Fara í innihald

Bjarnar saga Hítdælakappa/34

Úr Wikiheimild
Bjarnar saga Hítdælakappa
34. kafli

Nú fara þessi tíðindi um landið víða, víg Bjarnar, og spyr Ásgrímur bróðir hans austur á Rangárvöllu og fer síðan vestur í Ljárskóga að finna Þorstein Kuggason og tekur hann við málinu af Arngeiri karli og búa þeir það um vorið til alþingis, Þorsteinn og Ásgrímur og vinir Bjarnar. En er Ásgrímur fór á brott um veturinn frá Þorsteini þá fer hann í Hólm og varðveitir búið er Björn hafði átt og fór þaðan um vorið í málatilbúnað með Þorsteini og fjölmenntu mjög til þings og svo gerði Þórður og þeir er honum vildu lið veita.

Svo er sagt þá er til þings var komið sendir Þórður menn á laun til Ásgríms með þeim erindum að bjóða honum sæmileg boð og að þeir mættu nú finnast um nóttina og kvaðst honum unna hins mesta sóma af málinu og kvað það skyldugt því að hann var aldrei mót honum þá er mál þeirra Bjarnar voru. Ásgrímur er óvanur að eiga hlut í málaferlum og hittir Þórð um nóttina. Hann kveður Ásgrím blíðlega og ræddust mart við. Þórður var maður orðhagur og sléttmáll og tjáir fyrir honum hve mikið hann var neyddur til þessa verks, segir honum mart frá viðskiptum þeirra Bjarnar hversu skerðan hlut hann hafi lengi borið fyrir honum en kvað Björn nú enn hafa þrjá menn drepið í þeirra síðasta fundi en fjóra örkumlaða „og eru þeir tólf menn,“ segir Þórður, „er að engu er getið til sátt, Óttar og Eyvindur, Þorsteinn Kálfsson, Þorkell Dálksson, skógarmenn tveir, Steinn Guðbrandsson, átti Austmaður, níundi Kolbeinn son minn, Þorvaldur og Þórður Eiðssynir, tólfti Grímur húskarl minn, en Dálkur örkumlaður og allir vér nokkuð sárir. En eg mun bæta þér bróður þinn þremur hundruðum silfurs því að eg ann þér góðs hluta.“

Ásgrímur hlýðir á fortölur Þórðar og játar þessu. Er honum greitt silfrið. Tekur hann við og er heldur hvatað að öllu og var auðsætt hvað til hélt um sættir þeirra, fortölur Þórðar en hvatvísi Ásgríms.

Þorfinnur Þvarason varð eigi fyrr var við en Ásgrímur tók silfrið og gekk út úr búðinni og til Þorsteins Kuggasonar og sagði honum að Ásgrímur mundi ginnast láta fyrir Þórði með leynd til nokkurra sátta, kvað hann vera að telja silfur.

Þorsteinn kvað þetta vera mundu ærið mikið bráðræði og kvað eigi hægt að veita slíkum mönnum lið er svo eru einráðir „en þó má enn eigi vita fyrir hvað Þórði kemur þetta.“

Engan mann varði þessa að Ásgrímur mundi við engan um ráðast og eigi við Þorstein er í var bundinn málinu með honum. Því var Þorsteinn og Ásgrímur fyrir eftirmáli um Björn að aðilinn sá er fyrir öndverðu var, Arngeir karl faðir Bjarnar, var nú hrumur af elli og lét því málin undir þá koma að hann þóttist eigi mega fara til þings fyrir elli og hafði eigi við það vanist að fylgja málum þá er hann var yngri en vissi að Þorsteinn hafði þessu heitið Birni að mæla eftir hann ef þess þyrfti eða sá eftir annan er lengur lifði.

Þorsteinn sendi nú menn til búðar Þorkels Eyjólfssonar frænda síns og kvaðst vilja hitta hann. Þórður Kolbeinsson var í búð Þorkels og hafði þessa sátt gerva við Ásgrím án ráði Þorkels því að hann vissi ekki til þessa.

Það er nú frá Þorsteini að segja að hann dró saman lið mikið og heimti þegar Mýramenn frændur Bjarnar. Nú finnast þeir Þorsteinn og Þorkell. Eru þá með Þorsteini frændur Bjarnar og vinir.

