Fara í innihald

Bjarnar saga Hítdælakappa/7

Úr Wikiheimild
Bjarnar saga Hítdælakappa
7. kafli


Það er nú til tíðinda sagt að Þórður Kolbeinsson spyr þau tíðindi að Hrói hinn auðgi, móðurbróðir hans, var andaður. Þórður átti að taka arf eftir hann. Nú kaupir hann skip og ætlar að fara utan á vit fjárins.

Það er sagt frá ferð Þórðar að hann sækir fund Ólafs konungs. Honum var þar vel fagnað. Segir hann konungi vöxtu á um ferð sína. Þorkell var þá þar og túlkaði vel málið við konung að hann fengi fé sitt. Konungur lét gera honum bréf til vina sinna í Danmörk og setti fyrir sitt innsigli. Þá voru þeir með Þórði synir Eiðs, Þorvaldur og Þórður. Þar fór og Kálfur illviti.

Þórður orti drápu um Ólaf konung. Síðan fór hann og færði sjálfur og þá af konungi gullhring og pellskyrtil hlaðbúinn og sverð gott. Þórður spyr í hljóði ef menn yrðu nokkuð varir við Björn. Honum er sagt að hann sé í hernaði og fjölmennur.

Þórður hafði lítið skip. Nokkurir víkverskir menn voru á skipi með honum. Nær þrír tigir manna voru alls á skipinu. Hann kom það sumar til Danmerkur í Hróiskeldu og fékk mikið af fénu þó að miklir spænir væru af telgdir og fóru sunnan um sumarið er á leið en leið hans var um Brenneyjar. Það eru margar eyjar og voru þá lítt byggðar. Þar voru í launvogar og var þar jafnan herskátt af víkingum. Skógur var þar og nokkur í eyjunum.

Björn fór þá hafna á milli og voru síð dags þar er fram gengu eyrar tvær af Brenneyjum. Önnur heitir Þrælaeyr en önnur Oddaeyr. Þar lagði Björn skipum sínum.

Það sama kveld kom Þórður við eyna og lá þar skipi sínu um nóttina. Síðan koma menn tveir fram á eyna og spurðu hver skip ætti.

Einn skjótorður maður og heldur hvatvís segir að Þórður Kolbeinsson átti.

Þórður mælti: „Bráðorður maður ertu,“ segir hann, „og seg að Þórar víðförli eigi skipið,“ og svo gerir hann.

Eyjarmaðurinn mælti: „Gerið hvort sem þér viljið, ljúgið eða segið satt.“

Þeir menn hurfu aftur en það voru reyndar menn Bjarnar. Lá hann þar öðrum megin við eyna með níu skip.

Þórður mælti er þeir voru í brott: „Þetta munu verið hafa njósnarmenn nokkurra manna og mun eg ganga á eyna og vita ef eg verð nokkurs var.“

Björn mælti til Auðunar þá er menn hans komu aftur og sögðu til Þórðar: „Kenna þykist eg að frásögn þeirra skipið að Þórður mun eiga og er maklegur fundur vor.“

Þórður gengur nú upp og Kálfur illviti og nokkurir menn aðrir og er þeir voru skammt komnir upp á eyna mælti Þórður: „Nú skuluð þér aftur hverfa til skips. Og nú vil eg að þér segið að eg væri eftir í Danmörk og eg næði eigi ellegar fénu ef svo ber til sem eg ætla að Björn muni eigi fjarri vera og komi hér. En eg mun forða mér.“

Kálfur illviti segir: „Þetta mun gott ráð ef þú verður eigi fundinn en ella mun þér að verða mikil svívirðing. Vildi eg heldur að vér verðum fé vort og fjör meðan vér mættum.“

„Hitt er ráðlegra,“ segir Þórður, „öllum mun friður gefinn nema mér.“

Hann gekk nú á eyna og settist undir bakka í hrísrunni einum og sá hann til skips. Hann hafði kufl einn ystan klæða.

Nú biður Björn sína menn vopna sig og vitja kaupmanna, lét það mundu satt sem fyrst var sagt var sagt að Þórður Kolbeinsson mundi stýrimaður vera. Þeir gera svo sem Björn mælti, ganga upp á kaupskipið og sýnist lið vera höfðingjalaust. Spyr Björn hver forráðandi skipsins væri.

Þeir kunna enga þökk þarkomu Bjarnar en þeir fóru svo með sögunni sem Þórður hafði mælt.

Björn trúir því eigi og vill leita um eyna. „Ey er lítil og munum vér finna hann ef hann er þar.“

Nú rannsaka þeir fyrst skipið og finna hann eigi. Síðan fóru þeir um eyna og voru nær tvö hundruð manna í leitinni. Og er þeir Björn koma þar að sem Þórður sat þá sprettur hann upp og heilsar vel Birni.

„Hér ertu nú Þórður,“ segir Björn, „en eigi í Danmörk. Eða hví skal nú svo lágt sitja? Seg oss nú tíðindi af Íslandi. Löngu fundumst vér næst.“

„Mart kann eg segja tíðinda,“ segir Þórður.

„Hvar varstu í vetur?“

Þórður svarar Birni, hann segir: „Með konungi í Noregi.“

Björn segir: „Hvar var konungur í landi?“

„Norður var hann,“ segir Þórður, „og er voraði fór hann austur til Víkur og mun hann þar nú vera.“

Björn mælti: „Hvað segir þú nýjast af Íslandi?“

„Andlát Skúla,“ segir Þórður, „en líf föður þíns og fóstra.“

Björn mælti: „Tíðindi eru það mikil er Skúli er andaður. Eða hvort er það satt að þú hefir fengið Oddnýjar Þorkelsdóttur litlu síðar en við skildum?“

Þórður kvað það satt vera.

Björn mælti: „Hversu trúlega þóttist þú halda við mig vináttuna?“

Þórður segir: „Eg vissi eigi að hún skyldi lengur bíða þín en þrjá vetur.“

Björn mælti: „Eigi gerir þér nú undanherkjun sjá því að eg veit hér áður allan sannleik um þetta.“

Þórður bauð honum yfirbætur.

„Hitt mun ráðlegra,“ segir Björn, „að þú sért drepinn og lúki með okkur.“

Nú lýkur með því að Björn gefur þeim lífsgrið en af þeim tók hann fé og svo knörrinn. Síðan fló hann Þórð af gripunum og gerði hann sem hraklegast ráð hans allt. Þórður mælti til að hafa gripina og náði ekki. Síðan lét Björn Þórð og föruneyti hans allt fara á knarrarbátinn með klæðum sínum og flytja svo til meginlands.

Og áður þeir skiljast mælti Björn: „Þórður,“ kvað hann, „nú er þér ger nokkur hneisa og svívirðing og fjárskaði og er þó að öllu minni en þú ert maklegur. Far nú til Orkneyja og dvelst lítt við Noreg en eg mun fara á konungsfund og met eg hann svo mikils ósénan að fyrir það drep eg þig eigi er þú varst gestur hans. Og hvar sem eg hitti þig héðan frá skal þér hvergi óhætt nema mjög verði annan veg en mig varir.“

Þeir Þórður gengu nú á bátinn og svo hinir víkversku menn og vildu þeir til eigna sinna. Þeir höfðu vopn sín. Síðan hittu þeir konung og sögðu honum þessi tíðindi um ránið og sakargiftir við Þórð.