Blaðsíða:Dómur Landsdóms nr. 3-2011.pdf/15

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search
Þessi síða hefur ekki verið villulesin


15 áhyggjur af hversu lengi frekari erlend skuldasöfnun, einkum hjá íslenskum bönkum, getur haldið áfram að fjármagna erlendar fjárfestingar.“ Samráðshópur um fjármálastöðugleika og viðbúnað kom saman í þriðja sinn á fundi 3. maí 2007. Af fundargerð verður ekki ráðið að nokkuð hafi komið þar fram, sem ástæða er til að geta hér um. 2 Sem fyrr segir tók ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar til starfa undir forsæti ákærða 24. maí 2007. Í stefnuyfirlýsingu hennar, sem var gerð 23. sama mánaðar, var kafli með fyrirsögninni „kraftmikið atvinnulíf“, þar sem meðal annars sagði eftirfarandi: „Íslenskt atvinnulíf mun einkennast í sívaxandi mæli af þekkingarsköpun og útrás. ... Íslensk fyrirtæki eru í harðnandi samkeppni við erlend fyrirtæki, bæði heima og heiman, og á næstu árum mun hugvit og tækni- og verkþekking ráða úrslitum um velgengni íslenskra fyrirtækja. Ríkisstjórnin vill skapa kjörskilyrði fyrir áframhaldandi vöxt, útflutning og útrás íslenskra fyrirtækja ... Í umbreytingu íslensks atvinnulífs á undanförnum árum felst meðal annars aukið vægi ýmiss konar alþjóðlegrar þjónustustarfsemi, þar á meðal fjármálaþjónustu. Ríkisstjórnin stefnir að því að tryggja að slík starfsemi geti áfram vaxið hér á landi og sótt inn á ný svið í samkeppni við önnur markaðssvæði og að útrásarfyrirtæki sjái sér áfram hag í að hafa höfuðstöðvar á Íslandi. Áhersla verður lögð á að efla Fjármálaeftirlitið til þess að íslenski fjármálamarkaðurinn njóti fyllsta trausts.“ Ákærði lét orð falla á sama veg í stefnuræðu, sem hann flutti á Alþingi 31. maí 2007. Seðlabanki Íslands lét frá sér fara tilkynningu 11. júní 2007 í tilefni af heimsókn sendinefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, sem lauk þann dag. Í tilkynningunni kom fram að nefndin hafi meðal annars lýst því áliti í niðurstöðum sínum að til lengri tíma væru efnahagshorfur hér á landi öfundsverðar, en opnir alþjóðlegir markaðir gætu þó grafið undan þjóðhagslegum stöðugleika, sem stjórnvöld yrðu að takast á við. Kæmi þetta að nokkru fram í miklum viðskiptahalla, örri skuldasöfnun og viðvarandi verðbólgu, sem bæri vott um hraðari vöxt innlendrar eftirspurnar en fengi staðist til lengdar. Fjármálakerfið hefði staðist með prýði erfiðleika á markaði fyrri hluta árs 2006, en nýjar hættur gætu verið að myndast. Bankarnir hafi á undanförnu ári tekið mikilvæg skref til að bæta úr veikleikum og auka viðnámsþrótt sinn, en þeir yrðu þó að þróa áhættustýringu í samræmi við vöxt sinn og margbrotnari starfsemi. Bankarnir yrðu ásamt eftirlitsstofnunum að beina sjónum sínum að áhættu af útlánum, en þau hafi vaxið mjög hratt, sem gæti gefið vísbendingu um útlánatap í framtíðinni, þótt