Blaðsíða:Alþjóðasamningur um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi.pdf/7

Úr Wikiheimild
Þessi síða hefur verið prófarkalesin

Lagasafn (útgáfa 140b) – Íslensk lög 11. september 2012 Nr. 10 1979 7

honum eftir afhendingu þrítugasta og fimmta fullgildingar- eða aðildarskjalsins til varðveislu og skal þá þessi samningur öðlast gildi gagnvart því ríki þremur mánuðum eftir þann dag sem það afhendir sitt eigið fullgildingar- eða aðildarskjal til varðveislu.

50. gr.

Ákvæði samnings þessa skulu ná til allra hluta sambandsríkja án nokkurra takmarkana eða undantekninga.

51. gr.

1. Hvert það ríki sem aðili er að samningi þessum má bera fram breytingartillögu og fá hana skráða hjá aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna. Aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna skal þá koma frambornum breytingartillögum til ríkja sem aðilar eru að samningi þessum ásamt tilmælum um að þau tilkynni honum hvort þau séu því hlynnt að haldin verði ráðstefna aðildarríkjanna til þess að athuga og greiða atkvæði um tillögurnar. Ef að minnsta kosti einn þriðji aðildarríkjanna er hlynntur slíkri ráðstefnu skal aðalframkvæmdastjórinn kalla saman ráðstefnuna undir umsjá Sameinuðu þjóðanna. Sérhver breytingartillaga sem samþykkt er af meiri hluta þeirra aðildarríkja sem viðstödd eru og greiða atkvæði á ráðstefnunni skal lögð fyrir allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna til samþykktar.
2. Breytingartillögur skulu öðlast gildi þegar þær hafa verið samþykktar af allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna og af tveimur þriðju hlutum ríkja þeirra sem aðilar eru að samningi þessum í samræmi við stjórnskipunarhætti þeirra hvers um sig.
3. Þegar breytingartillögur öðlast gildi skulu þær vera bindandi fyrir þau aðildarríki sem hafa samþykkt þær, en önnur aðildarríki skulu áfram bundin af ákvæðum þessa samnings og sérhverri fyrri breytingartillögu sem þau hafa samþykkt.

52. gr.

Án tillits til tilkynninga samkvæmt 5. mgr. 48. gr. skal aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna tilkynna öllum þeim ríkjum sem vikið er að í 1. mgr. þeirrar greinar um eftirfarandi atriði:

(a) undirskriftir, fullgildingar og aðildir samkvæmt 48. gr.;
(b) gildistökudag þessa samnings samkvæmt 49. gr. og gildistökudag sérhverra breytingartillagna samkvæmt 51. gr.

53. gr.

1. Samningi þessum skal komið til varðveislu í skjalasafni Sameinuðu þjóðanna og eru textarnir á kínversku, ensku, frönsku, rússnesku og spönsku jafngildir.
2. Aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna skal senda öllum þeim ríkjum sem vikið er að í 48. gr. staðfest afrit samnings þessa.

Valfrjáls bókun við alþjóðasamning um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi.

Ríki þau sem aðilar eru að bókun þessari,
hafa í huga að, til þess að ná frekar markmiðum samningsins um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi (hér á eftir kallaður samningurinn) og koma frekar í framkvæmd ákvæðum hans, væri við hæfi að gera mannréttindanefndinni sem stofnuð er í IV. hluta samningsins (hér á eftir kölluð nefndin) kleift að taka við og athuga, eins og gert er ráð fyrir í bókun þessari, erindi frá einstaklingum sem halda því fram að þeir hafi orðið fyrir skerðingu á einhverjum þeirra réttinda sem lýst er í samningi þessum,
hafa orðið ásátt um eftirfarandi:

1. gr.

Aðildarríki að samningnum sem gerist aðili að þessari bókun viðurkennir lögbærni nefndarinnar til þess að veita móttöku og athuga erindi frá einstaklingum, sem falla undir lögsögu þess, er halda því fram að þeir hafi orðið fyrir skerðingu af hálfu þess aðildarríkis á einhverjum þeirra réttinda sem lýst er í samningnum. Nefndin skal ekki veita erindi móttöku ef það varðar ríki sem aðili er að samningnum en er ekki aðili að þessari bókun.

