Bjarnar saga Hítdælakappa/27

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search
Bjarnar saga Hítdælakappa höfundur óþekktur


Þorsteinn hét maður og var Kuggason. Hann bjó í Ljárskógum. Hann var auðigur maður að fé og vel kynjaður og þótti vera ójafnaðarmaður. Hann var mægður við göfga menn og góða drengi. Þorfinna hét kona hans og var næstabræðra Þórdísi, konu Bjarnar.

Þeir Þórður Kolbeinsson og Dálkur skoruðu á Þorstein um liðveislu móti Birni, þótti sér þungt veita vilja móti Birni.

En Þorsteinn kvaðst þá eigi við látinn að sinni „þætti mér þá á hann best máli að fylgja að þið fáið Birni nokkura sök nýja og mun það hægt því að eg veit að maðurinn er ekki sakvar og mun eg þá veita ykkur lið.“

Nú þótti Þórði vænt horfa. Og fyrir þessi vinganarheit Þorsteins býður Dálkur honum til jóladrykkju og bað hann vera svo fjölmennan sem hann vildi.

Þetta var um vorið fyrir þing. En er menn komu af þingi um sumarið þá héldu menn vörðu á sér og tókust af mjög héraðsfundir og vildu menn nú varir um vera að þeir fyndust miður en meir, Þórður og Björn, en á er nú kyrrt.

Um veturinn eftir fyrir jólin bjóst Þorsteinn til ferðar til að sækja jólaveislu til Dálks og ríður nú á Ströndina út til Þorgeirs Steinssonar, frænda síns, á Breiðabólstað og latti hann Þorstein suðurferðar ef hann vildi hans ráð hafa. Þorsteinn vill ekki annað en fara og fór hann með tólf menn. Þar var Þorfinna kona hans með honum. Hún var dóttir Vermundar úr Vatnsfirði. Þau fóru á Dunkaðarstaði til gistingar, til Össurar föður Kálfs, en fara um daginn eftir suður á Hnappafellsheiði en gistu á Hafursstöðum í Hnappadal. Þar bjó sá maður er Hafur hét. Um morguninn voru tvær leiðir fyrir um Hellisdalsheiði, sá gengur af Klifsdal, og fóru þau þá leið, upp Hellisdal en ofan Klifsdal. Hann gengur gegnt bæ Bjarnar í Hólmi.

Veðrið gerði illt, snæfall mikið. Þau koma ofan síð að stakkgarði er Björn átti er stóð á Hjöllum og var þá fok mikið. Þar var fyrir maður og bar út hey og gaf hrossum Bjarnar. Kvöddust þeir og spurðu tíðinda.

Síðan mælti Þorsteinn: „Viltu segja oss leið ofan um hraun?“

Húskarlinn mælti: „Ekki ætla eg að heimamenn Bjarnar eigi þér vingan að launa og mun eg eigi það gera.“

Þorsteinn mælti: „Hvað mun þá varða þó að þú farir nauðigur ef þér þykir sá betri.“

„Það munuð þér mega,“ segir húskarl, „ef þér viljið.“

Veðrið versnaði bæði af foki og frosti. En húskarl var fyrr allur í brott en þeir fyndu og fór hann heim og segir Birni að hann þóttist úr öngum aka og kvað Þorstein Kuggason hitta sig og þau tólf saman og vilja neyða sig til leiðsagnar.

Björn mælti: „Ef Þorsteinn er svo vitur sem hann er harður og kappsfullur þá mun hann hér koma í kveld og hætta sér eigi þar sem nú er hann. En ef hann fer upp í dalinn gegn veðrinu og niður um hraun um vötn og torfærur þá ferst honum eigi vel og látum svo sem hann komi hér í kveld.“

Þorfinna reið en þeir gengu og voru þrekuð því að þau höfðu villt farið um daginn á heiðinni og sjá þetta að húskarl var allur í brott. Ræddust þeir við hvað þá skal til ráða taka. Veðrið versnaði að eins en náttmyrkur á við sig.

