Bjarnar saga Hítdælakappa/28

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search
Bjarnar saga Hítdælakappa höfundur óþekktur


Nú koma þau Þorsteinn til Húsafells og voru þar komnir áður margir boðsmenn og þar var Þórður Kolbeinsson og var veislan góð. Hann tók vel við Þorsteini og fannst um færra en ella mundi ef hann hefði eigi gist hjá Birni.

Og eftir hinn átta dag fór Þórður heim á Hítarnes og þau Þorsteinn með honum og voru þar þá það er eftir var jólanna. En eftir jólin spyr Þorsteinn Þórð ef hann vill trúa honum til að gera um mál þeirra Bjarnar og kvað hann því játað hafa.

Þórður kvað það vænlegt þykja. „En það þótti mér kynlegt,“ segir hann, „að þú sast hjá Birni um hríðina.“

Þorsteinn kvað þó óvænlegra að ráðast út í foraðsveðrum og stefna sér til örkumla og mönnum sínum.

Vakið hafði Þorsteinn við Dálk um sáttirnar áður hann riði þaðan og var hann ótregur að Þorsteinn skipaði með þeim. Nú kemur hann mjög oft á málið við Þórð og varð hann í öllu tregari en Dálkur. Þorsteinn kvað það þó mundu mál manna að þeir hefðu góða nefnd um sættir þótt hann gerði, kvað ungt vinfengi þeirra Bjarnar. Því kom þar máli við umtölur Þorsteins að Þórður játti og allir þeir hans ummælum.