvað það óráð að því orði sem áður lék á. Þórður lét eigi letjast og fór í Hólm í Hítardal. Hann reið einn saman í blárri kápu. En fjall stendur að húsbaki í Hólmi og gengur hryggur sá niður af fjallinu að húsunum heim. Það höfðu þau að sýslu þann dag, Björn og móðir hans, að þau breiddu niður léreft og þurrkuðu er vot höfðu orðið.

Hún tók til orða: „Maður ríður þar,“ segir hún, „í blárri kápu og er alllíkur Þórði Kolbeinssyni, og hann er og, og mun hans erindi óþarft.“

„Eigi mun það,“ segir Björn.

Þórður kom þar. Þeir kveðjast og spyrjast almæltra tíðinda. Síðan mælti Þórður: „Það er erindi mitt hingað að vita hvort þú vilt halda sættir við mig þær er konungur gerði milli okkar og skuli nú hvorgi eiga öðrum sakir að bæta og er það merkilegt er skilríkur maður hefir samið milli okkar. En var mér það í hug um hríð að við mundum ekki sættast.“

Björn kvað það einsætt að halda sættir, það sem þeir höfðu um mælt.

Þórður mælti: „Eg hefi þann hluta haft mála er veglegri þótti og mun eg nú það sýna að eg vil að við sættumst heilum sáttum. Eg vil bjóða þér þangað til veturvistar til mín og skal eg vel veita þér. Vænti eg og að þú munt svo þiggja.“ Þórður fór þar um fögrum orðum.

Þórdís mælti: „Það mun sýna að eg mun ekki mjög talhlýðin. Hugðu svo að Björn,“ segir hún, „að því flárra mun Þórður hyggja sem hann talar sléttara og trú þú honum eigi.“

Þá kemur Arngeir að og spyr hvað þeir ræði. Þórður segir honum.

„Svo sýnist mér,“ segir Arngeir, „sem sá sé þeim meiri vinur er þessa fýsir, ef þeir væru þá sáttari en áður, og fýsa vil eg Björn að fara og mun Þórður það efna sem hann mælir,“ og stenst heldur í móti með þeim hjónum.

Björn mælti: „Það hefi eg ætlað að vera með föður mínum og mörgum mun kynlegt þykja heimboð þetta sakir orðróms manna.“

Þórður mælti og kvað að Björn væri honum eigi trúr ef hann þægi eigi boðið. Og nú hét Björn að vera þar nokkura stund og kvaðst þó mundu dveljast fyrst með föður sínum.

Þórður reið heim og segir Oddnýju hvert hann hafði farið um daginn og kvaðst nú hafa það erindi fengið er hann vildi.

„Hvert er það?“ segir hún.

Hann segir að þangað hafi hann boðið Birni og kvaðst það hafa gert til yfirbóta við hana.

„Það hygg eg,“ segir hún, „að nú ljúgir þú ef þú kannt það.“

Þórður segir: „Eigi verður einn eiður alla.“ Skilja þau nú hjalið.