2. gr.

Að áskildum ákvæðum 1. gr. mega einstaklingar, sem halda því fram að einhver þeirra réttinda sem upp eru talin í samningnum hafi verið brotin á þeim, og hafa leitað allra tiltækra leiða til úrbóta innan lands, leggja skriflegt erindi fyrir nefndina til athugunar.

3. gr.

Nefndin skal telja óleyfilegt hvert það erindi sem lagt er fram samkvæmt þessari bókun sem er nafnlaust eða sem hún telur vera misnotkun á réttinum til framlagningar slíks erindis eða ósamrýmanlegt ákvæðum samningsins.

4. gr.

1. Að áskildum ákvæðum 3. gr., skal nefndin vekja athygli þess ríkis, sem aðili er að bókun þessari, og ætlað er að hafi skert eitthvert ákvæði samningsins, á sérhverju erindi sem lagt hefur verið fyrir nefndina samkvæmt bókun þessari.
2. Móttökuríkið skal leggja fyrir nefndina innan sex mánaða skriflegar útskýringar eða greinargerðir sem skýra málið og úrbót þá, ef einhver er, sem það ríki kann að hafa gert.

5. gr.

1. Nefndin skal athuga erindi þau sem hún hefur tekið við samkvæmt þessari bókun í ljósi allra þeirra skriflegu upplýsinga sem einstaklingurinn og aðildarríkið sem í hlut á hafa látið henni í té.
2. Nefndin skal ekki athuga neitt erindi frá einstaklingi nema hún hafi fullvissað sig um:
(a) að ekki sé verið að rannsaka sama mál eftir öðrum aðferðum alþjóðlegrar rannsóknar eða sáttar;
(b) að einstaklingurinn hafi leitað allra tiltækra leiða til úrbóta innan lands; þetta skal ekki gilda ef ráðstafanir til úrbóta eru dregnar óhæfilega á langinn.
3. Nefndin skal halda lokaða fundi þegar hún athugar erindi samkvæmt þessari bókun.
4. Nefndin skal koma sjónarmiðum sínum á framfæri við ríkið sem í hlut á og einstaklinginn.

6. gr.

Nefndin skal í ársskýrslu sinni samkvæmt 45. gr. samningsins birta stutt yfirlit um störf sín samkvæmt þessari bókun.

7. gr. Meðan markmiðum ályktunar 1514 (XV), sem samþykkt var á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna hinn 14. desember 1960 varðandi yfirlýsingu um veitingu sjálfstæðis til handa nýlendum og nýlenduþjóðum, hefur ekki verið náð, skulu ákvæði þessarar bókunar ekki á neinn hátt takmarka þann rétt sem sáttmáli Sameinuðu þjóðanna og aðrir samningar og skjöl Sameinuðu þjóðanna og sérstofnana þeirra veita þessum þjóðum til að bera fram óskir sínar.

8. gr.

1. Þessi viðbótarbókun skal liggja frammi til undirskriftar fyrir hvert það ríki sem undirritað hefur samninginn.
2. Sérhverju ríki sem hefur fullgilt eða gerst aðili að samningnum er heimilt að fullgilda þessa bókun. Fullgildingarskjöl skal afhenda aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna til varðveislu.
3. Þessi bókun skal liggja frammi til aðildar fyrir hvert það ríki sem fullgilt hefur eða gerst aðili að samningnum.
4. Aðild skal öðlast gildi með því að aðildarskjal er afhent aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna til varðveislu.
5. Aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna skal tilkynna öllum þeim ríkjum sem undirritað hafa þessa bókun eða gerst aðilar að henni um afhendingu sérhvers fullgildingar- eða aðildarskjals.

9. gr.

1. Að áskilinni gildistöku samningsins skal þessi bókun öðlast gildi þremur mánuðum eftir þann dag sem