Bjarnar saga Hítdælakappa/33
Nú koma þeir í Hólm og gengur Kálfur í dyngju er Þórdís var fyrir, kona Bjarnar, og segir henni víg Bjarnar „og er hér men,“ segir hann, „við að taka er hann hafði á sér.“
Hún tók við meninu og spurði hvort Þórður er þar. Kálfur kvað hann þar kominn. „Hann vil eg þó hitta,“ segir hún, gengur úr dyngjunni þangað sem Þórður var og kastar til hans meninu og bað hann færa Oddnýju konu sinni til minja.
Síðan ríða þeir ofan eftir dal og komu til Húsafells og var Dálkur þar eftir en Þórður reið á Völlu og var Arngeir heim kominn, faðir Bjarnar. Þórður segir honum tíðindin og báðum þeim hjónum. Hún var úti og þó höfuð barns eins.
Þórður leysti höfuð Bjarnar frá ólum sér og kastaði til Þórdísar móður Bjarnar bað hana vita ef hún kenndi höfuðið og kvað því þá eigi minni þörf að vaska en hinu er hún þó áður.
Hún mælti þá: „Kenni eg höfuðið,“ segir hún, „og kenna mættir þú því að fyrir hinu sama höfði gekkstu oftlega hræddur meðan það fylgdi bolnum. Far nú og fær það Oddnýju og betra mun henni þetta þykja en það hið litla og vesallega er lafir á þínum hálsi.“
Þórði líkaði illa hennar málsemdir, lætur þar eftir höfuð Bjarnar og ríður heim á Hítarnes, segir frá tíðindum og færir Oddnýju menið er Björn hafði átt.
Og er hún sá hné hún aftur og vissi ekki til manna. Og er af henni hóf öngvit þá hafði hún fengið mikla vanheilsu og óyndi og leitaði Þórður mjög margs í að hugga hana og var vel til hennar. En svo gerist með miklu móti að hún var verkjum borin af þessu og var ákafast hinn fyrsta vetur eftir. Henni þótti sér það helst ró að hún sæti á hestsbaki en Þórður leiddi undir henni aftur og fram og gerði hann það, að honum þótti stór mein á vera en vildi við leita að hugga hana. Og um þetta orti hann:
- Móðr verð eg mitt hross leiða,
- mjúk verðra för sjúkrar,
- reið vara fljót, und Fríði
- fjargvefjar dag margan,
- því að hugborgar hvergi
- Hlökk undi sér dökkva,
- mikið stríð var það Móða
- merkis, skins fyr verkjum.
Svo þóttist Þórður mjög fyrir verða fyrir konuna af þessum meinum er á lögðust að menn segja það að heldur kjöri Þórður þá líf Bjarnar ef þess væri kostur og hefði hann slíkar ástir konu sinnar sem áður. Og þótti honum það stór meinun er til þeirra Bjarnar kom allra jafnt saman. Hún mornaði öll og þornaði og tæði aldrei síðan tanna og lifði þó mjög lengi við þessi óhægindi.
Frændur Bjarnar létu gera eftir líki hans og var það jarðað á Völlum að kirkju þeirri er hann hafði þar gera látið Tómasi postula og var niður lagður með klæðum og ræmunni sem fyrr var sagt.