Blaðsíða:Alþjóðasamningur um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi.pdf/8

Úr Wikiheimild
Þessi síða hefur verið prófarkalesin

8 Nr. 10 1979 Lagasafn (útgáfa 140b) – Íslensk lög 11. september 2012

tíunda fullgildingar- eða aðildarskjalið er afhent aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna til varðveislu.

2. Nú fullgildir ríki þessa bókun eða gerist aðili að henni eftir afhendingu tíunda fullgildingar- eða aðildarskjalsins til varðveislu og skal þá þessi bókun öðlast gildi gagnvart því ríki þremur mánuðum eftir þann dag sem það afhendir sitt eigið fullgildingar- eða aðildarskjal til varðveislu.

10. gr.

Ákvæði þessarar bókunar skulu ná til allra hluta sambandsríkja án nokkurra takmarkana eða undantekninga.

11. gr.

1. Hvert það ríki sem aðili er að þessari bókun má bera fram breytingartillögu og fá hana skráða hjá aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna. Aðalframkvæmdastjórinn skal þá koma frambornum breytingartillögum til ríkja sem aðilar eru að þessari bókun ásamt tilmælum um að þau tilkynni honum hvort þau séu því hlynnt að haldin verði ráðstefna aðildarríkjanna til þess að athuga og greiða atkvæði um tillöguna. Ef að minnsta kosti einn þriðji aðildarríkjanna er hlynntur slíkri ráðstefnu skal aðalframkvæmdastjórinn kalla saman ráðstefnuna undir umsjá Sameinuðu þjóðanna. Sérhver breytingartillaga sem samþykkt er af meiri hluta þeirra aðildarríkja sem viðstödd eru og greiða atkvæði á ráðstefnunni skal lögð fyrir allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna til samþykktar.
2. Breytingartillögur skulu öðlast gildi þegar þær hafa verið samþykktar af allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna og af tveimur þriðju hlutum ríkja þeirra sem aðilar eru að þessari bókun í samræmi við stjórnskipunarhætti þeirra hvers um sig.
3. Þegar breytingartillögur öðlast gildi skulu þær vera bindandi fyrir þau aðildarríki sem hafa samþykkt þær, en önnur aðildarríki skulu áfram bundin af ákvæðum þessarar bókunar og sérhverri fyrri breytingartillögu sem þau hafa samþykkt.

12. gr.

1. Sérhvert aðildarríki má segja upp þessari bókun hvenær sem er með skriflegri tilkynningu sem send skal aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna. Uppsögn skal öðlast gildi þremur mánuðum eftir þann dag sem aðalframkvæmdastjórinn tekur við tilkynningunni.
2. Uppsögn skal ekki hafa nein áhrif á að ákvæðum þessarar bókunar sé beitt áfram við erindi sem lögð hafa verið fram samkvæmt 2. gr. fyrir gildan uppsagnardag.

13. gr.

Án tillits til tilkynninga samkvæmt 5. mgr. 8. gr. þessarar bókunar skal aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna tilkynna öllum þeim ríkjum sem vikið er að í 1. mgr. 48. gr. samningsins um eftirfarandi atriði:

(a) undirskriftir, fullgildingar og aðildir samkvæmt 8. gr.;
(b) gildistökudag þessarar bókunar samkvæmt 9. gr. og gildistökudag sérhverra breytingartillagna samkvæmt 11. gr.;
(c) uppsagnir samkvæmt 12. gr.

14. gr.

1. Bókun þessari skal komið til varðveislu í skjalasafni Sameinuðu þjóðanna og eru textarnir á kínversku, ensku, frönsku, rússnesku og spönsku jafngildir.
2. Aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna skal senda öllum þeim ríkjum sem vikið er að í 48. gr. samningsins staðfest afrit þessarar bókunar.

Önnur valfrjáls bókun við alþjóðasamning um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi um afnám dauðarefsingar.

Ríki þau sem aðilar eru að bókun þessari

telja að afnám dauðarefsingar stuðli að eflingu göfgi mannsins og framþróun mannréttinda,
minna á 3. gr. Mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna sem samþykkt var 10. desember 1948 og 6. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi sem samþykkt var 16. desember 1966,
minna á að í 6. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi sé vísað til afnáms dauðarefsingar á þann hátt að sérstaklega sé gefið til kynna að afnám dauðarefsingar sé æskilegt,
eru sannfærð um að allar ráðstafanir til afnáms dauðarefsingar skuli teljast auka möguleikana á að njóta réttar til lífs,
æskja að takast hér með á hendur alþjóðlega skuldbindingu um afnám dauðarefsingar,
hafa komið sér saman um eftirfarandi:

1. gr.

1. Enginn sem búsettur er innan lögsögu ríkis sem aðili er að bókun þessari skal tekinn af lífi.
2. Aðildarríki skal beita öllum nauðsynlegum ráðum til að afnema dauðarefsingu innan lögsögu sinnar.

2. gr.

1. Enginn fyrirvari er leyfilegur samkvæmt samningi þessum að undanskildum fyrirvara sem gerður er við fullgildingu eða aðild og gerir ráð fyrir beitingu dauðarefsingar á stríðstímum, við sakfellingu fyrir alvarlegustu afbrot hernaðarlegs eðlis framin á stríðstímum.
2. Aðildarríki sem gerir slíkan fyrirvara skal við fullgildingu eða aðild tilkynna aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna um viðeigandi ákvæði í lögum sem eiga við á stríðstímum.
3. Aðildarríki sem gert hefur slíkan fyrirvara skal tilkynna aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna upphaf eða endi stríðsástands sem nær til landsvæðis þess.

3. gr.

Ríki þau sem aðilar eru að bókun þessari skulu í skýrslum sem þau leggja fyrir mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna í samræmi við 40. gr. samningsins tilgreina þær ráðstafanir sem þau hafa gert til þess að veita bókun þessari gildi.

4. gr.

Að því er varðar ríki, sem aðilar eru að samningnum og gefið hafa yfirlýsingu samkvæmt 41. gr., skal lögbærni mannréttindanefndarinnar til þess að taka við og athuga orðsendingar þess efnis að aðildarríki heldur því fram að annað aðildarríki framfylgi ekki skyldum sínum einnig ná til ákvæða þessarar bókunar, nema því aðeins að hlutaðeigandi aðildarríki hafi gefið gagnstæða yfirlýsingu við fullgildingu eða aðild.

5. gr.

Að því er varðar ríki, sem aðilar eru að fyrstu valfrjálsri bókun við alþjóðasamning um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi sem gerð var 16. desember 1966, skal lögbærni mannréttindanefndarinnar til þess að taka við og athuga erindi frá einstaklingum, sem falla undir lögsögu þess, einnig ná til ákvæða bókunar þessarar, nema því aðeins að hlutaðeigandi aðildarríki hafi gefið gagnstæða yfirlýsingu við fullgildingu eða aðild.

6. gr.

1. Ákvæði bókunar þessarar skulu gilda sem viðbótarákvæði samningsins.
2. Að áskildum möguleika á að gera fyrirvara samkvæmt 2. gr. bókunar þessarar skal ekki heimilt að víkja samkvæmt 4. gr. samningsins frá rétti þeim sem tryggður er í 1. tölul. 1. gr. bókunar þessarar.

7. gr.

1. Bókun þessi skal liggja frammi til undirritunar fyrir hvert það ríki sem undirritað hefur samninginn.
2. Sérhverju ríki sem hefur fullgilt eða gerst aðili að samningnum er heimilt að fullgilda þessa bókun. Fullgildingarskjöl skal afhenda aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna til varðveislu.