Fara í innihald

Bjarnar saga Hítdælakappa/8

Úr Wikiheimild
Bjarnar saga Hítdælakappa
8. kafli


Eftir þetta átti Björn stefnu við Auðun félaga sinn og kvaðst vilja fara til fundar við Ólaf konung „og vil eg eigi reiði hans yfir mér fyrir kaupmannarán.“

Auðun kvaðst vilja fylgja honum því að honum léku landmunir að staðfestast í Noregi.

Nú kom þeir á konungsfund og létu eftir menn sína flesta og svo fé og skip. Þeir komu þrem nóttum síðar á konungsfund en þeir Þórður. Þeir Björn gengu tólf saman í höllina þá er konungur sat yfir drykkju en fimm tigir manna voru eftir við skip. Björn gekk fyrir konung og kvaddi hann vel. Konungur spyr hver hann sé. Hann segir til sín.

Konungur segir: „Er eigi þetta sökudólgur þinn Þórður?“

En hann kvað víst þann vera.

Konungur kvað hann djarfan mann vera er hann þorði á hans fund að fara og bað þá taka og setja í járn.

Björn kvað það hægt mundu að gera en kvað þó sér þykja trautt af sakleysi við Þórð.

Konungur kvað víkingum auðfengnar sakir við kaupmenn er þeir girnast fé þeirra.

Björn segir þá og tekur til að upphafi um viðskipti þeirra Þórðar og sakir þær er hann þóttist eiga við Þórð Kolbeinsson.

Konungur spurði Þórð ef svo var sem Björn sagði.

Þórður kvað sannspurt áður andlát Bjarnar, áður hann fengi konunnar.

„Eigi hefir þó sú raun á orðið,“ segir konungur, „og þykir mér Björn eiga miklar sakir við Þórð. Eða viljið þið nú,“ segir konungur, „að eg geri í millum ykkar?“

En því játuðu þeir báðir og voru þá grið sett. Og síðan gerði konungur konuna til handa Þórði og öll fé hennar en Birni jafnmikið fé af þessu, er hann hafði tekið upp fyrir Þórði, og var talið með fé Oddnýjar, erfð er hún átti eftir föður sinn. Svívirðingar skulu jafnmikið mega, Fjárreyta og konutak. Björn skyldi hafa guðvefjarkyrtil og hring fyrir þann er Þórður tók með Oddnýju. Þórður skyldi hafa sverð það er konungur hafði gefið honum og kvað þeim mundu betur fara er vel héldi þessa sætt.

Öll fé Þórðar hlaut Björn sem hann hafði þar nema skip en hver kaupmaður skal hafa sín fé er Björn hafði upp tekið fyrir.

Þórður var um veturinn með konungi og svo Kálfur og Eiðssynir en Björn fór í Vík austur og þeir Auðun, er Björn hafði í frið þegið við konung, og voru þar um veturinn. En að sumri fór hann til Ólafs konungs og var með honum tvo vetur síðan.

En Þórður fór til Íslands um sumarið og gat ekki um skipti þeirra Bjarnar hver verið höfðu austur. Ólafur konungur gaf Þórði viðarfarm á skip og fór Þórður út hingað og heim til bús síns.