Bjarnar saga Hítdælakappa/29

Úr Wikiheimild
Bjarnar saga Hítdælakappa
29. kafli

Það er sagt að sáttarfundur er lagður undir Hrauni. Síðan var sent eftir Birni með mikinn flokk manna og var hann úti með lið sitt en þeir Þórður voru inni. Þorsteinn gekk þar um sættir. Og er þeir höfðu við ræðst um stund og innt til um sættina horfðist á með þeim heldur en eigi með umstilli Þorsteins.

Þórður mælti: „Enn er vanvitað nokkuð um sættina.“

Þorsteinn spyr hvað það væri.

„Um það höfum við ekki rætt, verka okkarn Bjarnar. Vil eg nú að við kveðum allt það er hvor okkar hefir ort um annan.“

Þorsteinn kvað það óskylt vera munu.

„Það er eigi þann veg,“ segir Þórður. „Vil eg vita hvor fleira hefir ort um annan og þarf eg eigi um það að verða vanhluta fyrir Birni.“

Það fer nú fram sem Þórður beiddi að hvor þeirra kvað allt það er kveðið hafði um annan og var sú skemmtan sum ein áheyrileg. En svo reynist að Björn hafði ort vísu fleira en Þórður. Hann kvaðst vilja yrkja á móti vísu en Þorsteinn kvað það óskylt og margir aðrir.

Björn svarar og kvaðst eigi vildu að honum yrði um það dæmt að hann leyfði honum að yrkja vísuna „en ef þú vilt eigi láta undan líða,“ segir hann, „þá fresta þú ekki og lát eigi ákveðin orð í vera.“

En Þorsteinn kvað sig eigi meira metinn í þessu en svo af þeim Þórði að þeir vildu ekki þá sætt halda er hann hefir gerva, lést nú nær kunna engan hlut í að eiga þeirra máli.“

Þórður kvaðst ekki mundu að því fara hvort Björn leyfði eða eigi og kvað vísu:

Björn tekr brátt, er mornar,
bráðr við illu ráði.
Grönum er vanr að grípa
glópr við hverju hrópi.
Og hvítmála hælir
hvimleiðr með stjöl breiðan,
sanni firrðr og svinnu,
siti hann vesalstr manna.

„Það megið þér nú heyra,“ segir Björn, „að sú mannfýla vill enga sátt. Eigi skal hann enn þessari vísu hafa á glæ kastað heldur en öðrum,“ og kvað Björn vísu:

Þræta að þú sért betri,
Þórðr, skuld enga vildag,
alls gast enga snilli,
eljun latr á skratti.
Vart höfum verri orta,
vinn eg bjór Háars inna,
sekr glæps, ógnar en ortag
ísbjóðr um þig vísu.

Lokið er upp sættum og fara af þinginu. Fór Þorsteinn á Hítarnes með Þórði og dvaldist þar litla stund. Og er hann fór þaðan fékk hann litlar gjafir af Þórði og þykir Þorsteini Þórður ollað hafa er engar urðu sættir og var heldur í rénun vinátta þeirra, þótti hann lítils virða sín tillög í þessu máli. Þorsteinn fer í Hólm til Bjarnar og er þar nokkura stund.

Og er hann fór á brott leiðir Björn hann á götu upp á Hítardalsheiði og ætla þar að skiljast og ræðast við áður af hugðu og kvaðst Björn mundu þykjast þá hafa hinn betra hlut af málum við Þórð „þar sem eg vildi hafa þinn dóm. En við höfum mælt til vinganar með okkur. Er eg ráðinn til að efna það og vera þinn vinur en hvortveggi okkar á nokkuð sökótt. Nú vildi eg til þess mæla að hvor okkar hefndi annars, sá er lengur lifði, ef við höfum líflát af vopnum eða manna völdum.“

Þorsteinn kvað sér þykja í hvern stað jafnboðið er hann bauð sitt vinfengi „En gerum þar á grein nokkura er þú ræðir um hefndirnar því að nú vita menn gerr en fyrr hvað gera skulu og vil eg það um mæla að hvor okkar taki eindæmi eftir annan eða sektir og fébætur þótt eigi séu manndráp og sómir það betur kristnum mönnum.“

Nú tóku þeir þetta fastmælum að hvor þeirra skal hefna annars eða eftir mæla svo sem þeir séu sambornir bræður. Nú voru stóðhrossin fram leidd að nýju og játaði Þorsteinn nú og kvaðst þiggja vilja fyrir hvern mun og einn. Og voru þar eftir þann vetur hrossin og svo um sumarið eftir og var eigi eftir komið og skyldi Björn þá senda vestur um haustið.

Þorfinnu gaf Björn gullhring og guðvefjarkyrtil er Ólafur konungur hafði gefið Þórði Kolbeinssyni og hann gerði til handa Birni eftir rán í Brenneyjum. Og nú skiljast þau góðir vinir og fara heim hvorirtveggju.

Litlu síðar tók Björn augnaverk og helst hann um hríð og varð honum að því mein en þó batnaði er á leið og drap þó heldur fyrir honum því að hann var síðan þungeygur nokkuð og eigi jafnskyggn sem áður.

En mjög þótti mönnum á einn meið hallast með þeim Birni og Þórði í öllum viðskiptum og unir Þórður stórilla við og þeir menn er að málum stóðu með honum. Er nú orðið vinfengi mikið með Birni og Þorsteini Kuggasyni.