Þorfinna mælti: „Ef yður sleppur því meir að festa hendur á Birni en á húskarli hans sem hann er meiri fyrir sér þá verður eigi för yðar einkargóð og veit eg að Þorsteini þykir einsætt að vera honum mótsnúinn. En mér þætti ráðlegt að virða tengdir við Þórdísi næstabræðru mína en óráðlegt að hætta sér úti hjá bæ Bjarnar en þó lítilmannlegt og mjög undir hann lagið hvernin hann vill í höndum hafa. Förum heldur þangað og ef vér sækjum hann heim þá höfum vér þar góðan beina. Er hann drengur svo góður.“

Þorsteinn var þess alltrauður og fór þó. Og litlu síðar sjá þau mann hjá öðrum stakkgarði og var þar Sigmundur húskarl Bjarnar. Þorsteinn bað hann vísa sér veg ofan til Húsafells.

Hann segir: „Ekki kann eg að vísa mönnum veg í foki eða náttmyrkri.“

Hann sté þá á bak Hvítingi um síðir og reið fyrir og fylgdi Þorfinnu og koma að Hítará og var hún upp gengin mjög og urðu þeir votir á ánni. Og þá grunaði Þorstein nokkuð um leiðina, hvern veg hann reið fyrir, og var sem hann grunaði að hann fór þá leið er heim lá í Hólm en Björn var nær með þrjá tigi vígra karla. Og var þeim Þorsteini villifært til bæjarins því að skammt var eigi. Hann stóð undir Hólmsfjalli. En heimamaður Bjarnar reið fyrir allt að garði.

Og er þau koma þar og drepa á dyr þá mælti Björn við húskarl þann er hjá stakkgarðinum hafði verið að hann gengi út og byði Þorsteini þar að vera ef hann væri kominn „en eg get,“ segir Björn, „að honum þykir þú eigi ráðandi og lítið gott veita mega og munu menn mæla að sá laði hann sem ráðin á. Þú segir að þínu boði mun hann hlíta verða eða fara brott ella.“

Svo gerði hann sem mælt var og fór sem Björn gat að Þorsteinn kvaðst eigi að honum mundu laðorð þiggja og bað þann bjóða sér er ráðin átti. Húskarl bað hann þetta þiggja eða fara í brott ella. Þetta þá Þorsteinn því að hann sá eigi yfir að þeir kæmust til bæja ef þeir færu brott.

Og er þeir komu inn var þeim heilsað og síðan borð tekið. Eigi voru þar eldar gervir né skipt um klæði og voru þeir votir og frernir.

Björn spyr tíðinda og heldur tómlega, af engri alúð, en konur unnu Þorfinnu góðan beina.

Þorsteinn velkti mjög ráðin fyrir sér hvort þeir skyldu eigi brott um nóttina, þótti allt af óþokka við sér tekið. En Björn kvaðst engan mann mundu til fá að fylgja þeim í foki og náttmyrkri en kvað óvandlaunaðan beina þann er hann veitti þeim um nætur sakir.

Feldir voru þeim fengnir yfir sér því að skóklæði þeirra voru frerin og máttu þeir eigi úr komast er engi var eldurinn ger. Engi voru þeim og boðin þurr föt. Ostur og skyr var að náttverði því að eigi var þá enn lögtekin fasta.

Björn spurði Þorstein: „Hvern veg kalla menn slíka vist í yðvarri sveit?“

Hann svarar og kvað menn kalla ost og skyr.

Björn mælti: „En vér köllum slíka vist óvinafagnað.“

Þann veg var næturbjörg þeirra að sumir komust úr brókum og héngu þær um nóttina á þili frernar og lögðust þá til svefns. En um morguninn snemma reis Björn upp og sá til veðurs. Og er hann kom inn lauk hann aftur hurðu. Þorsteinn spurði hvað veðurs væri. Björn kvað gott veður hraustum mönnum. Þorsteinn kallaði á förunauta sína og bað þá búast og gerðu þeir svo. Þorfinnu var fylgt til sætis í stofu.

