Fara í innihald

Bjarnar saga Hítdælakappa/26

Úr Wikiheimild

Systir Bjarnar bjó í Knarrarnesi og fór hann þangað um veturinn og var þar þrjár nætur og dreymdi hann hverja nóttina það er honum þótti um vert. Hún spurði áður þau skildust hvað fyrir hann hefði borið en hann kvað vísu þessa:

Draum dreymdumk nú, Nauma
Nið-brands skarar landa,
koma mun Yggr á eggjar
enn bragsmíðar kenni,
báðar hendr í blóði,
braut kaldhamars nauta,
mér of kenndr í mundum
Mæringr roðinn væri.

Þórður hafði spurt um för Bjarnar og fer á leið hans með níu menn og situr fyrir honum við Hítará.

Björn fer heimleiðis og sér menn fyrir við ána og þykir nú að sýnu ganga að Þórður mun vera. Hann býst við, rétt sem hið fyrra sinn, og vill enn við nema þótt liðsmunur sé mikill.

Og er hann kom að þeim sækja þeir að honum öllum megin og fær hann eigi hlíft sér og koma þeir á hann sárum og sér hann að honum mun ekki svo búið duga. Síðan hljóp hann út á ána og svam yfir ána með vopn sín. Var skjöldurinn á baki honum. Austmaður var með Þórði og skaut spjóti eftir Birni og kom í skjöld hans.

Og er Björn kom af ánni skaut Kolbeinn, sonur Þórðar, spjóti yfir ána til Bjarnar og kom í lær honum en Björn tók spjótið og skaut yfir ána til þeirra og varð maður fyrir og flaug í gegnum hann og tók Kolbein Þórðarson er sat að baki honum og höfðu báðir bana.

Þar skilur með þeim. Fer Björn heim. Konu hans féll nær er hún sá hann blóðugan heim koma og ætlaði að mikið mundi að orðið en hann kvað ekki saka mundu og varð heill er skammt leið. Þórði líkaði stórilla.