Þá segir Þorsteinn að hann er heitbundinn að hefna Bjarnar eða mæla eftir hann „erum vér nú saman komnir hér, frændur hans og vinir, og er svo að segja það til að vér verðum allir á eitt sáttir um það að ónýta þess sátt er Ásgrímur hefir gert við Þórð.“

„Það hefir oft sýnst,“ segir Þorkell, „að frændur Bjarnar hafi eigi rétt fylgt málum hans og svo vænti eg að mönnum muni álítast ef sakaraðilinn skal eigi ná að hafa þá sætt er honum hugnar.“

„Hér er ekki um að tala,“ segir Þorsteinn. „Eg einn vil ráða málalyktum, bæði mannsektum og fégjöldum sem eg er í bundinn eða láta líf mitt ella. Snúst þú í mót ef þú vilt kappi þreyta. Ærið höfum vér lið. Ósýnt að þeim sigrast betur er í mót standa enda munum vér þar til hætta að þeim kosti hvort vér náum lífi Þórðar eða þeirra annarra er vógu Björn.“

Þeir Þorkell og Þorsteinn voru bræðrungar að frændsemi og sá Þorkell að þeim samdi eigi svo mjög að þreyta en vissi kapp Þorsteins. En Þórður Kolbeinsson hafði eigi ráðist fyrr við hann um sættina og vill hann leita mála fyrir hönd Þórðar en ganga eigi í bardaga fyrir hans sakir móti frændum sínum og kvaðst Þórð vilja undan sektum mæla sjálfan og svo fégjöldum meirum en áður galt hann. En Þorsteinn geri á hendur öðrum mönnum, þeim sem að víginu voru, svo mikið fé og mannsektir sem hann vill sjálfur.

Þorsteinn kvað eigi um að leita að Þórður kæmist undan neinum álögum þar sem af honum hefði allt hið illa staðið um þetta mál.

Þorkell mælti: „Það vil eg þá að fébótum komi við fyrir mál þessi og mælum við um og sættumst á það að Þórður komist undan sektum með fégjaldi.“

Nú kom þar máli að sættir voru nefndar og festar með þeim á þá leið að Þorsteinn og Þorkell skyldu um mæla og skyldi Þórður gjalda fyrir sekt sína slíkt sem Þorsteinn vildi en aðrir menn er að víginu voru skyldu undir ganga bæði sektir og fébætur eftir vilja Þorsteins. Þeir skyldu upp lúka sektinni áður þeir færu af þingi og var svo gert. Mjög hefir verið sem Þorsteinn réði einn gerðinni þegar Þorkell hafði Þórði komið undan sektum, frænda sínum. En ekki sparði hann fé til sakbóta því að ærið var til.

Það er nú gerð þeirra Þorsteins að Dálkur skal taka engar bætur fyrir sig og son sinn og gjalda og ekki fyrir tilför um víg Bjarnar. Kálfur skal og hafa engar bætur sonar síns og vera héraðssekur vestan þaðan, láta jörð sína í Selárdal og fara suður um heiði í átthaga sinn. Þórður skal gjalda Ásgrími þrjú hundruð silfurs sem hann hafði kjörið sér til handa og við tekið. Önnur þrjú hundruð silfurs skal Þórður gefa til sýknu sér en hin þriðju þrjú hundruð til sýknu Kálfi. En frændur Þórðar er féllu við hraunið skyldu óhelgir fallið hafa og svo skógarmenn og þeir menn allir er í fyrirsátum höfðu verið fyrir Birni. Nú eru eftir tólf menn þeir er greiðlega voru að víginu. Þá gerði Þorsteinn alla sekja og skyldu utan fara hið sama sumar og gefa fé til færingar þeim, mörk fyrir hvern þeirra. En ef þeir kæmust eigi utan sem mælt var þá skyldu þeir alsekir og dræpir hvar sem þeir fyndust.

Nú fara þeir af þingi og tók Þorkell hina seku menn til sín, lét frændur þeirra leggja fé til hjálpar þeim þangað og kemur þeim utan um sumarið. Og nú var sú umræða manna að varla hafi þvílíkt eftirmál orðið um einn mann sem eftir Björn því að þær sættir urðu allar fram að ganga sem Þorsteinn hafði gervar og unir Þórður við stórilla og hans menn þótt þá mætti ekki að hafa. Mýramenn tóku og mikið fé til sátta af Þórði Kolbeinssyni, þeir sem voru frændur Bjarnar.

Arngeir karl fór til Þorsteins Kuggasonar með mikið fé er hann tók við en Þórdís tók af mund sinn og heimanfylgju og fór vestur á Barðaströnd við Breiðafjörð til frænda sinna. En Ásgrímur fór austur á Rangárvöllu með það fé sem hann hlaut og bjó þar síðan. Þórður Kolbeinsson fór heim á Hítarnes til bús síns og unir eigi vel við málalyktir. Tekur nú þaðan af að kyrrast um málin.

Og lýkur hér nú frásögn þessari.