Og er Þorsteinn kom út var á foraðsveður. Hann mælti: „Ekki er Björn veðurvandur fyrir vora hönd og kann hann eigi lítilmennsku vorri.“

Björn heyrði hvað hann mælti. „Gefa mun enn ölmusulægi til Húsafells,“ segir hann.

Þorsteini óx móður við átekjur hans og fór út í stofuna og hitti Þorfinnu og var þar ein kona önnur. Þar var hljótt og fámálugt og var Björn þar kominn. Frost fylgdi mikið veðrinu og voru stundum heið í himininn upp.

Þá mælti Björn: „Á mun eg gera kosti að þér séuð hér til fjórða dags jóla og skuluð þér hafa allan þann beina er eg kann veita yður en þeir fari í brott er það þykir betra. En eftir mun Þorfinna vera og þeir menn er kalnir eru.“

Þorsteinn kvaðst eigi vilja týna mönnum sínum og kvaðst ætla að það mun vera mega að fara hvergi og kvaðst það kjósa.

„Þá er vel,“ segir Björn, „og tókstu nú það af er ráðlegra var.“

Síðan lét Björn gera elda mikla og bað Þorstein baka sig og þurrka klæði sín.

Þorfinna eggjaði Þorstein að þiggja af Birni allt það er honum var þá betra en áður „og mun héðan ef ekki af dregið við oss en vorkunn á fáleikum hans í fyrstu. Og er þann veg farið hvorumtveggja ykkrum að betur sómir að þið eigist gott við.“

Þorsteinn þekktist nú vel, sat við eldana og förunautar hans og var Björn nú allkátur.

Þá mælti Björn: „Nú hefir þann veg orðið,“ segir hann, „að nauður skyldi yður til nokkuð hér að koma. En eg var fár við yður hið fyrsta kveld að eg ætlaði að þér skylduð önnur hafa ölmælin á Húsafelli en þau að eg bæri friðgælur á yður. En héðan frá skal eg veita yður sem eg kann best“.

Og var nú hinn besti beini og var þar sungið annan dag jóla og sátu þeir þar fjórar nætur af jólunum og þágu vel sem vert var. Og þá létti hríðinni og kvað Þorsteinn þá búast skyldu og svo gerðu þeir.

Björn sendir eftir stóðhrossum sínum er voru hjá stakkgarði því að þeim var gefið um hríðina. Sá hestur var sonur Hvítings og var alhvítur að lit en merarnar allar rauðar. En annar sonur Hvítings var í Þórarinsdal og var sá og hvítur en merarnar svartar. Nú lætur Björn stóðhrossin önnur leiða til Þorsteins og kvaðst vilja gefa honum.

Þorsteinn kvaðst eigi vilja þiggja að svo búnu „því að eg er enn eigi að þér gjafa verður. Og ef eg launa þér eigi beinann þenna er nú hefi eg þegið þá er ósýnt að eg launi þér þótt þú leggir meira til. En ef eg geri að maklegleikum að launa beinann mun eg þiggja hrossin og vita að þau verði enn þá launuð að nokkurri mynd. Eg mun bjóðast til að gera milli ykkar Þórðar um mál yðar því að eigi má svo búið standa. Þó að þú hafir ógilda menn lagið að jörðu og það eigi fjarri lögum þá munuð þér saman lenda nema miðlað sé málum og mun eg segja þér hvað eg mun gera. Þú skalt bæta hvern þeirra nokkuru fé þótt þú bætir minna en að vilja þeirra og þann skakka er þar er á milli mun eg bæta og munu þeir þá þykjast hafa vel vegið.“

Björn mælti: „Því mun eg játa er þú gerir og fel eg þér á höndum allan vanda.“

„Svo er og,“ kvað Þorsteinn, „að eg mun nú undir ganga þetta.“

Björn fylgdi þeim á götu. Hrossin voru fjögur saman er hann gaf Þorsteini.