Bjarnar saga Hítdælakappa/16

Úr Wikiheimild
Bjarnar saga Hítdælakappa
16. kafli

Nú er frá því að segja að Þorgeir húskarl Bjarnar mælti við hann á einu hverju kveldi, kvað hey eigi vera mundu sem þyrfti til nauta þeirra er hann skyldi gæta og bað Björn til fara að sjá fóðrið hvort hann ætlaði að endast mundi. Björn gerir svo sem hann beiddi. Fara þeir og koma til fjósanna og gekk Þorgeir til fyrri því að honum var þar gangur kunnari.

En kýr hafði borið kálf og féll Þorgeir um kálfinn er lá í flórnum og mælti illt. En Björn bað hann kasta upp í básinn kálfinum. En Þorgeir kvað æ því betur þykja er sá skelmir lægi neðar og vill eigi til taka. Síðan tók Björn kálfinn úr flórnum og kastaði upp í básinn.

Heim fóru þeir síðan og segir Þorgeir vinum sínum þetta, að Björn tók kálf úr flóri og kastaði upp í básinn „en eg vildi eigi.“

En þá voru þar gestir og heyrðu frásögn Þorgeirs. Og eigi miklu síðar komu þeir sömu menn á Hítarnes til Þórðar og segja þetta. Hann segir og kvað Björn fengið hafa þar svo bæði kvenna og karla um slíka hluti að sjá að eigi mundi nauðsyn að hann byrgi kúm og kvað vísu:

Hvað skyldir þú halda
heim ríkr í slíki,
enn höfumk orkn um skeindan,
ár á mínu sári?
Það mun sorg, und saurgum,
seimþollr, hala kollu,
remmitungls, að röngum,
randskjálfr, greiptu kálfi.

Það sýnist mönnum ráðlegt að sú vísa væri lítt borin. En eigi varð vísan á dreif drepin og kom til eyrna Birni og þótti honum ill og vildi eigi svo búið vera láta.

Björn reið um sumarið á Hítarnes með sex tigu manna og stefndi Þórði um vísuna sem hann kallaði lög til standa. En það mæltu beggja vinir að eigi skyldu þessi mál til þings berast og skyldu þeir heldur sættast í héraði en þess var engi kostur. Vill Þórður eigi sættast á fyrir þingið.

Þeir sættust á þingi og skal Þórður gjalda hundrað silfurs fyrir vísuna. Og þess beiddist Björn í lögréttu að hvor þeirra sem kvæði nokkuð í heyrn öðrum, að sá skyldi óheilagur falla. Og lofuðu þeir það er ráða áttu og þótti vænna að þeir mundu firr sauri á ausast og fóru við svo búið heim. Var nú kyrrt að kalla.