Blaðsíða:Þúsund og ein nótt (bindi 2).pdf/20

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search
Þessi síða hefur verið villulesin


og er ég því viss um, að hún muni spekja unggæðis ofsa þinn, sem annarskostar gæti steypt þér í glötun.“ Hafði Núreddín ekki vænzt svo mikillar mildi; þakkaði hann föður sínum svo innilega sem hann gat og var fús að vinna eiðinn. Voru þau af hjarta ánægð hvort með annað, hann og Persamærin fagra, og þótti föður hans vænt um, að svo vel féll á með þeim. Lét vezírinn ekki konunginn minna sig á erindi það, er honum hafði verið á hendur falið, heldur minntist hann sjálfur á það oft og einatt og sagði konungi, hverjum vandkvæðum það væri bundið, að leysa það svo af hendi, að hann mætti vel við una. Fór honum þetta svo laglega úr hendi, að konungur varð því smámsaman afhuga. Sawy hafði reyndar heyrt ávæning af því, er gerzt hafði, en Kakan var svo miklu kærari konunginum, að Sawy þorði hvergi að hreyfa við því máli.

Þannig rættist betur úr vanda þessum en Kakan hafði búizt við, en rúmu ári síðar tók hann sótt þá, er hann leiddi til bana; en það atvikaðist svo, að hann varð að ganga snögglega úr baði vegna áríðandi starfa, er kölluðu að honum. En er hann fann að hann var aðfram kominn, sagði hann við Núreddín, sem alltaf var hjá honum: „Son minn! Ég veit ekki, hvort ég hef varið auðæfum þeim, sem guð veitti mér, eins vel og vera skyldi. Þú sér að þau hjálpa mér ekki til að umflýja dauðann. Þess eins bið ég þig nú á deyjanda degi, að þú munir það, sem þú lofaðir mér Persameynni fögru til handa. Ég dey glaður í því trausti, að þú munir efna það.“ Mælti hann því næst fram báðar trúarjátningar sínar: „Enginn guð er til nema guð,“ og „Móhamet er spámaður guðs,“ gaf upp öndina og hvarf til samneytis réttlátra. Kvað þá höllin við af kveinstöfum, og tregaði konungur hann sem vitran ráðgjafa og dyggan og trúlyndan þjón, en borgarmenn hörmuðu hann sem velgjörðarmann sinn og verndarmann, og jafnvel börnin á borgarstrætunum grétu hann. Var útför hans svo virðuleg, að engin hafði slík verið í Balsora; emírar, vezírar og öll stórmenni í hirðinni kepptust um að bera líkkistu hans til grafar, og fylgdu borgarmenn honum grátandi, hvort sem þeir voru vellríkir eða bláfátækir.

Núreddín lét nú í langan tíma bugast af áköfum harmi út af föðurmissinum og talaði ekki einu sinni við beztu vini sína. Það var einhvern dag, er hann sat í húsi föður síns sæla, að drepið var á dyr; gekk hann þá til dyra og lauk upp. Var þar kominn einn af einkavinum föður hans; gekk hann inn og tók í hönd Núreddíns, svo mælandi: „Herra! sá er ekki dáinn, sem lætur eftir sig slíkan son sem þér eruð. Hressið nú upp hugann; þér hafið helgað minningu föður yðar alla þá sæmd, er skylt var,

12