Blaðsíða:Frumvarp Stjórnlagaráðs.pdf/18

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Þessi síða hefur verið villulesin

Kjörgengur við kosningar til Alþingis er hver sá ríkisborgari sem kosningarétt á til þeirra og hefur óflekkað mannorð.

Hæstaréttardómarar eru þó ekki kjörgengir.

Glati alþingismaður kjörgengi missir hann þann rétt sem þingkosningin veitti honum. Vara­maður tekur þá sæti hans á þingi.

43. gr.

Gildi kosninga.

Alþingi kýs landskjörstjórn til þess að úrskurða um gildi forsetakosningar, kosninga til Al­þingis svo og þjóðaratkvæðagreiðslna.

Landskjörstjórn gefur út kjörbréf forseta og alþingismanna og úrskurðar hvort þingmaður hafi misst kjörgengi. Um störf landskjörstjórnar fer eftir nánari fyrirmælum í lögum.

Úrskurðum landskjörstjórnar má skjóta til dómstóla.

44. gr.

Starfstími.

Alþingi kemur saman eigi síðar en tveimur vikum eftir hverjar alþingiskosningar.

Í lögum skal kveðið á um samkomudag reglulegs Alþingis og skiptingu starfstíma þess í lög­gjafarþing.

45. gr.

Samkomustaður.

Alþingi kemur að jafnaði saman í Reykjavík en getur þó ákveðið að koma saman á öðrum stað.

46. gr.

Þingsetning.

Forseti Íslands stefnir saman Alþingi að loknum alþingiskosningum og setur reglulegt Al­þingi ár hvert.

Forseti stefnir einnig saman og setur Alþingi að tillögu forseta þess eða 1/3 hluta þing­manna.

47. gr.

Eiðstafur alþingismanna.

Sérhver nýr alþingismaður undirritar eiðstaf að stjórnarskránni þegar kosning hans hef­ur verið tekin gild.

48. gr.

Sjálfstæði alþingismanna.

Alþingismenn eru eingöngu bundnir við sannfæringu sína, en ekki við nein fyrirmæli frá öðrum.

­

49. gr.

Friðhelgi alþingismanna.

Ekki má setja alþingismann í gæsluvarðhald eða höfða sakamál á hendur honum án sam­þykk­is þingsins nema hann sé staðinn að glæp.

Alþingismaður verður ekki krafinn reikningsskapar utan þings fyrir það sem hann hefur sagt í þinginu nema Alþingi leyfi.

Alþingismanni er heimilt að afsala sér friðhelgi. 16