Bjarnar saga Hítdælakappa/20
Um vorið fór Björn að reka geldinga sína neðan af Völlum og upp eftir dalnum þeim megin sem Húsafellsbær er og húskarlar hans með honum og sáu kolreyk í skóginn og heyrðu manna mál, hlýddust um hvað þeir mæltu. Þorkell Dálksson og húskarl hans ræddu um mál þeirra Þórðar og Bjarnar og um verka þann er hvor jós á annan og það var með mörgu móti og þokkar húskarlinn heldur með Birni en Þorkell með Þórði.
En þann veg var farið að þeir þrættu um hvor háðulegar hefði kveðið til annars. En þá hafði Björn eigi miklu áður ort flím um Þórð og var þá ærið heyrumkunnigt nokkurum mönnum. En þau voru þar efni í að Arnóra móðir Þórðar hefði etið þann fisk er hann kallaði grámaga og lét sem hann hefði fundist í fjöru og hefði hún af því áti hafandi orðið að Þórði og væri hann ekki dála frá mönnum kominn í báðar ættir. En þetta er í flíminu:
- Fiskr gekk á land
- en flóð á sand,
- hrognkelsi líkr,
- var á holdi slíkr.
- Át einaga
- yglr grámaga,
- meinblandið hræ,
- mart er illt í sæ.
- Óx brúðar kviðr
- frá brjósti niðr
- svo að gerðu eik
- gekk heldr keik
- og aum í vömb,
- varð heldr til þömb.
- Sveinn kom í ljós,
- sagt hafði drós
- auðar gildi
- að hún ala vildi.
- Henni þótti sá
- hundbítr, þar er lá,
- jafnsnjallr sem geit
- er í augun leit.
Nú segir húskarlinn að honum þótti Þórður illt af fá, bæði um kveðskap og allt annað, og kvaðst ekki jafnillt annað heyrt hafa sem Grámagaflím er Björn hefir ort um Þórð.
Þorkell kvað þó miklu háðulegri Kolluvísur er Þórður hefir ort um Björn.
Húskarl kvaðst hana aldrei heyrt hafa „eða kanntu vísuna?“
„Eigi þykir mér örvænt að eg kunni en ekki er mér um að kveða. Og er það af tekið og svo var mælt að sá skyldi óheilagur falla er hana kvæði í heyrn Birni. Er þetta þarfleysa þótt hann heyri eigi.“
„Duga mun þér,“ segir húskarl. „Mér er á forvitni mikil en nú mun Björn ekki heyra.“
Þeir eigast við lengi. Fer Þorkell undan en húskarl eftir, kvað nú fá vera um að sjá. Síðan lætur Þorkell að eggjast og kveður vísuna.
Þá hleypur Björn fram að þeim og kvað fleira mundu til verkefna en kenna Kolluvísur „eða hvort er,“ segir hann, „að þú manst eigi að sá skyldi óheilagur falla er kvæði vísuna, eða vildir þú engan gaum að gefa?“
Þorkell kvaðst ætla að hann mundi standa á hleri „og er ekki þínlegt,“ segir hann, „enda hygg eg að ekki munir þú sá konungur yfir mönnum að eigi munir þú láta menn fara frjálsa fyrir þér,“ og kvaðst slíkt eigi vilja.
Björn mælti: „Eigi mun eg yfir öðrum konungur ef eg er eigi yfir þér,“ og hjó hann banahögg.
En húskarl fór heim og sagði Dálki tíðindin. Hann harmar mjög son sinn og þótti ósýnilegt um bætur en hafði áður ætlað hjá að sitja málum Þórðar og Bjarnar.
Nú fer Björn heim og hefir mart manna með sér fyrst eftir vígið.
Dálkur fer á fund Þórðar Kolbeinssonar og sagði honum vígið og sakirnar og þótti Þórði mjög af sér hlotist hafa og bætti hann Dálki fébótum og tók við málinu til sóknar er eigi kæmu sættir á en Dálkur skyldi fylgja Þórði um eftirmál slíkt er hann mætti. Og eftir um vorið leitar Dálkur um sættir við Björn en hann svarar vel og neitti eigi að bæta.
Eftir það býr Þórður mál til þings á hendur Birni. Og er menn koma til þings þá vill Þórður halda fram vígsök en Björn fékk vörn í málinu og bar þá vörn fram að svo hefði mælt verið að sá skyldi óheilagur falla er vísuna kvæði svo að hann heyrði. En hann kvaðst heyrt hafa er Þorkell kvað og kvaðst fyrir þá sök drepa hann. Og hlýddi vörn sú og ónýttist málið fyrir Þórði.