Bjarnar saga Hítdælakappa/22

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search
Bjarnar saga Hítdælakappa höfundur óþekktur


Einn vetur vart það sagt að Björn hafði skógarmenn nokkura með sér og lét þá virki gera um bæ sinn. Og um sömu skógarmannabjörg sótti Þórður Björn og hugðist að réttast ef hann mætti, er Björn hafði ónýtt mál fyrir honum, og hugðist nú vera mundu saksælli. Björn svarar fyrir þeim á alþingi og kvað Þórð nú með réttu ganga og satt mæla og kvaðst eigi vilja synja laga um þetta mál og kvaðst vilja bæta fé fyrir þetta mál. Þeir sættust hér um og galt Björn slíkt sem gert ver.

Svo bar að nokkuru síðar að Þórður Kolbeinsson barg tveimur skógarmönnum og fékk vist í Hraundal að Steinólfs er átti Þórhöllu Guðbrandsdóttur.

Björn spurði þetta, reið heiman og til sels Steinólfs og hitti mann þann í Grjótárdal er þar bjó og Eiríkur hét og gaf honum til kníf og belti að hann segði honum þá er skógarmenn færu til skips þeir er hjá Steinólfi voru. Hét hann honum því og hélt vörð á síðan. En Þórður ætlaði að koma þeim utan og fá þeim fé nokkuð, þóttist þá leysa þá best af hendi. Og það hafði Björn spurt að þann veg var til ætlað.

Nú kemur þar þeir fara á leið til skips, búast um kveldið og fara um nóttina. Og er Eiríkur varð var við ríður hann upp í Hólm og segir Birni en hann brá við þegar og reið eftir þeim en leið þeirra lá út yfir Hítará. Björn ríður eftir hart og hittir þá um nóttina áður en þeir koma yfir ána og er skammt frá að segja að Björn drap þá báða, dró þá síðan undir klett einn og kasaði. Hann hafði heim fjárhlut þann er þeir höfðu haft. Þórður átti hrossin er þeir fóru með.

Og ofanverða nótt ríður Björn heiman og hefir hrossin með sér. Hann kom svo snemma á Hítarnes að menn voru eigi upp risnir og lét Björn þar laus hrossin er skógarmenn höfðu haft, hittir síðan Þórð og mælti:

„Það er þér að segja að eg hefi drepið skógarmenn þína þá er þú hefir á hendur tekist. Nú með því að þér mislíki er það ráð að standa upp og hefna þeirra.“

Þórður mælti: „Að réttu máttu kappi heita,“ segir hann.

Björn mælti: „Hvað skal að nafnfesti?“

Þórður kvað hann mundu hafa fé það er hann tók af skógarmönnum.

Nú skilja þeir að sinni og ríður Björn heim. Og kemur enn sá orðrómur á að Þórði hafi þetta eigi orðið til virðingar. Þykir honum þungt veita.