Bjarnar saga Hítdælakappa/14

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit

Frá því er sagt eitthvert kveld að þeir Þórður og Björn sátu í bekk og fór í bágar með þeim. Þá kvað Þórður vísu til Bjarnar:

Út skaltu ganga,
oss selduð mjöl
rautt áliti,
rúg sagðir þú,
en þegar er virðar
vatni blendu
var það aska ein,
út skaltu ganga.

Björn kvað í móti:

Kyrr mun eg sitja,
kom eg á hausti,
hefi eg fornan mör
fullu keyptan.
Feld gáfuð mér
fagrröggvaðan,
kappsvel drepinn,
kyrr mun eg sitja.

Það fannst á að Þórði þóttu framlög sín mikil en ekki gott í mót koma. Björn galt og slíkt í mót því að honum þótti heimboðið Þórðar verið hafa með glysmálum einum en veitt kotmannlega og þótti ills eina fyrir vert og þótti báðum þá verr en áður.

Öll hvíldu þau í einu útibúri um veturinn, Þórður og Oddný og verkkona er togaði af þeim klæði.

Það var einhvern aftan að Oddný kom síð til rekkju og gaf Þórður henni ekki rúm í rekkjuna. En hún sté upp yfir stokkinn og vill undir fötin hjá honum og var þess eigi kostur og sat hún af því upp.

Þá kvað Björn vísu:

Svo flakir Ullr um alla
odd böð-Gefnar Loddu,
hinn er ljóta fal lýti,
linnbeðs, sæing innan
að hól-Njörun hvílir
hrannblakks kalin nakkvað,
lofat Þrúðar hag þýðrar
þorns, á beðjar horni.

Oddný bað þá að þeir skulu eigi yrkja um hana og taldi eigi þetta vera sín orð.

Nú er frá þessu upp um veturinn og til sumars er þeir mælast ekki við.

Það hafði Oddný mælt við Björn um veturinn að dóttir þeirra Þórðar skyldi vera honum í þann stað er hann hafði eigi fengið hennar sem ætlað var. Og eitt kveld minntist Björn á þetta og setur meyjarnar í kné sér og kvað vísu þessa:

Systr eru tvær með tíri,
trúi eg enn sögum hennar,
þýð og þeirra móðir
þekk bragsmíðar skekki.
Þær eru mér in meira,
men-Grund lofa eg stundum,
það er versóka veiti
vonlegt, í stað kvonar.

Og nú er kemur að sumri og ætlar Björn í brott að búast. Það er sagt þá er Björn var búinn á brott úr vistinni þá gaf hann Oddnýju skikkjuna Þórðarnaut og mælti hvort þeirra vel fyrir öðru. Og er hann var albúinn reið hann að útibúri er Þórður var inni og Kálfur illviti hjá honum og var hann þá nýkominn þar.

Björn segir Þórði að hann var þá til ferðar búinn og hann ætlar þá úr vistinni.

Þórður kvað það vel þykja og betur að fyrr væri.

Björn kvaðst það vitað hafa fyrir löngu. „Hefir nú þann veg verið,“ segir hann.....

(Hér er eyða í sögunni.)