Bjarnar saga Hítdælakappa/12

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search
Bjarnar saga Hítdælakappa höfundur óþekktur


Nú bjóst Björn til vistar með Þórði og fór á Hítarnes með þrjá gangandi gripi, hesta tvo og hund. Hann reið hesti og hafði annan í togi. Eftir lét hann fé sitt í Hólmi. Þórður tók vel við honum og setti hann hið næsta sér og bað menn nú einkum að vel skuli þeir á meðal ganga og hétu menn um það góðu en flestum þótti þarvist Bjarnar kynleg. Og þó líður nú stund og horfist vænlega á með þeim.

Það er sagt um öndverðan vetur kemur Þórður að máli við Oddnýju og spyr hversu þá mun sýslum gegna. „Er nú mart á höndum,“ segir hann, „og þyrfti að allir væru að nokkuru nýtir.“

Ey liggur í Hítará, gagnauðig bæði að selveri og eggveri, og þar voru sláttur í og sæði.

„Nú munu karlar og konur fara til að skrýfa korn,“ segir hann, „en þú verður að vera heima því að sauður mun heim rekinn í dag og verður þú nú við að leita að mjólka þótt þú sért óvön.“

Hún mælti: „Sé eg þá allmaklegan mann til að moka kvíarnar og skaltu það gera.“

„Rangt mælir þú nú,“ segir Þórður, „því að eg hefi meiri önn fyrir okkru búi en þú,“ og rennur honum í skap og drap hendi sinni hægri á kinn henni.

Björn var skammt í frá og heyrði hvað þau ræddu og kvað vísu:

Snót biðr svein hinn hvíta
svinn að kvíar innan,
reið era Rínar glóðar
ranglát, moka ganga.
Harðla nýt, sú er heitir,
Hlökk miðs vita Rökkva,
sprund biðr út að andar,
Eykyndill, mig skynda.

Þórður fór til verks en Oddný mjólkaði ekki ásauðinn enda mokaði Þórður ekki kvíarnar. En eigi góð þótti Þórði vísan er Björn kvað en þó var það nú fyrst kyrrt.

Nokkuru síðar er það sagt að Þórður kom inn og hann sá að Björn átti tal við konur. Það var um kveld og var Björn kátur við þær. Þórður kvað þetta:

Út skaltu ganga,
illr þykir mér
gleymr þinn vera
við griðkonur.
Sitr þú á öftnum
er vér inn komum,
jafnauðigr mér,
út skaltu ganga.

Björn mælti: „Hafa viltu enn þann bragarháttinn sem fyrr meir“, og kvað vísu í mót:

Hér mun eg sitja
og hátt vel kveða,
skemmta þinni
þjóðvel konu.
Þá mun okkr eigi
til orðs lagið,
er eg heill í hug,
hér mun eg sitja.

Sá atburður varð enn einu sinni litlu síðar um kveld að Þórður kom inn og gekk hljótt og vildi vita hvað fyrir væri. Hann heyrði mannamál og þóttist vita að þau Björn og Oddný ræddust við og hleraði ef hann mætti heyra hjal þeirra. Björn varð og var við og segir Oddnýju að Þórður hleraði til hvað þau ræddu. Hún kunni þess enga þökk og gekk í brott og blés við hátt en Björn kvað vísu:

Eykyndill verpr öndu
orðsæll og vill mæla,
brúðr hefr bestar ræður
breksöm, við mig nekkvað.
En til Jarðar orða
ölreyrar gengr heyra
lítill sveinn og leynist
launkárr og sest fjarri.

Þórði hugnar eigi við Björn um kveðskapinn en þó er nú kyrrt og hyggur sitt hvor.

Það var eitt kveld að þau voru í stofu að Þórður setur Oddnýju í kné sér og er blíður við hana, vill vita hvernin Birni bregður við. Hann kyssir hana og lét fylgja vísu:

Muna mun Björn að Birni
bauga Grund úr mundum,
snót hin snerriláta,
slapp Hítdælakappa.
Skapað var mér, en mjórar
muna þrjótr konu njóta,
ráð er slíkt til snúðar,
sveigar þöll að eiga.

„Svo var,“ segir Björn, „að eg varð að láta þetta kvonfang en gerst hefir það í okkrum viðskiptum að eg vænti að þér muni seint fyrnast,“ og kvað vísu:

Þat mun þér, er mætti
þín sveit liði mínu
þar fyr Þrælaeyri,
Þórðr, eimuni, forðum
og frá auði miklum
ódrengila genguð.
Bart, þótt allvel ortir,
oftsinnum hlut minna.

Eigi var langt að bíða áður hann kvað:

Muna mátt hitt að hattar
halland, vann eg grandi,
lítill sveinn, um leiti
látprúðr hvar þú dúðir
og frá byrjar blakki
brátt, sem orka máttir,
annars snauðr en æðru,
ills kunnandi runnuð.

Og enn þykir Birni eigi fullgert í mót því er Þórður minnti hann á um sakirnar og hældist er hann hafði hlotið konuna en Björn varð lausa að láta, og kvað enn vísu:

Hefnt tel eg þess að þessa
þornteigar gekkst eiga,
þín er í þurrð að einu,
Þórðr, vegsemi, skorðu.
Þér á Oddaeyri
undan mínum fundi
brúar und bakka lágum
Brenneyja láguð, skreyja.

Nú er þetta kyrrt og þykir nú hvorumtveggja verr en áður. Eitt sinn kvað Björn vísu þessa:

Sátt við, sveinn hinn hvíti,
sviftr auði og giftu,
áðr var eg odds við hríðir,
öfund í Sólundum.
Þá er raungetinn reyttag,
rusilkvæðr, af þér bæði,
heldr var gráleikr goldinn
gauri, knörr og aura.

Eigi líkaði Þórði vísan sem von var og gerist nú fátt og gneypt á með þeim.

Eitt kveld var það sagt að Björn sat hjá Oddnýju og söðlar því á ofan að hann kvað vísu þessa til Þórðar:

Þá mun þunnrar blæju
þöll vestarla und fjöllum,
Rindr vakti mig mundar,
manns þíns getu sanna
ef gæti son sæta
sunnu mars við runni,
von hét eg réttrar raunar,
ríklunduð mér glíkan.

Nú nemur staðar fyrst um kveðskap þeirra og eigast ekki við.