Bjarnar saga Hítdælakappa/15

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search
Bjarnar saga Hítdælakappa höfundur óþekktur


Nú er frá því fyrst að segja að Þórður Kolbeinsson kannaði fjöru sína. Hann kom þar sem selur var í vök og var særinn undan fallinn en ísar allt um utan og komst selurinn eigi brott. Þórði kom í hug ef hann sækti sér vopn heim að fyrr mundi sær undir falla en hann kæmi aftur og mundi hann þá eigi ná selnum og vildi það eigi, réðst til síðan og fær hlaðið selnum. En á varð slys við því að selurinn beit í lær honum og varð Þórði að því mein. Þórður kom heim og lét selinn til gera en ætlaði að leyna bitinu. En því kom hann eigi á leið og hafðist illa sárið og kom svo að hann lá í rekkju.

Björn var eigi sk... að því búinu á Völlum og spurðist þangað og gerðu menn eigi um það allorðfátt hvað Þórði væri til meins og kvað Björn vísu:

Hoddgeymir liggr heima,
hér fregna það gegnir,
sár fékk mýgir mörva
misleitr af selreitum.
En þá er út taka hrannir
allhvasst um sker falla
færir lókr um leiru
ljótr kerlingu skjóta.

Spyr Þórður þetta og heyrir kveðna vísuna og þykir ekki góð og þó líkast vanda Bjarnar. Ekki svarar Þórður hér í mót fyrst og er kyrrt.